Tónlist í útförum
Flutningur tónlistar er venjulega stór hluti af fallegri útför og gjarnan leggja aðstandendur mikinn metnað í að fá framúrskarandi flytjendur til flutningsins og velja lög og texta sem flutt eru af alúð. Útfarir eru almennt auglýstar opinberlega og telst tónflutningur í útförum vera opinber tónflutningur.
Íslenska ríkið greiðir fyrir hönd þjóðkirkjunnar til tónhöfunda vegna tónflutnings í guðsþjónustum, en þar eru útfarir undanskildar. Í reglum Menntamálaráðuneytisins nr. 232/1974 er mælt fyrir um þóknun til höfunda vegna tónverka, en þar segir að greiða skuli gjald við jarðafarir til höfunda tónlistar og tilheyrandi texta sem nemur 5% af launum flytjenda.
Með samningi við STEF fá útfaraþjónustur heimild tónhöfunda til að nota tónlist þeirra við útfarir, á slíkt bæði við um erlenda sem innlenda tón- og textahöfunda. Slíkt sparar mikla fyrirhöfn því annars þyrftu útfararstofurnar (eða aðstandendur sjálfir) að semja sérstaklega við hvern höfund fyrir sig.
Langflestir sálmar sem sungnir eru í kirkjum á Íslandi njóta höfundaréttarverndar en slík vernd er skv. lögum í 70 ár eftir andlát höfundar. Oftast er tónflutningur í útförum sambland af tónlist sem er í höfundaréttarvernd og eldri tónlist og tekur ofangreint gjald mið af því. Ef ekki er flutt tónlist sem nýtur höfundaréttarverndar er gjaldið hins vegar ekki innheimt.
STEF óskar eftir sálmaskrám frá útförum frá útfararstofum, og á grundvelli þeirra er þeim höfundaréttargjöldunum sem innheimtast úthlutað til þeirra tónskálda (eða erfingja þeirra) sem eiga þau verk sem flutt eru.
STEF hefur átt gott samstarf við margar útfararstofur á landinu en vill mæla sérstaklega með eftirfarandi stofum, sem allar hafa verið til fyrirmyndar í sínum viðskiptaháttum og samskiptum.
- Útfararþjónusta Davíðs Ósvaldssonar ehf., Sæviðarsundi 11, Reykjavík
- Útfararstofa Kirkjugarðanna ehf., Vesturhlíð 2, Reykjavík
- Útfararþjónustan ehf., Fjarðarási 25, Reykjavík
- Útfararstofa Svafars og Hermanns, Síðumúla 28, Reykjavík
- Útfararþjónusta kirkjugarða Akureyrar ehf., Þórunnarstræti, Akureyri
- Útfararþjónusta Borgarfjarðar, Borgarnesi
- Fylgd ehf., Álftarima 11, Selfossi
Ef þig vantar upplýsingar, ekki hika við að hafa samband
Heimilisfang
Ármúli 7
108 Reykjavík.
Hafa samband
Sími: (+354) 561 6173
E-mail info(@)stef.is
Opnunartími skrifstofu
Virkir dagar frá:
10:00 til 12:00 & 13:00 til 15:00