„Langspilið“ var afhent á föstudaginn, en það eru sérstök verðlaun STEFs, sem árlega falla í skaut höfundar sem að mati stjórnar er talinn hafa skarað fram úr og náð eftirtektarverðum árangri á nýliðnu ári. Verðlaunahafi ársins er Friðrik Karlsson.
Ferill Friðriks er langur og farsæll. Fyrstu sporin sté hann á unglingsárum með danshljómsveitum, en snemma hneigðist Friðrik til jazz- og fönktónlistar og varð einn af stofnendum Mezzoforte, sem á miðjum níunda áratugnum sló í gegn erlendis og má með sanni kalla brautryðjanda íslenskrar tónlistarútrásar.
Samhliða spilmennsku innan- og utanlands hefur Friðrik á undanförnum árum gefið sig mjög að svokallaðri „lífsstílstónlist“, sem jafnan tengist hugleiðslu og heilsurækt í víðu samhengi. Það er einkum á því sviði sem vegur hans hefur vaxið mjög og árangur aukist á undanförnum misserum.
Við óskum Friðriki til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.
Á meðfylgjandi myndum hampar hann langspili sínu og kemur sjálfum sér fyrir á meðal annarra langspilshafa á sérstökum heiðursvegg í höfuðstöfðum STEFs.