(+354) 561 6173 | Address: Laufásvegur 40 - 101 Reykjavík - Iceland | info@stef.is

TÓNLIST Í LEIKSÝNINGUM OG ÖÐRUM SVIÐSVERKUM

Ef flytja á tónlist í sviðsverkum þarf sá sem setur verkið upp að athuga hvort tónlistin í verkinu sé frumsamin fyrir viðkomandi verk. Ef tónlistin hefur verið frumsamin er um svokölluð „stórréttindi“ eða „grand rights“ að ræða og verður sá er setur verkið upp að semja sérstaklega um réttinn til að flytja tónlistina í verkinu við viðkomandi tónskáld eða þann sem á réttinn að henni.  Það sama á við ef um er að ræða aðlögun að kvikmyndaverki fyrir leiksvið.  Sama gildir ef t.d. leikhús eða balletthópur fær tónskáld til að semja sérstaklega tónlist við sviðsverk er þá bæði samið um gerð verksins svo og opinberan flutning þess. Á þetta einnig við uppsetningar áhugaleikhópa og skóla að því marki að ekki sé um að ræða eiginlega fræðslustarfsemi innan opinberrar menntastofnunar.

Höfundaréttarsamtök eins og STEF innheimta ekki leyfisgjöld vegna flutnings á verkum sem teljast til stórréttinda.

Þegar um er að ræða þekkta erlenda söngleiki er mjög oft tónlistarforleggjari (e. „publisher“) sem fer með réttinn til að semja um uppsetningu verksins.  Oft er leyfisgjaldið þá um 12-20% af miðaverði sýningarinnar. Oft eru sérstök verð fyrir skóla og áhugaleikhópa. Getur STEF aðstoðað við að afla upplýsinga um hver rétthafinn er að viðkomandi verki, ef erfitt reynist að finna upplýsingar um slíkt eftir öðrum leiðum.  Einnig má benda á að Bandalag íslenskra leikfélaga   www.leiklist.is   getur einnig veitt upplýsingar um rétthafa og aðstoðar leikfélög við að afla slíkra leyfa.

Ef sá sem setur upp sviðsverk notar hins vegar áður útgefna og óskylda tónlist í verkinu (t.d. þegar notuð eru þekkt lög frá ákveðnu tímabili poppsögunnar) semur viðkomandi við STEF um leyfi fyrir tónlistinni.  Er það ávallt skilyrði fyrir leyfinu að STEF fái upplýsingar um hvaða tónlist er notuð í verkinu og byggir STEF úthlutun sína á þeim upplýsingum. Hafa atvinnuleikhúsin hér á landi fasta samninga við STEF vegna notkunar slíkrar tónlistar í þeim verkum sem þau setja upp.

Ef ætlunin er að flytja söngleikjalög án leikmyndar, búninga og leikgerðar á tónleikum, s.k. konsertuppfærslur, þarf samt sem áður að fá leyfi fyrir því frá rétthafa söngleiksins, nema um sé að ræða mjög stuttan úrdrátt úr viðkomandi verki, en þá getur STEF veitt leyfi fyrir tónleikunum.

Leyfi STEFs til slíks tónflutnings í sviðsverkum nær þó eingöngu til notkunar tónlistarinnar á sýningum en ekki til útgáfu verkanna á t.d. geisladisk eða DVD.  Til slíkrar útgáfu þarf ávallt samþykki höfundarins sjálfs og annast NCB síðan innheimtu á fjölföldunargjaldi vegna útgáfunnar fyrir höfunda og einnig hljóðsetningargjaldi ef höfundur kýs svo.

Vinsamlegast athugið að leyfi STEF´s getur aldrei náð til notkunar á logo upprunalegs söngleiks eða þvíumlíkt.  Það sama á við um notkun hljóðrita til auglýsinga á slíkum verkum.

Vert er að vekja einnig athygli á að þýðing texta leikverks eða söngtexta á íslensku krefst ávallt samþykkis upprunalegs höfundar lags, enda telst slíkt vera breyting á upprunalegu verki höfundar.

Ef þig vantar upplýsingar, ekki hika við að hafa samband

15 + 5 =

Heimilisfang

Laufásvegur 40

101 Reykjavík.

 

Hafa samband

Sími/Tel: (+354) 561 6173

E-mail: info (hjá) stef.is

 

Opnunartími skrifstofu

Virkir dagar frá:

10:00 til 12:00 & 13:00 til 15:00