Tónsetning

Leyfi fyrir tónlist í kvikmyndum og sjónvarpi.

Tónsetning

Það telst tónsetning (e. synchronisation) þegar tónlist er skeytt saman við mynd. Til þess þarf leyfi þeirra sem skapað hefa tónlistina (tón- og textahöfundar), semog frá leyfi þess sem á réttinn að viðkomandi upptöku, þ.e.a.s. vilji menn nota upprunalegan flutning á laginu (e. master right). Oftast eru það útgáfufyrirtæki sem eiga upptökuréttinn. Saman er stundum talað um „soundtrack“ rights. Hafi tónhöfundurinn samið við tónlistarforleggjara (e. publisher), þá annast hann venjulega samningsgerð um tónsetningu.

Höfundar sjá alfarið sjálfir um að semja við framleiðendur vegna leyfis til notkunar tónlistar þeirra við kvikmyndir og auglýsingar. STEF getur í slíkum tilvikum veitt höfundum ráðgjöf við samningsgerðina. Hafa verður í huga að samningsgerð um tónlist í kvikmynd er nokkuð ólík eftir því hvort um er að ræða frumsamda tónlist fyrir kvikmynd (e. original score) eða hvort verið sé að kaupa rétt til að nota tiltekið áður útgefið lag í kvikmynd eða sjónvarpsefni.

Höfundar geta sérstaklega óskað eftir því við NCB að NCB innheimti tónsetningargjald fyrir þá frá einstökum kvikmyndaframleiðendum. Geta höfundar þá notað gjaldskrá NCB fyrir hljóðsetningargjöld, ef þeir kjósa eða ef ekki hefur verið samið um annað endurgjald.

Hafa verður í huga hvað varðar tónsetningargjöld, að sjónvarpsstöðvar sem hafa samninga við STEF um opinberan flutning tónlistar, hafa heimild upp að vissu marki að nota tónlist við sína eigin framleiðslu án sérstaks leyfis höfundar.

Nánari upplýsingar um þessa tegund tónsetningarleyfa ásamt verðskrá er hægt að finna á heimasíðu NCB.

Fróðleikur um leyfismál

Jafnan er talað er um “tónsetningu” í þessu sambandi (e.þ.s. hljóðsetning). Tónsetning er það, þegar tónlist og mynd er skeytt saman (e. synchronisation). Til að setja lag í t.d. kvikmynd, sjónvarpsþætti eða auglýsingar þarf tvennt til:

  • Leyfi höfundar til að nota lagið – höfundaréttur (e. publishing).
    – Lagahöfundur eða tónlistarforleggjari (e. publisher) hans fer með réttinn til að veita leyfi (eða STEF/NCB í ákv. tilfellum (sjá neðar).
  • Leyfi útgefanda til að nota hljóðritið – þ.e. tiltekna upptöku af viðkomandi lagi – s.k. master-réttur.
    – Útgefandi hljóðritsins, sem er eigandi sjálfrar upptökunnar, fer með réttinn til að veita það leyfi.
    – Stundum vilja framleiðendur taka upp lagið að nýju, t.d. með nýjum flytjanda, en þá þarf ekki leyfi hjá útgefanda master-réttinn.

Meginreglan er sú að tónsetning er ekki heimil nema með samþykki höfundar. Spurningin er sú, hver veitir leyfið? Hvenær er það höfundurinn sjálfur og hvenær er það gert í gegnum höfundaréttarsamtök?

Þegar um er að ræða eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva á Íslandi (og í sumum öðrum löndum eins og á Norðurlöndunum og í Bretlandi), þá nægir að sjónvarpsstöðin hafi samning við STEF, en slíkum samningi fylgir leyfi til tónsetningar eigin framleiðslu.

  • Undir „eigin framleiðslu“ falla einnig kynningar á eigin dagskrárgerð í eigin miðlum.
  • Undantekningar:
    – Leikið efni (dramaseríur).
    – Kynningarlög / einkennislög þátta.

Sjálfstæðir framleiðendur efnis þurfa því alltaf að leita leyfis hjá rétthöfunum (höfundi og útgefanda, eigi að notast við upptöku sem til er).

Sé sýningarréttur keyptur af sjálfstæðum framleiðanda telst viðkomandi framleiðsla ekki vera eigin framleiðsla sjónvarpsstöðvarinnar, nema í þeim tilvikum sem sjónvarpsstöðin hefur einkarétt á sýningu viðkomandi efnis, þegar samningurinn er gerður, eða sjónvarpsstöðin á 50% eða meira í framleiðslunni.

Sé um það að ræða að efni sem telst til eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva verði síðar selt eða dreift annað, þá gildir ekki lengur leyfið samkvæmt samningnum við STEF, heldur verður viðkomandi framleiðandi þá að afla nýrra tónsetningarleyfa.

Hvar fást tónsetningarleyfi?

  • NCB (Nordisk Copyright Bureau) getur veitt leyfi í ákveðnum tilvikum:
    • Til sjónvarpsframleiðslu.
    • Einnig til leikinna sjónvarpsþáttaraða, EF sýningar eru eingöngu á Norðurlöndunum.
  • STEF veitir tónsetningarleyfi til smærri verkefna með leyfi til opinbers flutnings.
  • Í öðrum tilvikum þarf að hafa beint samband við höfundinn sjálfan (eða umboðsmann hans eða tónlistarforleggjara).
  • Sjá http://www.ncb.dk/pdf/av-pricelist-gentv-is.pdf
  • Ekki er til sambærilegt kerfi fyrir master-rétt. Framleiðandi þarf því alltaf að útvega leyfi hjá eiganda viðkomandi hljóðrits.
  • Í tilviki YouTube og Facebook er tónsetningarleyfi innifalið í samningi STEFs þegar notendur setja efni á þessar veitur. Þetta nær þó ekki til auglýsinga.
  • Oft er samið um svokallað „most favoured nation“, sem þýðir að báðir aðilar njóta þess ef annar aðilinn nær að semja um betri kjör. Algengast er að greitt sé sama verð fyrir master-réttinn og fyrir höfundaréttinn.

Fyrir hvern og einn sjónvarpsþátt eða kvikmynd með tónlist þarf framleiðandi að útbúa svokallað „cue sheet“ og skila því inn til STEFs. Þetta er nauðsynlegt til að hægt sé að úthluta til höfunda.

  • Í „cue sheet“ þarf að skrá bæði áður útgefin lög svo og frumsamda tónlist viðkomandi framleiðslu.
  • Skila þarf „cue sheet“ til STEFs, sem framsendir skjalið áfram inn í alþjóðlegt kerfi, sem tryggir greiðslur erlendis frá.
  • Öll verkin verða síðan að vera skráð hjá STEFi (eða erlendum systursamtökum) svo hægt sé að úthluta fyrir flutning tónlistarinnar.

Fyrir aðra framleiðslu sjónvarpsþátta, svo og framleiðslu ýmiss annars myndefnis sem ætlað er til dreifingar á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum, getur NCB veitt leyfi fyrir tónsetningu. NCB getur einnig veitt ákveðin leyfi til dreifingar utan þessa svæðis, en þá eingöngu ef notuð er tónlist þeirra sem eru meðlimir í höfundaréttarsamtökum á þessu svæði.

Þessi tónsetningarleyfi eru gefin út skv. gjaldskrá NCB. Hægt er m.a. að sækja um leyfi til tónsetningar á sjónvarpsþáttum, stuttmyndum og heimildamyndum sem ekki eru sýndar í kvikmyndahúsum (hægt að fá leyfi fyrir kvikmyndahátíðum), upptökum á tónleikum, skólaverkefnum, kynningum fyrirtækja og ýmsum öðrum minni verkefnum.

Leyfi þess sem á hljóðritið þarf síðan að sækja til viðkomandi útgefanda, ef nota á áður útgefið hljóðrit við tónsetninguna.

Nánari upplýsingar um þessa tegund tónsetningarleyfa ásamt verðskrá er hægt að finna á heimasíðu NCB.

Við tónsetningu, það er að segja þegar tónlist er skeytt saman við mynd, í framleiðslu til notkunar á Íslandi greiðir leyfishafi þóknum sem nemur 10% álagningu á árlegum leyfiskostnaði samkvæmt þeirri verðskrá sem á við viðkomandi framleiðslu, þó aldrei lægra en lágmarksverð 6.100 kr. per framleiðslu og ár. Þetta tónsetningarleyfi er ávallt veitt í tengslum við önnur leyfi STEFs.

Leyfið gildir einungis fyrir tónsetningu fyrir smærri verkefni. Sem dæmi um slíkt má nefna fyrirtækjakynningar (innanhúss eða milli fyrirtækja), notkun á netinu, verkefni í fræðslustarfsemi, líkamsræktarmyndbönd, listverkefni, tónleika, trúarþjónustur eða önnur minni verkefni.  Ekki er þörf á sérstöku tónsetningarleyfi ef framleiðsluna er eingöngu að finna á miðlunum Facebook, Instagram eða YouTube.

Leyfið gildir ekki fyrir verk sem flokkast undir stórréttindi eins og óperur, söngleiki eða leikverk. Ber þá að hafa samband við höfunda beint til að afla leyfis.

Leyfið gildir ekki fyrir auglýsingamyndbönd eða annað sem flokkast getur sem auglýsingar, einkennisstef þátta, sjónvarpsþætti eða samsvarandi framleiðslu fyrir netið, dramaþætti, kvikmyndir, heimildamyndir eða fyrirtækjamyndbönd sem sýnd eru opinberlega. 

Samþykkt af stjórn STEFs 4. október 2021

Cue-sheet er n.k. skýrsla sem fylgir sjónvarps- og kvikmyndum og geymir upplýsingar um alla þá tónlist sem fram kemur í viðkomandi mynd/þætti, jafnt í forgrunni sem í bakgrunni. Ef um nýja/frumsamda tónlist er að ræða, þarf tónskáldið einnig að passa upp á að skrá hana hjá STEFi (alveg eins og gert er með önnur tónverk/lög). Skráning verka fer fram í gegnum „Mínar síður“. Ef verk/score er ekki til á skrá, þá er ekki hægt að tengja það við cue-sheet og skrá flutning á það.

Hér má finna eyðublað/grind af alþjóðlegu „music cue-sheet“ sem hægt er að fylla út.

Scroll to Top