Heilsuræktarstöðvar

Tónlist hefur áhrif á líðan og árangur í ræktinni

Tónlist er vel þegin hvarvetna, hún styttir fólki stundir og hefur áhrif á upplifun og árangur. En hljómi tónlist í opinberu rými, t.d. á heilsuræktarstöðvum, þá ber að afla leyfis til þess og greiða fyrir það sanngjarnt verð. Öllum ætti að vera ljóst að þessi kostnaðarliður, sem ekki getur talist hár, skilar sér margfalt til baka í ánægðum viðskiptavinum.

Verðskrá STEFs og SFH fyrir heilsuræktarstöðvar:

Fyrir að leika tónlist á heilsuræktarstöðvum og sambærilegri starfsemi, hvort sem um er að ræða í opnum rýmum/tækjasal, búningsklefum eða í hóptímum, ber rekstraraðilum að greiða sem hér segir (skv. verðskrá í okt. 2023):

Stöðvar allt að 100 fm að stærð greiða 6.045 kr. á mánuði. Hver fermetri umfram 100 kostar 24 kr.

STEF sendir reikninga fyrir greiðslunni, tvisvar á ári. Umgetið verð í krónutölu uppfærist ársfjórðungslega miðað við lánskjaravísitölu. Athugið að í verðinu felst einnig þóknun til SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), sem sér um að greiða söngvurum, hljóðfæraleikarum og hljómplötuframleiðendum, sem einnig eru rétthafar þegar leikin er tónlist af upptökum).

Áhrif tónlistar í viðskiptum og rekstri

Tónlist laðar að viðskiptavini og skapar skemmtilegt andrúmsloft fyrir starfsfólk.

Tónlistin hefur þann einstaka eiginleika að hún breytir líðan fólks. Rannsóknir hafa sýnt fram á það, að þegar hlýtt er á tónlist framleiðir heilinn vellíðunarhormón á borð við adrenalín og dópamín.

Rannsóknir sýna jafnframt að tónlist hefur mikil áhrif á kauphegðun viðskiptavina í verslunum, þjónustufyrirtækjum, veitingastöðum, krám (o.s.frv.) og að fólki finnst erfiðara að vera án tónlistar en án íþrótta, kvikmynda, sjónvarpefnis og tímarita.

Einnig hafa rannsóknir sýnt, að verst er fyrir langflest viðskipti að í rýminu ríki þögn, þar sem viðskiptavinum þykir það óþægilegt og vandræðalegt og eru yfirleitt fljótir að koma sér út úr slíkum rýmum/aðstæðum.

Tónlistin hefur jafnframt þann eiginleika að dylja óþægileg umhverfishljóð, t.d. suð í frystiskápum, glamur í hnífapörum eða skrölt í vögnum. Auk þess getur tónlist hindrað að talmál heyrist milli borða og má því segja að hún skapi næði, þótt hún ómi.

Í aukinni samkeppni hefðbundins verslunarrekstur við vefverslanir verður upplifun viðskiptavina í verslunum enn mikilvægari. Verslanir sem bæði selja í gegnum vef og reka hefðbundna verslun, hafa í auknum mæli fært sig frá því að sýna vörur í versluninni, yfir í að veita þar fyrst og fremst þjónustu og skapa stemmningu, þar sem tónlist skiptir miklu máli við að byggja upp ímynd vörumerkis og efla tengingu við viðskiptavininn. Sjálf kaupin fara hins vegar meira fram á netinu.

Tónlistin getur ekki bara látið viðskiptavinum líða vel, þannig að þau eyði meiri tíma í versluninni, sem er grundvallaratriði til að auka verslun, heldur getur tónlist beinlínis haft áhrif á ákvörðunartöku viðskiptavinarins.

Það skiptir auðvitað máli að velja réttu tónlistina. Rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst kunnugleg tónlist sem viðskiptavinir vilja heyra og auðvitað þarf að haga tónlistarvali eftir því hver markhópurinn er og hvaða ímynd það er sem viðkomandi fyrirtæki vill skapa.

Eins þarf að haga tónlistarvali eftir tíma dags, vikudögum, mánuðum, hátíðardögum, o.s.frv. Þannig vilja flestir t.d. heyra jólalög í desemberversluninni.

Scroll to Top