Halló! 😉

Aðild að STEFi er ókeypis,
sem og þjónusta sem starfsfólk veitir höfundum

Kostir þess að vera meðlimur í STEF

STEF eru frjáls félagasamtök sem eru eingöngu í eigu höfunda og stjórnað af höfundum. Þau eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Allar innheimtar tekjur fara til úthlutunar, eftir að rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Fyrir utan þá hefðbundnu starfsemi STEFs, að annast innheimtu höfundaréttargjalda og úthluta þeim til rétthafa, geta þeir rétthafar sem afhent hafa STEFi umboð sitt fengið ýmsa viðbótarþjónustu hjá STEFi.

Fleiri kostir þess að vera meðlimur STEFs:

  • Einfalt að skrá verk.
  • Einfaldar og auðskiljanlegar skilagreinar v. úthlutanna.
  • Aðgangur að upplýsingum um skráningu verka og úthlutanir á „Mínum síðum“.
  • Stuttar boðleiðir — auðvelt að ná í rétta fólkið — persónuleg þjónusta — samskipti á íslensku — aðstoð við skráningu o.fl.
  • Greiðsla höfundaréttargjalda er á einum stað fyrir opinberan flutning og eintakagerð (s.k. „mekanísk“ réttindi). Utan Norðurlandanna fara oft mismunandi samtök með þessi réttindi, eða að viðkomandi verður að vera með tónlistarforleggjara (e. publisher) til að allar greiðslur fyrir mekanísk réttindi skili sér.
  • Aðild að STEFi tryggir einnig greiðslur erlendis frá í gegnum erlend systursamtök STEFs, svo og frá alþjóðlegum tónlistarveitum á borð við Spotify, YouTube o.fl.
  • Öll verk meðlima STEFs fara sjálfkrafa í alþjóðlegan gagnagrunn með norrænum, breskum og þýskum höfundaréttarsamtökum, sem tryggir öruggar greiðslur frá opinberum flutningi erlendis.
  • STEF býður meðlimum reglulega upp á ýmiss konar fræðslufundi og námskeið.
  • Meðlimum býðst lögfræðileg ráðgjöf, s.s. vegna samningsgerðar um tónlist í kvikmyndum, auglýsingum og vegna samninga við útgefendur og tónlistarforleggjara. Í flestum öðrum samtökum hafa tónlistarforleggjarar mikil ítök og því er ekki hægt að veita slíka þjónustu. Ráðgjöf er einnig veitt vegna hugsanlegra brota á sæmdarrétti.
  • Sjóðir STEFs veita styrki til nýrrar útgáfu, til útgáfu nótna og útsetninga og til tónleikaferða erlendis, svo og vegna þátttöku í lagahöfundabúðum. Þá veitir STEF einnig styrki til tónsmíða í gegnum sameiginlega sjóði með RÚV, Sýn og kirkjunni, svo og til að semja stærri verk.
  • STEF úthlutar alls 12 sinnum á ári til höfunda.

Skattamál

Mikið skattalegt hagræði er af því að höfundar búsettir hér á landi séu meðlimir í STEFi.

  • STEF annast greiðslu á fjármagnstekjuskatti af útgreiddum tekjum til höfunda og er skatturinn forskráður sem greiddur á skattframtali. Þegar höfundur hefur fengið greitt frá STEFi, þá er þannig búið að draga frá 22% fjármagnstekjuskatt og höfundur þarf því ekki að aðhafast frekar vegna þessa.
  • STEF annast það fyrir hönd höfunda, að afla skattskylduvottorða (e. certificate of residence) til að komast hjá mögulegri tvískattlagningu í upprunalandi höfundaréttartekna í þeim ríkjum sem Ísland hefur tvísköttunarsamninga við. Sérstakar staðfestingar á lögheimili höfunda eru gefnar út til handa höfundaréttarsamtökum í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og víðar til að koma í veg fyrir tvísköttun tekna frá þessum löndum. Sé höfundur EKKI meðlimur í STEFi (heldur meðlimur í erlendum höfundaréttarsamtökum), en engu að síður búsettur á Íslandi, þá þarf höfundurinn sjálfur að sjá um allt það sem viðkemur skattgreiðslunni og þarf því sjálfur að afla skattskylduvottorðs, telja tekjurnar fram á framtali og greiða fjármagnstekjuskatt allt að ári eftir að þeirra hefur verið aflað.
  • Hafi skattur verið dreginn af tekjunum erlendis, þá þarf viðkomandi að óska sérstaklega eftir frádrætti hér á landi, sem samsvarar þeim skatti sem greiða hefði átt af tekjunum hér á landi (eða sem samsvarar þá 22% fjármagnstekjuskatti). Hafi höfundurinn engu að síður greitt hærri skatt erlendis en hann hefði greitt hér á landi (hefði hann verið meðlimur í STEFi), þá þarf hann sjálfur að hafa samband við hin erlendu skattyfirvöld og óska eftir endurgreiðslu á mismuninum (í þeim löndum sem Ísland hefur tvísköttunarsamning við).
  • Til viðbótar er líklegt að haldið sé eftir skatti í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og víðar þegar höfundaréttartekjur eru greiddar frá þessum löndum til erlendra höfundaréttarsamtaka, vegna meðlima þeirra sem búsettir eru hérlendis, en ekki í sama landi og viðkomandi samtök. Í þessum tilvikum er því fyrst búið að draga frá fullan launaskatt í viðkomandi löndum, áður en fjármunir eru sendir til þeirra erlendu höfundaréttarsamtaka sem viðkomandi er meðlimur í – og þar er síðan aftur haldið eftir fullum launaskatti, sbr. það sem fram kemur hér að ofan. Til að fá þennan skatt endurgreiddan þarf þá til viðbótar samskipti við skattyfirvöld í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og víðar.

Meðlimir STEFs fá alþjóðlegt höfundanúmer (s.k. IPI-númer) sem er nauðsynlegt til að fá úthlutað fyrir opinberan flutning verka þeirra erlendis. Á þetta jafnt við um flutning í útvarpi/sjónvarpi, á tónleikum, sem og á tónlistarveitum, en samningar og samstarf STEFs við liðlega 70 erlend systursamtök tryggja flæði fjármuna á milli samtaka, sem hver um sig innheimta á sínu svæði og úthluta síðan til þeirra samtaka sem viðkomandi höfundar tilheyra.

Tilhögun skattamála

Upptaka af fræðslufundi um skattamál tónhöfunda (21. nóvember 2023)


Munurinn á skattlagningu eftir því að vera í STEFi eða erlendum höfundaréttarsamtökum, kostir og gallar þess að fá höfundaréttartekjur í gegnum félag eða sem einstaklingur og fleiri praktísk atriði.

Í gegnum NCB geta rétthafar fengið höfundaréttargjöld af útgáfu og mekanískri eintakagerð verka þeirra hérlendis sem erlendis. Á það t.d. við um eintakagerð sem á sér stað í gegnum tónlistarveitur eins og iTunes.

STEF veitir lögfræðilega ráðgjöf við gerð samninga sem tónhöfundar gera, t.d. við útgefendur, tónlistarforleggjara (e: music publishers) og kvikmyndaframleiðendur.

STEF veitir lögfræðilega ráðgjöf í tengslum við brot á sæmdarrétti höfunda.

STEF veitir á ári hverju fjölda styrkja til meðlima sinna. Hægt er að sækja um styrki til útgáfu hljóðrita svo og útgáfu nótna. Þá er einnig hægt að sækja um styrki til tónleikaferða. Nánari upplýsingar um styrki STEFs er að finna undir liðnum Styrkir & sjóðir.

Scroll to Top