Viðskiptavinir

Tónlistin auðgar lífið og eykur viðskiptin!

Áhrif tónlistar í viðskiptum og rekstri

Tónlist laðar að viðskiptavini og skapar skemmtilegt andrúmsloft fyrir starfsfólk.

Tónlistin hefur þann einstaka eiginleika að hún breytir líðan fólks. Rannsóknir hafa sýnt fram á það, að þegar hlýtt er á tónlist framleiðir heilinn vellíðunarhormón á borð við adrenalín og dópamín.

Rannsóknir sýna jafnframt að tónlist hefur mikil áhrif á kauphegðun viðskiptavina í verslunum, þjónustufyrirtækjum, veitingastöðum, krám (o.s.frv.) og að fólki finnst erfiðara að vera án tónlistar en án íþrótta, kvikmynda, sjónvarpefnis og tímarita.

Einnig hafa rannsóknir sýnt, að verst er fyrir langflest viðskipti að í rýminu ríki þögn, þar sem viðskiptavinum þykir það óþægilegt og vandræðalegt og eru yfirleitt fljótir að koma sér út úr slíkum rýmum/aðstæðum.

Tónlistin hefur jafnframt þann eiginleika að dylja óþægileg umhverfishljóð, t.d. suð í frystiskápum, glamur í hnífapörum eða skrölt í vögnum. Auk þess getur tónlist hindrað að talmál heyrist milli borða og má því segja að hún skapi næði, þótt hún ómi.

Í aukinni samkeppni hefðbundins verslunarrekstur við vefverslanir verður upplifun viðskiptavina í verslunum enn mikilvægari. Verslanir sem bæði selja í gegnum vef og reka hefðbundna verslun, hafa í auknum mæli fært sig frá því að sýna vörur í versluninni, yfir í að veita þar fyrst og fremst þjónustu og skapa stemmningu, þar sem tónlist skiptir miklu máli við að byggja upp ímynd vörumerkis og efla tengingu við viðskiptavininn. Sjálf kaupin fara hins vegar meira fram á netinu.

Tónlistin getur ekki bara látið viðskiptavinum líða vel, þannig að þau eyði meiri tíma í versluninni, sem er grundvallaratriði til að auka verslun, heldur getur tónlist beinlínis haft áhrif á ákvörðunartöku viðskiptavinarins.

Það skiptir auðvitað máli að velja réttu tónlistina. Rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst kunnugleg tónlist sem viðskiptavinir vilja heyra og auðvitað þarf að haga tónlistarvali eftir því hver markhópurinn er og hvaða ímynd það er sem viðkomandi fyrirtæki vill skapa.

Eins þarf að haga tónlistarvali eftir tíma dags, vikudögum, mánuðum, hátíðardögum, o.s.frv. Þannig vilja flestir t.d. heyra jólalög í desemberversluninni.

Endurgjald fyrir tónlistarflutning

Greiða þarf fyrir opinberan flutning á tónlist. Nær undantekningarlaust er um opinberan flutning að ræða sé ekki verið að leika tónlist innan fjögurra veggja heimilisins. Í skilningi höfundalaga eru staðir, sem viðskiptavinir hafa aðgang að, opinberir staðir, þar með taldar verslanir, hárgreiðslustofur, rakarastofur, heilsuræktarstöðvar, sólbaðsstofur o.s.frv.

Þeir fjármunir sem þú reiðir af hendi sem viðskiptavinur skila sér til þeirra sem hafa búið til tónlistina og textann, bæði erlendra og innlendra höfunda. Með greiðslu tryggir þú höfundum tónlistar og texta sanngjarna þóknun fyrir afnot af tónlist þeirra og stuðlar þannig að því að frekari nýsköpun.

STEF leitast eftir megni að tryggja eins réttláta skiptingu á hinu innheimta fé og hægt er, þannig að höfundar fái greitt í samræmi við hversu oft tónlist þeirra er leikin. Því tekur STEF við tónflutningsskýrslum frá útvarpsstöðvum sem halda skrá yfir tónlistina sem þær senda út. Einnig er fylgst með flutningi tónlistar á tónleikum, í kvikmyndahúsum, leikhúsum og víðar.

Á grundvelli samstarfssamnings við SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðanda) fer hluti greiðslu viðskiptavina áfram til flytjenda og útgefenda tónlistar.

Greiðslur vegna notkun tónlistar í atvinnurekstri eru frádráttarbær kostnaður eins og annar rekstrarkostnaður fyrirtækja og er greiðslurnar undanþegnar virðisaukaskatti skv. lögum.



Athugið
: STEF áskilur sér rétt til að skrásetja öll þau fyrirtæki sem flytja tónlist opinberlega í starfsemi sinni. Ef rekstraraðilar svara í engu beiðni um upplýsingar um notkun á tónlist og umfang starfseminnar, þá reiknast 12.000. kr. álag á fyrsta reikning.

Ef í ljós kemur að rekstraraðili, sem segist ekki flytja tónlist opinberlega í starfsemi sinni, en er engu að síður að nota tónlist, þá reiknast 50% álag á fyrsta reikning. Verður þá innheimt leyfisgjald frá og með þeim tíma sem í ljós kom að tónlist var sannarlega notuð.

Lagagrundvöllur leyfisgjalda STEFs

Þegar tónlist er flutt opinberlega þarf leyfi viðkomandi tón- og textahöfunda. Byggist það á þeirri grundvallarreglu höfundalaga nr. 73/1972, að höfundur að verki á eignarrétt á verkinu sbr. 1. gr. og hefur hann einkarétt á að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi sbr. 2. gr.

Verk telst vera gert aðgengilegt almenningi þegar það er flutt opinberlega og á það við hvort sem því er miðlað um þráð eða þráðlaust, það sent út í útvarpi eða á gagnvirkan hátt. Það telst einnig vera opinber flutningur þegar verk er flutt á vinnustað fyrir stóran hóp manna, sem endranær er talinn vera lokaður hópur, svo og þegar útvarpsflutningi á tónlist er endurvarpað í rými sem er opið almenningi. (Í þessum skilningi þýðir útvarp bæði hljóðvarp og sjónvarp).

STEF veitir leyfi fyrir hönd innlendra sem og erlendra tónhöfunda vegna opinbers flutnings hér á landi á grundvelli aðildarsamninga meðlima STEFs og gagnkvæmra samninga STEFs við erlend systursamtök. Þá hefur STEF enn fremur rétt til að veita leyfi fyrir hönd annarra tónhöfunda á grundvelli viðurkenningar menningar- og viðskiptaráðuneytis (s.k. samningskvaðaleyfi).

Byggist þetta leyfiskerfi á því að það er ómögulegt fyrir einstaka höfunda að fylgjast með og innheimta hver um sig fyrir flutning verka sinna. Um leið er ómögulegt fyrir þá sem vilja flytja tónlist opinberlega að sækja um slík leyfi til hvers og eins höfundar.

Í nær öllum tilfellum, þar sem ekki er verið að leika tónlist innan veggja heimilis, er um opinberan flutning að ræða. Flutningur tónlistar í rýmum þar sem tekið er á móti viðskiptavinum telst þannig ávallt vera opinber flutningur í skilningi höfundalaga. Sem dæmi um slík rými eru verslanir, veitingastaðir, krár, klúbbar, heilsuræktarstöðvar, heilsulindir, snyrtistofur, hárgreiðslustofur, hótel og gistiheimili, biðstofur af ýmsu tagi, svo og íþróttahús, salir sem leigðir eru til skemmtanahalds og tónleikastaðir.

Fjölmargir dómar hafa gengið um opinberan flutning tónlistar á síðustu áratugum og leikur enginn vafi á þessari túlkun á höfundalögunum eða heimild STEFs til innheimtu.

Markmið STEFs er að tryggja höfundum sanngjarna þóknun fyrir afnot af tónlist þeirra og stuðla þannig að því að samin sé ný tónlist til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt. Þeir fjármunir sem STEF innheimtir fara því allir (að frádregnum rekstrarkostnaði samtakanna) til úthlutunar til höfunda, jafnt innlendra sem erlendra.

Það er algengur misskilningur að frjálst sé að leika tónlist án greiðslu til STEFs fyrir viðskiptavini, svo lengi sem tónlistin sem leikin er kemur úr útvarpi eða sjónvarpi. Greiðsla útvarpsstöðva til STEFs er aðeins fyrir heimild til að senda út tónlist, en leyfir viðtakanda ekki að flytja tónlistina í atvinnuskyni þar sem hún nær eyrum almennings. Um þetta er sérstaklega fjallað í greinargerð með höfundalögum, þar sem segir að þegar útvarpsflutningur á tónlist eða bókmenntaverki er gerður aðgengilegur almenningi, á þann hátt að honum er dreift með hátalara til almennings, t.d. í verslunum eða á öðrum stöðum sem aðgengilegir eru almenningi, þá er um að ræða sjálfstæðan opinberan flutning verksins.

Staðreyndir úr rannsóknum á áhrifum tónlistar á kauphegðun

  • Samkvæmt könnun meistaranema í HR í markaðsfræði töldu 61% íslenskra verslunareigenda tónlist hafa jákvæð áhrif á kauphegðun viðskiptavina og 80% þeirra taldi tónlistina hafa jákvæð áhrif á starfsanda.
  • Samkvæmt rannsókn Hui í Svíþjóð jókst sala á veitingastöðum um 9,1% að meðaltali, þegar veitingastaðir spiluðu tónlist sem passaði við ímynd þeirra. Sérstaklega á sér stað meiri sala á viðbótarvörum og þannig jókst sala á eftirréttum um meira en 15%.
  • Samkvæmt rannsókn Heartbeats International Sweden fær tónlist sem viðskiptavinir kunna að meta u.þ.b. 35% viðskiptavina til að dvelja lengur í versluninni, 31% segist frekar koma aftur í verslunina og 14% sögðust kaupa meira. Sama rannsókn sýndi að fólki finnst almennt mikilvægt að listamenn og höfundar fái greitt fyrir þá tónlist sem spiluð er opinberlega.
  • Samkvæmt rannsókn Ronald E. Milliman, sem beindist sérstaklega að viðskiptavinum stórmarkaða, þá dvelja þeir almennt lengur í versluninni ef spiluð er hæg og þægileg tónlist – og veltan jókst um 38%, miðað við það ef spiluð var mjög hröð tónlist eða ef þögn ríkti á staðnum. Þetta kallast á við reynslu íslenskra stórmarkaða, sem hefur sýnt að það tekur mislangan tíma fyrir innkaupakörfu að rúlla í gegnum verslunina, það fer eftir því hvernig tónlist er spiluð á staðnum; fólk er lengur inni og kaupir meira ef tónlistin er þægileg.
  • Á veitingastöðum skiptir tónlistin öllu máli við að búa til rétt andrúmsloft. Samkvæmt rannsókn Music Works for You þá telur 71% gesta andrúmsloftið rómantískara með tónlist og 74% njóta betur máltíðarinnar með góðri tónlist. 78% segist afslappaðra á veitingastöðum sem spila góða tónlist. Rannsókn sömu aðila sýnir jafnframt að það, að spila lifandi tónlist er besta leiðin til að auka sölu á barnum, en 95% eigenda kráa sögðu veltu hafa aukist þau kvöld sem boðið var upp á lifandi tónlist og hafi að meðaltali aukist um 44%.
  • Í þjónustustarfsemi skiptir tónlist einnig máli, en í fyrrnefndri rannsókn Music Works for You segjast 80% viðskiptavina tónlistina stytta sér biðina. Á það ekki bara við á staðnum sjálfum, heldur einnig þar sem beðið er eftir símsvörun.
  • Allar rannsóknir sýna, að því yngri sem neytendahópurinn er, þeim mun meira máli skiptir tónlistin í versluninni.

Texta- og gagnanám: Skilyrði til notkunar fyrir gervigreind (AI)

STEF vill tryggja að höfundarréttarvarið efni meðlima verði ekki hluti af þróun gervigreindar, nema afdráttarlaust samþykki þeirra liggi fyrir. Á þetta við um — en takmarkast ekki við — mállíkön, grunnlíkön, spunagervigreindarkerfi og tillögu-algrím.

STEF áskilur sér rétt til að undanskilja verk meðlima sinna í texta- og gagnanámi, í samræmi við einkarétt höfunda til eintakagerðar verka sinna skv. 2. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. einnig tilskipun Evrópusambandsins 2019/790. Þar af leiðandi er öll notkun á verkum aðildarfélaga fyrir texta- og gagnanám háð leyfi STEFs, nema lög kveði á um annað.

STEF leggur áherslu á að samkvæmt mati samtakanna, þá veiti ákvæði höfundalaga og Evrópusambandsins ekki aðgang að texta- og gagnanámi til notkunar við þróun gervigreindar. STEFi er hins vegar ljóst, að ekki er einhugur um þá skoðun, sér í lagi á meðal alþjóðlegra tæknifyrirtækja. STEF áskilur sér engu að síður að meta ákvæði laganna eins og fyrr segir.

Beiðnir um notkun verka sem STEF fer með umboð fyrir, til notkunar fyrir texta- og gagnanám, skulu berast til STEFs á netfangið sala@stef.is.

Bakgrunnur skilyrða fyrir texta- og gagnanámi

Framfarir á sviði gervigreindar, að spunagreind (e. generative AI) með talinni, eru að verulegu leyti háðar umtalsverðu gagnamagni. Til þess að þjálfun gervigreindar skili árangri, skiptir aðgengi að yfirgripsmiklum og fjölbreyttum gagnasöfnum miklu. Þessi gagnasöfn gera gervigreindinni kleift að bera kennsl á, læra og skilja flókin mynstur.

Í þróun gervigreindar, sem er fær um að framleiða tónlist og texta, gætu þessi gagnasöfn t.d. samanstaðið af:

  • Tónlist (hljómflutningi) – að meðtöldum hljóðblönduðum upptökum, ásamt einstökum rásum eða s.k. stemmum
  • Textum
  • Stafrænum framsetningum á borð við MIDI-skrár
  • Myndrænum framsetningum í formi nótnablaða, hljóma, minnispunkta, fingrasetninga
  • Rituðum lýsingum á tónlistinni í formi lýsigagna og merkimiða
  • Gögnum úr tónverkagagnagrunnum, sem tengja ákveðin lög við ákveðna höfunda

Með því að greina þessi mynstur, er hægt að búa til háþróuð líkön sem spá fyrir um, líkja eftir og framleiða ný gögn. Þessi líkön — sem eru yfirleitt kölluð stór tungumálalíkön, grunnlíkön, eða spunagreindarkerfi — mynda grunninn að mörgum gervigreindarveitum, sem notaðar eru um þessar mundir og koma til með að verða notaðar í framtíðinni.

Þetta felur í sér yfirgripsmikla kortlagningu á hljóði og formgerð tónlistar, sem gerir notendum kleift að biðja gervigreindina um að framleiða tónlist og texta.

Þróun slíkra veitna er háð framlagi tónhöfunda, sem hafa kynslóðum saman auðgað tónlistarmenningu okkar og arfleifð.

Leyfis er krafist til þess að þjálfun og/eða þróun gervigreindar geti falið í sér höfundarréttarvarin verk.

Hér fyrir neðan er greint frá skráningu verka, sem samin eru með aðstoð gervigreindar (sjá: Skráning verka sem samin eru með aðstoð gervigreindar).

Nokkrar tillögur um það hvernig hægt er að búa til meiri upplifun í verslunarumhverfi

  • Setja upp kaffihús eða bar inni í versluninni.
  • Leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu.
  • Leggja áherslu á einstaklingsbundnar vörur – helst ef hægt er að framleiða þær á staðnum á meðan viðkomandi bíður.
  • Tengjast listum af öllu tagi.
  • Standa fyrir „pop-up“ viðburðum, t.d. á þann hátt að einhver þekktur listamaður kæmi fram í versluninni.
  • Tengja verslunarferðina við snjallsímann – t.d. með því að sérstök tilboð birtust í símanum þegar viðskiptavinurinn mætir á svæðið.
  • Með snjallsímum geta viðskiptavinir einnig uppgötvað nýja tónlist (margir nota snjallsíma til að þekkja tónlistina sem spiluð er á meðan verslað er). Hægt væri að hvetja til þess með sýnilegum skilaboðum til viðskiptavinarins.
  • Hægt væri að gefa viðskiptavinum möguleika á að hafa áhrif á hvaða tónlist er spiluð t.d. með því að kjósa um næsta lag.

Rétt er að vekja athygli á því að til eru innlend fyrirtæki sem sérhæfa sig í því að velja tónlist fyrir verslanir. Má í því sambandi nefna Aurora Stream og Megafone.

Kynningarbæklingur

„Láttu tónlistina vinna fyrir þig“
STEF Kynningarbæklingur

Verðskrár & upplýsingar

Veitingastaðir
Veitingastaðir
Verslanir
Verslanir
Tónleikar
Tónleikar
Tónleikar - Streymi
Tónleikar - Streymi
Samkomur & viðburðir
Samkomur & viðburðir
Tónlist á netinu, hlaðvörp o.fl.
Tónlist á netinu, hlaðvörp o.fl.
Hljóðvarp & Sjónvarp
Hljóðvarp & Sjónvarp
Hárgreiðslu & Snyrtistofur
Hárgreiðslu & Snyrtistofur
Hótel & gististaðir
Tónsetning - Leyfi fyrir tónlist í kvikmyndum & sjónvarpi
Tónsetning - Leyfi fyrir tónlist í kvikmyndum & sjónvarpi
Biðtónlist á símalínum
Biðtónlist á símalínum
Sviðsverk
Sviðsverk
Íþróttastarf
Íþróttastarf
Sönghefti
Sönghefti
Dansskólar / líkamsrækt
Dansskólar / líkamsrækt
Útfarir
Útfarir
Tónlist í loftförum
Tónlist í loftförum
Hlaup
Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda

Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) var stofnað árið 1973. Aðildarfélög eru Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Félag íslenskra tónlistarmanna, Félag íslenskra leikara, Samband íslenskra karlakóra, Samband blandaðra kóra, Samband íslenskra lúðrasveita og Samband hljómplötuframleiðenda. Félagið er löggilt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Tilgangur sambandsins er að gæta réttar flytjenda og hljómplötuframleiðenda til heimtu gjalda af markaðshljóðritum (plötum, segulböndum, af netinu, o.s.frv.) skv. 47 grein höfundalaga.

Helstu greiðendur eru: Útvarpsstöðvar, veitingahús, verslanir, vinnustaðir og aðrir aðilar sem nota hljóðrit til tónflutnings. Um innheimtu SFH-gjalda sér sambandið sjálft að hluta, en að hluta til sér STEF um hana samhliða innheimtu höfundaréttargjalda.

Innheimtuhlutfall STEFs fyrir SFH er nú 60% af STEF-gjaldinu.

Ísland hefur fullgilt svokallaðan Rómarsáttmála til verndar listflytjendum og hljómplötuframleiðendum og gætir sambandið því ekki aðeins hagsmuna íslenskra rétthafa, heldur einnig erlendra.

Scroll to Top