Skráðu þig í STEF

Aðild að STEFi er ókeypis og jafnframt sú þjónusta sem starfsfólk samtakanna veitir einstökum rétthöfum.

Þeir sem vilja skrá sig í STEF þurfa að fylla út aðildarsamning, undirrita hann og koma honum á skrifstofu samtakanna. Einnig er hægt að skanna undirritaðan samninginn inn og senda með tölvupósti á info@stef.is

Samningurinn veitir STEFi einkaumboð til þess að gæta hagsmuna hlutaðeigandi tónskálds eða textahöfundar, þ. á m. til þess að framselja höfundarréttinn. Þetta þýðir m.ö.o. að höfundur getur ekki sjálfur ráðstafað höfundarrétti sínum nema með samþykki STEFs. Þannig getur höfundur ekki — þótt hann flytji aðeins eigin verk á tónleikum eða dansleikjum — þegið greiðslu fyrir það, heldur verður tónleikahaldarinn að greiða höfundaréttargjöldin til STEFs, sem aftur sér um að úthluta höfundinum þá þóknun sem honum ber. Þetta er gert til þess að vernda einstaka höfunda fyrir ásælni þeirra sem vilja fá að nota tónlist og tilheyrandi texta fyrir lítið sem ekkert.

Sá, sem veitt hefur STEFi umboð sitt, ræður því eftir sem áður hvort verk eftir hann er flutt opinberlega eða tekið upp á hljómplötu o.s.frv. Hafi höfundur leyft að verk sé flutt opinberlega eða tekið upp verður hann aftur á móti að sætta sig við að aðrir geti flutt verkið eða tekið það upp, en þó samkvæmt leyfi STEFs eða NCB hverju sinni.

Skráning verka - Til fróðleiks

Skráning verka í gagnagrunn STEFs er forsenda þess að STEF geti úthlutað tekjum sem innheimtast fyrir flutning verkanna.

Skráning verka/laga fer fram í gegnum Mínar síður. Hafi meðlimur STEFs ekki aðgang að Mínum síðum þá er hægt að smella á „Gleymt lykilorð“ til að stofna slíkan aðgang.

Við skráningu verks þarf höfundur að gefa upp heiti verks, lengd og flytjanda (ef það hefur verið gefið út með tilteknum flytjanda) og síðan auðvitað hverjir höfundarnir eru og hlutverk þeirra (hvort þeir eru tónskáld, textahöfundar eða útsetjarar). Samtala hlutfalls allra skráðra höfunda þarf ávallt að ná 100%.

Þá er einnig hægt að skrá svokallaðan ISRC-kóða (International Standard Recording Code) þeirra hljóðrita sem hafa verið gefin út með viðkomandi verki. Hafi verkið verið gefið út í mörgum mismunandi útgáfum, þá er hægt að skrá fleiri en einn ISRC-kóða.

Hafi lagið verið samið af fleiri höfundum en þeim sem annast skráninguna, þá er hægt að finna þá með aðstoð flettilista, þ.e.a.s. ef þeir eru meðlimir í STEFi. Séu meðhöfundar meðlimir í erlendum höfundaréttarsamtökum, þá þarf að gefa upp alþjóðlegt höfundanúmer þeirra (IPI-númer).

Séu meðhöfundar ekki meðlimir í STEFi né öðrum höfundaréttarsamtökum, þá er hægt að stofna þá í kerfinu. Ekki verður þó hægt að úthluta fyrir verkið nema að mjög takmörkuðu leyti, fyrr en þeir hafa gengið frá skráningu í STEF og þar með fengið sitt alþjóðlega IPI-númer.

Meðhöfundar sem skráðir eru fá tilkynningu um skráninguna á það netfang sem þeir hafa skráð hjá STEFi. Berist engin athugasemd um skráninguna innan 7 daga, þá færist verkið inn í gagnagrunn STEFs og telst fullskráð. Nánari leiðbeiningar um skráningarferlið má nálgast undir Mínum síðum.

Leiðbeiningar um skiptingu höfundaréttar milli höfunda má finna á öðrum stað hér á heimasíðunni.

Scroll to Top