Hárgreiðslu- & snyrtistofur
Hárgreiðslu- & snyrtistofur
Hljómi tónlist í opinberu rými, t.d. verslun eða á hárgreiðslustofu, þá ber að afla leyfis til þess hjá STEFi og greiða fyrir það sanngjarnt verð. Þetta er ekki hár kostnaðarliður og skilar sér örugglega til baka með ánægðari viðskiptavinum.
Algengar spurningar og svör:
Flutningur tónlistar telst vera opinber ef hann fer fram á stað sem almenningur hefur aðgang að. Ekki skiptir máli hvaðan tónlistin kemur; hvort hún er spiluð af plötuspilara, henni streymt úr snjalltæki, hún spiluð af hljóðfæraleikurum á staðnum eða kveikt er á útvarpi.
STEF lætur sig ekki varða með hvaða hætti það er gert, heldur aðeins hvort tónlist hljómi í viðkomandi rými. Það er sérstaklega tekið fram í greinargerð með höfundalögum að spilun tónlistar úr útvarpi teljist vera sjálfstæður opinber flutningur og því þarf að greiða fyrir notkun tónlistar á þann hátt eins og á annan hátt.
Það, hvernig eða hvaðan tónlistin kemur, er aukaatriði. Aðalatriðið er að ef tónlist hljómar í opinberu rými, þá ber að afla leyfis hjá STEFi, sem síðan greiðir rétthöfum fyrir notkunina.
Til eru ýmsar leiðir til að útvega tónlist til spilunar í atvinnurekstri og ein er sú að nota lagalista í gegnum „app“. En eins og fram kemur hér að ofan, þá gildir einu hvaðan eða hvernig tónlistin er flutt, ávallt ber að greiða rétthöfum fyrir notkun.
Þess má geta, að nokkur fyrirtæki eru sérhæfð í því að aðstoða fyrirtæki við að velja tónlist fyrir viðkomandi markhóp og bjóða mismunandi lausnir. Tvö slík starfa sérstaklega á Íslandi; ATMO Select og Megafone og hafa þau sérstakan samning þar að lútandi við STEF.
Spotify selur aðgang að stórum gagnabanka tónlistar og fjölda lagalista, sem þegar eru til staðar eða notandi getur útbúið sjálfur. Aftur á móti miða notkunarskilmálar Spotify einungis við einkanot, en ekki opinberan flutning. Það er því í raun óheimilt að nýta Spotify-aðgang einstaklings í verslunarrekstri fyrir viðskiptavini. Í einstaka löndum hefur Spotify þó markaðssett sérstakt leyfi til fyrirtækja, m.a. í gegnum dótturfyrirtækið Soundtrack Your Brand.
Vert er þó að geta þess, að STEF hefur fram til þessa ekki skipt sér að því hvernig tónlist er flutt í opinberum rýmum (þ.m.t. hvort það er í gegnum einstaklingsaðgang að Spotify), svo fremi sem viðkomandi rekstraraðili hafi aflað sér leyfis hjá STEFi fyrir opinberum flutningi.
Fyrir tónlist sem flutt er í hárgreiðslustofum, snyrtistofum, verslunum, heilsuræktarstöðvum, sólbaðsstofum, nuddstofum, allt að 100 fm að stærð skal greiða 6.421 kr. á mánuði, en 26 kr. aukalega fyrir hvern fm umfram það (skv. verðskrá í júlí 2024).
Athugið: STEF áskilur sér rétt til að skrásetja öll þau fyrirtæki sem flytja tónlist opinberlega í starfsemi sinni. Ef rekstraraðilar svara í engu beiðni um upplýsingar um notkun á tónlist og umfang starfseminnar, þá reiknast 12.000. kr. álag á fyrsta reikning.
Ef í ljós kemur að rekstraraðili, sem segist ekki flytja tónlist opinberlega í starfsemi sinni, en er engu að síður að nota tónlist, þá reiknast 50% álag á fyrsta reikning. Verður þá innheimt leyfisgjald frá og með þeim tíma sem í ljós kom að tónlist var sannarlega notuð.
Reiknivél fyrir hárgreiðslu- og snyrtistofur
Mánaðarleg greiðsla fyrir afnot af tónlist.