Gervigreind og tónlist

Gagnlegar upplýsingar um notkun
gervigreindar við tónsmíðar og höfundarétt

Texta- og gagnanám: Skilyrði til notkunar fyrir gervigreind

STEF vill tryggja að höfundarréttarvarið efni meðlima verði ekki hluti af þróun gervigreindar, nema afdráttarlaust samþykki þeirra liggi fyrir. Á þetta við um — en takmarkast ekki við — mállíkön, grunnlíkön, spunagervigreindarkerfi og tillögu-algrím.

STEF áskilur sér rétt til að undanskilja verk meðlima sinna í texta- og gagnanámi, í samræmi við einkarétt höfunda til eintakagerðar verka sinna skv. 2. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. einnig tilskipun Evrópusambandsins 2019/790. Þar af leiðandi er öll notkun á verkum aðildarfélaga fyrir texta- og gagnanám háð leyfi STEFs, nema lög kveði á um annað.

STEF leggur áherslu á að samkvæmt mati samtakanna, þá veiti ákvæði höfundalaga og Evrópusambandsins ekki aðgang að texta- og gagnanámi til notkunar við þróun gervigreindar. STEFi er hins vegar ljóst, að ekki er einhugur um þá skoðun, sér í lagi á meðal alþjóðlegra tæknifyrirtækja. STEF áskilur sér engu að síður að meta ákvæði laganna eins og fyrr segir.

Beiðnir um notkun verka sem STEF fer með umboð fyrir, til notkunar fyrir texta- og gagnanám, skulu berast til STEFs á netfangið sala@stef.is.

Bakgrunnur skilyrða fyrir texta- og gagnanámi

Framfarir á sviði gervigreindar, að spunagreind (e. generative AI) með talinni, eru að verulegu leyti háðar umtalsverðu gagnamagni. Til þess að þjálfun gervigreindar skili árangri, skiptir aðgengi að yfirgripsmiklum og fjölbreyttum gagnasöfnum miklu. Þessi gagnasöfn gera gervigreindinni kleift að bera kennsl á, læra og skilja flókin mynstur.

Í þróun gervigreindar, sem er fær um að framleiða tónlist og texta, gætu þessi gagnasöfn t.d. samanstaðið af:

  • Tónlist (hljómflutningi) – að meðtöldum hljóðblönduðum upptökum, ásamt einstökum rásum eða s.k. stemmum
  • Textum
  • Stafrænum framsetningum á borð við MIDI-skrár
  • Myndrænum framsetningum í formi nótnablaða, hljóma, minnispunkta, fingrasetninga
  • Rituðum lýsingum á tónlistinni í formi lýsigagna og merkimiða
  • Gögnum úr tónverkagagnagrunnum, sem tengja ákveðin lög við ákveðna höfunda

Með því að greina þessi mynstur, er hægt að búa til háþróuð líkön sem spá fyrir um, líkja eftir og framleiða ný gögn. Þessi líkön — sem eru yfirleitt kölluð stór tungumálalíkön, grunnlíkön, eða spunagreindarkerfi — mynda grunninn að mörgum gervigreindarveitum, sem notaðar eru um þessar mundir og koma til með að verða notaðar í framtíðinni.

Þetta felur í sér yfirgripsmikla kortlagningu á hljóði og formgerð tónlistar, sem gerir notendum kleift að biðja gervigreindina um að framleiða tónlist og texta.

Þróun slíkra veitna er háð framlagi tónhöfunda, sem hafa kynslóðum saman auðgað tónlistarmenningu okkar og arfleifð.

Leyfis er krafist til þess að þjálfun og/eða þróun gervigreindar geti falið í sér höfundarréttarvarin verk.

Hér fyrir neðan er greint frá skráningu verka, sem samin eru með aðstoð gervigreindar (sjá: Skráning verka sem samin eru með aðstoð gervigreindar).

Í aðildarsamningi STEFs kemur skýrt fram, að það sé undirritaður höfundur sem framselur tiltekin réttindi og að hann/hún/hán (o.s.frv.) hafi samið þau verk sem skráð verði hjá STEFi. M.ö.o. er gert ráð fyrir því að það séu tilteknir einstaklingar sem semji hin skráðu verk, en ekki tölvuforrit.

Höfundar geta þó, nú sem fyrr, nýtt sér til aðstoðar hin ýmsu tæki og tól við að útbúa verk sín (þ.m.t. gervigreind) og kemur slíkt ekki í veg fyrir að þau njóti höfundaverndar eða geti verið skráð hjá STEFi.

Ekkert mat fer hins vegar fram hjá STEFi (né öðrum höfundaréttarsamtökum) á því hvort verk hafi í reynd verið samið af tilteknum höfundi eða hvaða tæki og tól hafi verið notuð við að skapa verkið — og hvort þau geti í raun notið höfundaverndar með tilliti til sköpunar.



Alþjóðlegar meginreglur um tónverk sem gerð eru með aðstoð gervigreindar

Gervigreindin á sér engin landamæri og því er þörf á sameiginlegum alþjóðlegum viðmiðum og reglum þegar kemur að skráningu og höfundarétti. Norræn höfundaréttarsamtök innan CISAC (þ.m.t. STEF) leggja upp úr því að setja einfaldar og gagnsæjar meginreglur, sem ætlað er að vernda manngerða tónlist, en veita jafnframt höfundum rými til að nota nýtækni:

Reglur varðandi skráningu tónverka þar sem gervigreind hefur komið að sköpun

  • Tónverk getur aðeins notið höfundarréttar ef það er sannarlega afurð mennlegrar skapandi vinnu.
  • Þess vegna getur STEF ekki úthlutað greiðslu fyrir tónlist eða texta, sem eingöngu er afurð gervigreindar.
  • Nýti höfundar gervigreindarverkfæri (e: AI tools) við sköpun tónverka, þá kemur það þó ekki í veg fyrir vernd verkanna, óháð því hve mikil sú aðstoð kann að hafa verið. Þess vegna er höfundum leyfilegt að skrá tónverk sem orðið hafa til með stuðningi gervigreindar – og njóta þar með fullra greiðslna af flutningi slíkra verka.
  • Ef aðeins einn þáttur tónverks – annað hvort texti eða tónlist – er 100% afurð gervigreindar, þá getur sá hluti ekki notið greiðslna frá STEFi. Sá hluti verksins sem er manngerður að einhverju leyti, getur það engu að síður.
  • Höfundaréttarsamtök geta ekki metið hvað er 100% gervigreindargert og hvað er gervigreindargert að hluta, þar sem engin viðurkennd aðferð er þekkt til að mæla hlutfall mannlegrar þátttöku í sköpunarferlinu.
  • Það er á ábyrgð höfundar að tryggja að tiltekið verk sé afurð nægilega mikillar mannlegrar sköpunar og að hvorki gervigreindarverkfærin sem notuð voru né verkið sjálft brjóti í bága við réttindi þriðja aðila.
Scroll to Top