Samningsaðild að STEFi

Hvað verðandi meðlimir hafi hugfast

Útskýringar og leiðbeiningar um aðildarsamning að STEFi

  1. Til að geta notið fullra réttinda til úthlutunar og til að öðlast rétt til þátttöku í kosningum og ákvörðunartöku innan STEFs, þá verða tónhöfundar að undirrita samning um aðild að STEFi. Við aðild að STEFi fær höfundurinn úthlutað alþjóðlegu höfundanúmeri, svokölluðu IP-númeri.
  2. Tónhöfundar sem ekki eru aðilar að STEFi geta þó fengið úthlutað vegna flutnings tónlistar innanlands, ef verk þeirra eru skráð hjá STEFi og ef tilkynning berst um flutning á þeim innanlands. Viðkomandi geta þó ekki fengið úthlutað frá STEFi vegna flutnings erlendis eða fyrir eintakagerð eða hljóðsetningu.
  3. Ef um er að ræða fleiri en einn höfund að verki, verða allir höfundarnir að hafa undirritað samning um aðild að STEFi svo verkið geti fengið úthlutað tekjum erlendis frá.
  4. Samkvæmt Evróputilskipun er STEFi skylt að bjóða tónhöfundum möguleika á að velja hversu víðtækt framsal þeirra til samtakanna er og í aðildarsamningnum eru taldir upp fimm flokkar fyrir mismunandi notkun verka. Gengið er út frá því að framsalið nái til allra fimm flokkanna, nema að samið sé sérstaklega um annað við STEF. Á sama hátt og hægt er að segja upp aðildarsamningnum, þá geta meðlimir einnig breytt framsalinu að þessu leyti. Ef einhver velur að undanskilja einhvern flokkinn, hefur STEF heimild til að krefja þann hinn sama um hærri umsýslugjöld, enda getur verið mjög flókið og tímafrekt að sigta út réttindi tiltekinna aðila úr heildarsamningum STEFs við viðskiptavini. Sé framsalið takmarkað að þessu leyti, þá getur STEF einnig farið fram á að viðkomandi undirriti yfirlýsingu sem leysir STEF undan ábyrgð á villum eða ruglingi sem slíkt gæti valdið.
  5. Á einum stað í aðildarsamningnum kemur fram að burtséð frá aðildinni geti höfundar gert samninga við tónlistarforleggjara (e. music publishers, eða bara publishers). Samningar við tónlistarforleggjara fela það í sér að þeir eru skráðir í gagnagrunna höfundaréttarsamtaka svipað og um væri að ræða meðhöfunda. Þannig fá tónlistarforleggjarar hluta af höfundaréttartekjum, sem er í raun þeirra endurgjald fyrir ákveðna þjónustu sem þeir veita höfundunum. Nánar er hægt að fræðast um slíka samninga á heimasíðu STEFs undir flipanum „Tónlistarforleggjarar“ (sjá: Höfundar > Gagnlegar upplýsingar).
  6. Einn af þeim flokkum sem fram koma í aðildarsamningnum er eintakagerð. Það vísar til eintaka af verkum höfundarins, t.d. með útgáfu á geisladiskum og vinylplötum, en einnig rafræn „eintök“, s.s. ef boðið er upp á niðurhal á verkum á netinu. Einu nafni eru slík réttindi oft nefnd „mekanísk“ réttindi (e. mechanical rights).
  7. Framsalið nær til tónsetningar/hljóðsetning (e. synchronisation), en með því er átt við þegar hljóði (tónlist) er skeytt við myndefni. Með aðildarsamningnnum fær STEF heimild til að semja um hljóðsetningu myndefnisins, þegar um er að ræða tiltekna afmarkaða notkun í sjónvarpi skv. samningum STEFs við framleiðendur myndefnis. NCB (Nordisk Copyright Bureau), sem eru samtök í eigu norrænna höfundaréttarsamtaka, annast slíka leyfisveitingu fyrir hönd tónhöfunda á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Að því marki sem STEF hefur ekki heimild til að semja um hljóðsetningu, þá annast höfundarnir það sjálfir eða tónlistarforleggjarar fyrir þeirra hönd.
  8. Í aðildarsamningnum er gengið út frá því að viðkomandi feli STEFi hagsmunagæslu þegar kemur að öllum heiminum. Hægt er að segja upp aðildarsamningnum hvað varðar einstök lönd eða landsvæði, vilji meðlimir færa viðkomandi svæði til annarra erlendra höfundaréttarsamtaka. Rétt er að leita sér sérstakar ráðgjafar áður en ákvörðun er tekin um slíkt. Sé höfundur nú þegar meðlimur í öðrum höfundaréttarsamtökum, þá verður hann sérstaklega að tilkynna STEFi um það þegar hann gengur í STEF.
  9. Í aðildarsamningnum er kveðið á um að hægt sé að segja samningnum upp eða gera breytingar á honum hvað varðar réttindaflokka eða landsvæði, sé uppsögnin skrifleg og gerð með sex mánaða fyrirvara, en uppsögn tekur þá gildi fyrstu áramót eftir uppsagnarfrestinn. Þetta þýðir, að sé samningnum t.d. sagt upp þann 1. júní, þá tekur uppsögnin gildi næstu áramót þar á eftir. Ef hins vegar samningnum væri sagt upp þann 1. nóvember, þá þyrfti viðkomandi að bíða til þarnæstu áramóta eftir því að uppsögnin tæki gildi.
  10. Nýjum meðlimum STEFs er bent á að kynna sér sérstaklega samþykktir STEFs og úthlutunarreglur, sem einnig er að finna hér á heimasíðunni.
Scroll to Top