Ört vaxandi tónhöfundar verðlaunaðir

Á dögunum ákvað stjórn STEFs að brydda uppá þeirri nýjung að verðlauna efnilega höfunda samhliða hinum árlegu menningarnæturtónleikum í bakgarðinum við Laufásveg 40. Var þetta gert í fyrsta skipti í ár.

Verðlaunahafar eiga það sameiginlegt að hafa uppá síðkastið sýnt „ört vaxandi árangur sem tónhöfundar“, eins og segir á tilheyrandi verðlaunaskjölum. Mælistikan á það er öðru fremur eftirtektarverð aukning í úthlutun undanfarin misseri vegna opinbers flutnings á verkum þeirra. Með viðurkenningnum vill stjórnin hvetja þessa höfunda til frekari dáða.

Í ár hlutu viðurkenningar þau Anna Gréta Sigurðardóttir, Ásgeir Bragi Ægisson og Katrín Helga Ólafsdóttir.

  • Anna Gréta hefur verið búsett í Svíþjóð undanfarin ár, en hún var útnefnd „bjartasta vonin“ í jazz-geiranum á ÍTV árið 2015 – og hefur síðan hlotið fleiri tilnefningar og verðlaun, jafnt hér og í Svíþjóð. Hefur hún nú skipað sér á bekk meðal fremstu jazzmúsíkanta sinnar kynslóðar og sent frá sér tvær plötur hjá einni þekktustu jazzútgáfu heims (ACT Music), sem báðar hafa hlotið lof gagnrýnenda.
  • Ásgeir Bragi er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. 17 ára gamall tók hann að semja og senda frá sér tónlist undir listamannsnafninu „Ouse“. Í kjölfarið fluttist hann til Akureyrar og síðar Reykjavíkur til að geta sinnt ferlinum betur. Á síðastliðnum árum hefur hann starfað með ýmsum erlendum flytjendum, aðallega Bandarískum, en um skeið bjó hann í Los Angeles. Tónlist hans mætti helst skilgreina sem n.k. „hip-hop“, en lögum eftir hann hefur verið streymt í milljónavís, þar af er eitt þeirra, „Dead Eyes“, með yfir 100 milljón spilanir á Spotify.
  • Katrín Helga nam tónsmíðar við Listaháskólann. Hún hefur á undanförnum árum gert sig gildandi undir listamannsnafninu „K.óla“ og troðið upp ýmist ein eða með hljómsveit. Árið 2019 hlaut hún ÍTV-tilnefningu og Kraumsverðlaunin fyrir plötuna „Allt verður alltílæ“. Síðan hefur hún látið víða að sér kveða, m.a. samið fyrir kvikmyndir og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig var Katrín virkur meðlimur tónlistarsamlagsins „post-dreifing“ árin 2018-2022, eða uns hún flutti búferlum til Kaupmannahafnar.
Viðurkenningarskjöl afhent og höfundum fagnað í bakgarðinum við Laufásveg þann 24. ágúst 2024. Smellið fyrir stærri mynd.
Scroll to Top