Verndaðu verkin hjá Musicstart

Sacem, systursamtök STEFs í Frakklandi, hafa kynnt nýja þjónustu, Musicstart, sem hjálpar höfundum að vernda höfundarétt verka frá vinnslustigi til frambúðar.

Í stuttu máli gengur þjónustan út á það, að verk í vinnslu hljóta nk. eignarhaldsvottorð, þannig að ekki fari á milli mála hvert eignarhaldið er og þar með höfundarétturinn. Styðst þjónustan við sk. kubbakeðjutækni (e. blockchain), sem merkir og vistar verk frá fyrstu útgáfu og síðan uppfærðar útgáfur eftir því sem verkin þróast á vinnslustigum.

Þetta kemur sér jafnframt vel ef upp kemur ágreiningur um eignarhald á einhverjum tímapunkti, ef höfundar eru fleiri en einn. Einnig má segja að á tímum gervigreindarframleiðslu sé mikilvægt að geta sýnt fram á eignarrétt óútgefinna jafnt sem útgefinna verka.

STEF hefur gert samkomulag um það við Sacem, að bjóða meðlimum upp á ókeypis prufuaðgang. Í gegnum „Mínar síður“ er hægt að fá sendan kóða fyrir stofnaðgang, með því að smella á hnappinn „Musicstart“. Gjörið svo vel.

Scroll to Top