Koda, systursamtök STEFs í Danmörku, hafa formlega höfðað mál á hendur Suno, einu þekktasta gervigreindartónlistarfyrirtæki heims um þessar mundir.
Byggir lögsóknin á því, að skýr sönnunargögn bendi til þess, að fyrirtækið hafi í leyfisleysi og endurgjaldslaust notast við höfundaréttarvarða tónlist eftir danska höfunda við gervigreindarþjálfun og framleiðslu tónlistar, sem fyrirtækið þiggi greiðslu fyrir frá notendum.
Koda telur um algjört „prinsippmál“ að ræða, þar sem fyrirtækið brjóti í senn á höfundrétti tónhöfunda og geri þá að féþúfu. Þannig flæði í raun peningar frá dönskum höfundum til fyrirtækisins, sem geri það að verkum að minni fjármunir verði eftir til að skapa og styðja við danska tónlist. Slíkt telur KODA ekki aðeins ógn við höfunda, heldur grafi undan menningu þjóðarinnar í víðum skilningi.
Koda telur ljóst að dönsk tónlist sé ekki ein undir í þessu máli, heldur tónlist allra landa.
„Við stofnum í hættu menningarheimi, þar sem tónlist er búin til af fólki, sem hefur raunverulegar sögur að segja. Í staðinn kemur tónlist, framleidd af gervigreindarhugbúnaði í bandarískum eða kínverskum gagnaverum“, eins og segir í tilkynningu Koda.
„Tæknifyrirtæki virða menningu okkar að vettugi, hunsa réttindi og höggva þannig að lýðræðislegum grunnstoðum. Við getum ekki látið það óátalið og munum berjast fyrir sterkum tónlistargeira, sanngjörnum markaði, réttindum félagsmanna okkar og danskri menningu“, segir jafnframt í tilkynningu Koda.
Koda hefur sett upp vefsíðu, hvar hægt er að kynna sér hluta sönnunargagna, sem og fylgjast með framvindu málsins:
https://koda.dk/en/koda-sues-suno
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, telur dagljóst að um tímamóta- og prófmál sé að ræða, sem hún efist ekki um að höfundar hvarvetna á norðurlöndunum styðji heilshugar.

