Aðalsteinn er einn af okkar helstu höfundum í gegnum árin, en í gagnagrunni STEFs eru hátt í 350 skráð verk eftir hann, mest söngtextar, en einnig allmörg lög. Ýmsir söngtextar Aðalsteins hafa náð lýðhylli og mætti nefna lög eins og „Eitt lag enn“, „Ég lifi í draumi“, „Láttu þér líða vel“ og „Sumarlag“, svo fáein vinsæl lög séu upp talin.
Fyrir utan að vera afkastamikill höfundur, þá hefur Aðalsteinn einnig lagt mjög af mörkum til félagsstarfa innan STEFs, sem og innan FTT, þar sem hann var framkæmdastjóri árum saman. Aðalsteinn var einnig lengi formaður fulltrúaráðs STEFs, auk þess að sitja stjórn STEFs og í nefndum á vegum samtakanna, m.a. um árabil í Upptökusjóði. Hann hefur komið að ýmsum nauðsynlegum breytingum á gangverki samtakanna á liðnum árum, m.a. endurskoðun á samþykktum STEFs og úthlutunarreglum.
Við óskum Aðalsteini til hamingju og þökkum honum heilshugar góð og gagnleg störf í þágu tónhöfunda í gegnum árin.