Á aðalfundi fulltrúaráðs sl. vor var ákveðið að leggja af flokkunarkerfi STEFs frá og með næstu áramótum. Eftirleiðis hafa því öll tónverk sömu vigt og vægi, hvernig sem þau eru í laginu (lengd skiptir þó eðlilega áfram máli).
Lengi hafði staðið styrr um þetta kerfi og það hefur verið baráttumál margra meðlima STEFs, að ekki verði gerður greinarmunur á tónverkum eftir eðli eða yfirbragði, heldur að „mínúta af einu verki sé jafngild mínútu af öðru“, svo vitnað sé í gamalt slagorð.
Auðvitað er mikilvægt að allar tónlistarstefnur eigi sinn stað innan STEFs og að fjölbreytni verði tryggð. Við aflagningu flokkunarkerfsins var því ákveðið að setja á fót Stórverkasjóð, í þeim tilgangi „að styðja við stærri verkefni, en til stærri verkefna telst frumsköpun verka í stóru formi, heildstæð tónlistarverkefni eins og tónsmíðar og textagerð fyrir heila plötu, sem og að færa stærri verk eða heildstæða efnisskrá í stærri og viðameiri búning“, eins og segir í samþykktum sjóðsins, sem hægt er að kynna sér nánar á heimasíðu STEFs.
Gert er ráð fyrir að Stórkverkasjóður muni úthluta styrkjum samkvæmt umsóknum tvisvar á ári, í fyrsta sinn næstkomandi vor.
Samhliða þessu breytist starf matsnefndar STEFs, sem eftir beiðnum höfunda hafði það hlutverk að leggja mat á og flokka tónverk skv. gamla flokkunarkerfinu. Sú nefnd verður þó hér eftir sem áður til taks ef meðlimir þurfa faglegt álit ef uppi er grunur um stuld á lagi.