Agli heiður gjörður

Á dögunum fagnaði hinn ástsæli Egill Ólafsson sjötugsafmæli og útgáfu nýjustu plötu sinnar með eftirminnilegum tónleikum. Á meðal tónleikagesta voru stjórnarmenn STEFs, sem nýttu tækifærið til að sæma Egil heiðursmerki samtakanna, í þakklætisskyni fyrir drjúgt framlag sem höfundur sönglaga er mörg munu lifa með þjóðinni um ókomin ár. Útgáfa nýju plötunnar sýnir að Egill blómstrar enn, jafnvel þótt „vindur taki í trafið og tryllt dansi örlagaský“, eins og hann orti í lagi sínu „Sigling“. Megi Egill sigla lengi enn.