Breytt verðskrá STEFs fyrir tónleika

Síðastliðin ár hefur orðið töluverð hækkun á miðaverði á stærri tónleikaviðburði sem hafa farið fram t.d. í Hörpu, Hofi, Háskólabíó, Laugardalshöll og sambærilegum stöðum.

Hækkun miðaverðs má einkum rekja til hækkunar á kostnaði vegna húsaleigu, leigu á tæknibúnaði, gæslu- og tækniþjónustu. Því liggur fyrir að heildarinnkoma viðburða af þeirri stærðargráðu sem fram fer á slíkum tónleikastöðum er hærri en áður.

Í verðskrá STEFs er miðað við að veittur sé magnafsláttur af höfundaréttargjöldum af innheimtum tekjum umfram kr. 6 milljónir. Hefur það mark verið óbreytt frá 2016 (en fram að því miðaðist magnafsláttur við seldan sætafjölda). Að öðru leyti hefur verðskráin verið óbreytt í tugi ára, þ.e.a.s. að STEF hefur innheimt 4% fyrir minni tónleika, en 2,5% fyrir stærri tónleika.

Við þetta bætist innheimta fyrir SFH vegna spilunar hljóðrita á tónleikum, sem reiknast sem 6% álag ofan á verð STEFs og er það álag almennt innheimt með greiðslunni til STEFs og er þá heildarprósentan 4,24% fyrir minni tónleika og 2,65% fyrir stærri tónleika.

Breytingin er tvíþætt:

  • Uppfært tekjumark (í dag 6 millj. kr.) fer í 8.8 millj. sem er í raun uppreiknuð fjárhæð miðað við vísitöluhækkanir. Verður fjárhæðin eftirleiðis endurskoðuð árlega með tilliti til vísitölubreytingar.
  • Verðskrá STEFs fyrir stærri tónleika verður breytt úr 2,65% í 3.18%, sem reiknast þá af tekjum umfram 8.8 millj. sbr. áðurnefnt. Þetta hlutfall (3,18%) er fengið á þann hátt að verð til STEFs hækkar úr 2,5% í 3%, en að álag til SFH reiknist þá áfram sem 6% af verði STEFs sem að samanlagt verður þá 3,18%.
Ástæðan fyrir þessari hækkun er fyrst og fremst sú að STEF er að innheimta nokkuð lægri gjöld fyrir stærri tónleika en gert er á hinum Norðurlöndunum. Með þessari breytingu er verð STEFs fyrir stærri tónleika samt lægra en það er í Finnlandi, en mjög svipað og bæði í Noregi og í Svíþjóð. Verðskrá fyrir minni tónleika verður áfram óbreytt.

Þessi breyting tekur gildi 1. janúar 2026, en ákvörðun um breytinguna var tekin á árinu 2024 og var hún þá kynnt opinberlega svo og fyrir BÍT (Bandalagi íslenskra tónleikahaldara).

Scroll to Top