Dagur íslenskrar tónlistar 2024

Dagur íslenskrar tónlistar var í gær og samkvæmt venju voru afhentar viðkurkenningar við athöfn í Hörpu.

Hvatningarverðlaunin hlaut Kolbrún Linda Ísleifsdóttir. Líklega hefur enginn sótt fleiri tónleika í Hörpu en Kolbrún, sem sagt hefur að Harpa sé eins og hennar annað heimili. Þannig hefur hún sannarlega stutt við íslenskt tónlistarlíf.

BRJÁN („Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi“) hlaut „Gluggann“ í ár, fyrir að byggja upp óhagnaðardrifið tónlistarhús í Neskaupstað. Þar er haldið úti fjölbreyttri og metnaðarfullri tónleikadagskrá og upptökuveri.

Tónleikastaðurinn R6013 hlaut nýsköpunarverðlaunin. Það er hugarfóstur Ægis Sindra Bjarnasonar, en staðurinn er á jarðhæð heimilis hans og er hugsaður sem heimavöllur jaðartónlistar í Reykavík.

Útflutningsverðlunin hlaut hljómsveitin Kælan mikla, fyrir að halda á lofti merkjum íslenskrar tónlistar á erlendri grundu. Sveitin var stofnuð 2013 og hefur síðan verið ötul við tónleikahald og getið sér gott orð víða um lönd.

Heiðursverðlaunin í ár, „Litla fuglinn“, hlutu þau Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Gísli Þór Guðmundsson, fyrir að byggja upp íslenskan tónlistariðnað, standa fyrir úflutningi og að veita tónlistarfólki atfylgi og stuðning af ástríðu um árabil.

Þorsteinn Eggertsson var við þetta tilefni sæmdur gullmerki STEFs fyrir sitt ríflega framlag í söngtextagerð í gegnum tíðina.

Við athöfnina las Vigdís Hafliðadóttir aðdáendabréf til íslenskrar tónlistar, Helgi Björnsson söng, sem og GDRN, einnig sem Silva Þórðardóttir tók lagið ásamt Steingrími Teague.

Scroll to Top