Dagur íslenskrar tónlistar var haldinn hátíðlegur þann 1. desember. Venju samkvæmt voru veittar viðurkenningar á samkomu í Hörpu.
- Hljómplötuútgáfan Sticky Records hlaut ‘hvatningarverðlaunin’, fyrir að vera heimili íslenskrar grasrótar og styðja vel við nýja bylgju íslenskrar hipphopp-tónlistar.
- Félagsskapurinn MMF Iceland hlaut ‘nýsköpunarverðlaunin’, fyrir að tengja samfélag umboðsfólks á Íslandi og styrkja þannig rödd íslensks tónlistarfólks heima og að heiman.
- ‘Glugginn’ eru verðlaun sem veitt eru þeim er veita íslenskri tónlist sérstakt atfylgi. Iðnó hlaut Gluggann nú, fyrir að byggja upp og hlúa íslenskri tónleikamenningu í Reykjavík.
- ‘Útflutningsverðlaunin’ féllu í skaut Ásdísi Maríu Viðarsdóttur, fyrir ört vaxandi feril erlendis síðustu misseri.
- Flytjendaverðlaun FÍH voru veitt í fyrsta skiptið. Þau hlaut „Óþekkta hrynsveitin“, hópur flytjenda sem séð hefur um undirleik í leiksýningunni Moulin Rouge. Þetta eru þeir Andrés Þór Gunnlaugsson, Andri Ólafsson, Birgir Þórisson, Gunnar Hilmarsson, Helgi Reynir Jónsson, Jóhann Hjörleifsson, Matthías Stefánsson, Ólafur Hólm, Róbert Þórhallsson og Vignir Þór Stefánsson.
- Ragnhildur Gísladóttir var sæmd heiðursmerki STEFs fyrir hennar góða framlag í gegnum tíðina
- Músíktilraunir hlutu heiðursverðlaun ársins, „Litla fuglinn“, fyrir að vera brautarpallur fyrir ungt tónlistarfólk og hafa um langt skeið leitt efnilega músíkanta fyrstu skrefin út á breiðvang tónlistarinnar.
Tónlist við athöfnina fluttu þau Páll Óskar og Benni Hemm Hemm, Ásdís María og kvennakórinn Hekla. Þá flutti Lóa Hjálmtýsdóttir ávarp; nk. óð til íslenskrar barnatónlistar.
Myndir: Gunnlöð Jóna













