Egill Ólafsson er sjötugur í dag. Sá er sannarlega „einn af þessum stóru“, eins og segir í kunnuglegum ópus. Fáir hafa sett mark sitt svo rækilega á hérlent listalíf og Egill gerði um skeið, þá hann var prímusmótor og fókuspunktur í þremur ódauðlegum burðar- og öndvegissveitum íslenskrar tónlistarsögu; Spilverkinu, Stuðmönnum og Þursaflokknum. Allar götur síðan hefur Egill ‘performerað’ á ýmsum sviðum og stigum, einatt af listfengi og sumpart fjölkynngi, ávallt gæddur sterkri áru, hvort sem er á tónleikum, leikhúsfjölum eða hvíta tjaldinu. Eftir Egil liggja á sjöunda hundrað tónverk af ýmsum toga. Enn bætast blóm í þann skrúðgarð, nýjasta platan kom út fyrir skemmstu. Við árnum Agli heilla á tímamótum og þökkum fyrir galdurinn allan.
