Reglulega berast STEFi fyrirspurnir um hvernig úthlutun til höfunda fyrir streymi er háttað. Hér að neðan er pistill sem varpað getur nokkru ljósi á það.
Hvað hefur áhrif á streymisgreiðslur?
- Hvað STEF (eða systursamtök í öðrum löndum) fá samkvæmt samningi af áskriftartekjum (og auglýsingatekjum) viðkomandi streymisþjónustu. Áskriftamódel streymisþjónustunnar hafa því bein áhrif á tekjur höfunda.
- Hvort höfundurinn er með tónlistarforleggjara (e. publisher) eða ekki. Sé höfundur með slíkan samning, þá fær forleggjarinn oftast sína hlutdeild beint frá streymisveitunni í samræmi við fyrirliggjandi samningi.
- Hversu mörgum lögum var streymt á streymisveitunni á viðkomandi uppgjörstímabili. Þessi úthlutunaraðferð er nefnd hlutfallsaðferð (e: „pro rata“) og felst í því að tekjur af viðkomandi tímabili eru settar í einn pott og þeim deilt á heildarfjölda spilanna í viðkomandi landi á sama tímabili. Þess ber að geta, að heildarfjöldi streyma miðað við áskriftartekjur á t.d. Spotify, hefur hingað til verið nokkuð meiri hérlendis en í mörgum öðrum löndum. Eitt streymi á Íslandi gefur því örlítið hærri tekjur í úthlutun en eitt streymi erlendis.
Vert er að benda á, að STEF fær sáralitlar tekjur af fríþjónustu Spotify, en slíkur aðgangur er þó talinn nauðsynlegur fyrir streymisþjónustur til að búa síðar til greiðandi áskrifendur.
Þá má einnig benda á, að ekki er hægt að bera tekjur af t.d. útvarpsspilun saman við tekjur af streymi, en greiðsla fyrir eina útvarpsspilun er mörghundruð sinnum hærri en fyrir eitt streymi. Má enda líta á það þannig, að eitt streymi sé í raun eins og einn hlustandi að útvarpi.
Til að skilja betur greiðsluflæði frá streymisveitum má benda á flæðirit sem sjá má hér.