Þann 11. nóvember komst dómstóll í Þýskalandi að þeirri niðurstöðu, að ChatGPT, sem er í eigu gervigreindarrisans OpenAI, hafi brotið gegn lögum með óheimilli notkun á höfundaréttarvörðum söngtextum.
Í dómsorði segir að fyrirtækið hefði átt að afla sér formlegs leyfis til að nota þýska texta til þjálfunar fyrir hugbúnað sinn, sem byggir á því sem á fagmálinu hefur verið kallað „skapandi gervigreind“ eða „spunagreind“. Þetta er fyrsti dómur sem kveðinn er upp í Evrópu er varðar leyfislausa notkun verka við mötum og þjálfun gervigreindar.
Samkvæmt úrskurðinum er óyggjandi að kerfi ChatGPT notist við frumsamda og lögvarða texta, sem afritaðir hafa verið og gerðir aðgengilegir sem nk. „svar“ við beiðnum þeirra sem nýta sér þjónustu OpenAI. Lagði GEMA fram sönnunargögn þess efnis, að verndaðir textar eftir þekkta höfunda hefðu verið „endurskapaðir“ með þessum hætti.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að þessar afritanir væru skýlaust brot á höfundarrétti og er þess krafist að OpenAI afli sér formlegra leyfa hjá rétthöfum gegn viðeigandi þóknun.
Máflutningi þess efnis, að OpenAI væri einfaldlega löglegt leitarvéla- og rannsóknarfyrirtæki, var hafnað. Taldi dómstóllinn að þótt texta- og gagnanám gæti að vissu marki talist lögmæt iðja, þá fæli það ekki í sér leyfi til að vista höfundarréttarvarða söngtexta og nota til útgáfu „nýrra“ texta.
„Internetið er ekki einhvers konar sjálfsafgreiðsluhlaðborð og sköpunarverk manna eru ekki einfaldlega sniðmát til notkunar án endurgjalds. Í dag höfum við sett fordæmi, sem bæði verndar og skerpir á réttindum eigenda höfundaréttarvarinna verka. Rekstraraðilar gervigreindartækja eins og ChatGPT verða að fara að höfundalögum eins og aðrir“, sagði Dr. Tobias Holzmüller, forstjóri GEMA eftir dómúrskurðinn.
GEMA er með annað og sambærilegt mál í undirbúningi gegn bandaríska gervigreindartónlistarframleiðandanum Suno, sem tekið verður fyrir þann 26. janúar 2026.

