STEF styrkir tvo höfunda til þátttöku í lagamíðabúðunum SyncCamp, sem fram fara í bænum Sopot í Póllandi dagana 15.-20. nóvember n.k. Um er að ræða kvikmynda- og auglýsingatónlist.
Tónlistarstjórar (e. music supervisors) verða þátttakendum til ráðgjafar og tengja tónlistina við hin ýmsu verkefni. Lögð verður áhersla á hópavinnu og tengslamyndun.
Það eru ZAIKS, systursamtök STEFs í Póllandi og Music Export Poland sem standa fyrir búðunum. Þátttakendur verða alls 15 og koma úr ýmsum áttum.
Búðirnar hafa verið haldnar um nokkurra ára skeið og er einrómur um ágæti þeirra á meðal þátttakenda.
Umsækjandi þarf að:
- hafa nokkra reynslu af því að semja kvikmyndatónlist.
- hafa góða enskukunnáttu.
- hafa reynslu af því að vinna í tónlistarforritum á borð við Logic, ProTools, o.fl.
- hafa reynslu af samvinnu við tónsköpun.
Ferðasjóður STEFs greiðir kostnað við flug þátttakanda, en gisting, morgun- og kvöldverður, sem og kostnaður við búðirnar er í boði námskeiðshaldara.
Áhugasamir sækja um með því að senda tölvupóst á info@stef.is undir yfirskriftinni „Pólland 2023“. Umsókn þarf að innihalda stutta greinagerð um umsækjanda og verk hans/hennar.
Eðlilega er það grundvallarskilyrði að umsækjandi sé fullgildur meðlimur STEFs.
Umsóknarfrestur er skammur, til 5. nóvember n.k.
„Kvikmyndatónlistarbúðirnar í Sopot eru frábær vettvangur til að beina athyglinni að þessum geira tónlistar. Þáttakendur eru fjölbreyttur hópur frá ýmsum löndum og verkefnin krefjandi. Einstakt tækifæri til að víkka út sjóndeildarhringinn að kynnast ólíku fólki, vinnubrögðum þeirra og hugmyndum og máta þær við sínar eigin.“
—Hallur Ingólfsson, fulltrúi STEFs í SyncCamp haustið 2022.