Magnús sæmdur „Þakkarorðu“

S.l. sunnudag var „Þakkarorða íslenskrar tónlistar“ afhent í fyrsta skipti, við athöfn og tónleika í Eldborgarsal Hörpu. Það var Magnús Eiríksson sem fyrstur hlaut slíka orðu, en meiningin er að hún verði afhent árlega, til að „fagna sköpunarkrafti og ævistafi íslensks tónlistarmanns“, eins og það er orðað. Í haust var sett á laggirnar sérstakt Tónlistarráð, sem m.a. er gert að velja verðlaunahafa, en þessi hugmynd kviknaði í samtölum Lilju Daggar Alfreðsdóttur og hagaðila.

Nokkuð hefur verið rætt um ósætti og „skautun“ í þjóðmálaumræðu undanfarið. Það má þó fullyrða að Íslendingar, háir sem lágir, séu á einu máli um mikilvægi framlags Magnúsar Eiríkssonar til íslenskrar tónlistar. Það er tónhöfundum eðlilega afar gleðilegt að Magnús skuli hafa verið heiðraður með þessum hætti, fyrstur manna. Í framhjáhlaupi er vert að minnast þess að hann er fyrrum formaður STEFs.

Það var menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg, sem sæmdi Magnús orðunni með þessum orðum: „Maggi Eiríks, eins og þjóðin þekkir hann, er ekki bara iðinn og fær tónlistarmaður heldur hefur fjölbreytni hans gefið íslensku þjóðinni marga dýrgripi og fyllt fjöldann allan af listafólki innblæstri. Laga- og textasmiðnum, gítarleikaranum og söngvaranum Magga Eiríks eru færðar þakkir frá okkur öllum og um leið vil ég þakka öllu því stórbrotna tónlistarfólki sem flutti lög Magnúsar í gærkvöldi. Ég fyllist enn á ný lotningu yfir þeim fjársjóði sem listafólkið okkar er. Takk Maggi og takk íslensk tónlist!“

 

Scroll to Top