„Manngerð hugverk þarf að vernda!“

Rannsóknarskýrsla CISAC um gervigreind og höfundarétt

Nýlega héldu alþjóðasamtök höfundaréttarfélaga, CISAC, blaðamannafund, þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknar samtakanna á áhrifum gervigreindar á tónlistarbransann, sér í lagi á höfunda.

Það var forseti samtakanna, Björn Ulveus, sem stýrði fundi og sat fyrir svörum að kynningu lokinni, en eins og flestum er kunnugt, þá var Björn driffjöður hinnar dáðu hljómsveitar, ABBA.

Hér eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar hvað tekjur varðar:

  • 16 milljarðar evra er áætlað markaðsverðmæti gervigreindarverka árið 2028. Yfir 40 milljarðar samtals á þessum 5 árum þangað til.
  • Gervigreindargerð tónlist mun taka til sín um 20% tekna hefðbundinnar streymisspilunar og um 60% af tekjum tónlistarsafna (e. music libraries).
  • Þetta þýðir að tekjutap verður 48 milljarðar evra árið 2028 (miðað við aðstæður án gervigreindar). Áætla má að 24% af heildartekjum höfunda séu í hættu vegna þessa.

Hér eru nokkrir punktar úr ræðu Björns:

„Framfarir á sviði gervigreindar mega aldrei vera á kostnað höfunda, þannig að þeir verði af réttmætri þóknun. Sú afstaða er ekki aðeins siðferðileg, heldur einnig skynsöm út frá efnahagslegum forsendum. Hugmyndina um höfundarétt er ekki hægt að útvatna með gervigreind.“

„Þjálfun gervigreindar byggist ekki á óvernduðum tónverkum, heldur á lögvörðum verkum skapandi höfunda. Þetta varðar því sköpunargáfu mannsins. Manngerð hugverk þarf að vernda, þannig að höfundar fái lifað af listsköpun sinni. Höfundar og tæknifyrirtæki þurfa að vinna saman og semja um sanngjarnt endurgjald. Það þýðir, að tæknifyrirtækin þurfa að fylgja gagnsæum reglum og virða höfundarétt.“

„Við óbreytt regluverk munu höfundar ekki njóta góðs af gervigreindarbyltingunni, heldur þvert á móti verða fyrir tjóni að tvennu leyti: Í fyrsta lagi vegna óleyfilegrar notkunar á verkum þeirra til gervigreindarþjálfunar, án nokkurs endurgjalds. Í öðru lagi má að óbreyttu gera ráð fyrir því, að gervigreindargerð tónlist muni yfirtaka eða ‘sjúga til sín’ tekjur sem réttilega hafa runnið til höfunda hingað til.“

Skýrsla þessi er mikilvægt innlegg í umræðuna um höfundarétt og gervigreind. Þeir sem vilja kynna sér hana frekar geta gert svo með því að smella hér.

STEF heldur áfram að láta sig þessa umræðu varða og gæta hagsmuna meðlima sinna hvað þetta áhrærir. Þess má geta að STEF er í mikilli samvinnu við norræn systursamtök um viðbrögð við þeirri byltingu sem gervigreindin er, bæði hvað varðar reglur um skráningu slíkra verka sem og hvernig leyfismálum verður háttað.

Scroll to Top