Nýverið undirrituðu STEF og RÚV nýjan samning um flutning tónlistar í miðlum RÚV. Þar er í fyrsta skiptið kveðið skýrt á um tónsetningu á eigin framleiðslu RÚV til notkunar í eigin dagskrárgerð á eigin miðlum.
Jafnan er talað um tónsetningu í þessu sambandi (stundum hljóðsetningu), þ.e. þegar tónlist og mynd er skeytt saman (e. synchronisation).
Meginreglan er sú, að tónsetning er ekki heimil nema með samþykki rétthafa. En þegar um er að ræða eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva til notkun á eigin miðlum, þá nægir að sjónvarpsstöðin hafi samning við STEF, þar sem slíkum samningi fylgja tónsetningarleyfi (á ensku eru slíkir samningar stundum kallaðir „blanket licence“).
Hins vegar þurfa sjálfstæðir framleiðendur efnis ávallt að leita leyfis hjá rétthöfum. Rétt er að minna á að rétthafar eru bæði tónhöfundar og útgefendur hljóðrits (þ.e.a.s. ef nota á áður útgefið hljóðrit).
Í gegnum tíðina hafa komið upp allmörg tilvik þar sem vafi hefur leikið á því hvort tiltekið efni teljist til eigin framleiðslu RÚV eða teljist vera á ábyrgð sjálfstætt starfandi framleiðanda.
Í hinum nýja samningi er skýrt að kaupi RÚV sýningarrétt af sjálfstæðum framleiðanda, þá telst viðkomandi framleiðsla ekki vera eigin framleiðsla RÚV, nema í þeim tilvikum sem RÚV hefur einkarétt á sýningu viðkomandi efnis þegar samningurinn er gerður eða RÚV á 50% eða meira í framleiðslunni.
Sé um það að ræða efni, sem telst til eigin framleiðslu, en er síðar selt eða dreift annað, þá gildir ekki lengur leyfið samkvæmt samningnum við STEF og verður viðkomandi framleiðandi þá að afla nýrra tónsetningarleyfa hjá rétthöfum.
Sjónvarpsstöðvar eru síðan ábyrgar fyrir því að skila til STEFs skýrslu um alla tónsetningu í sinni eigin framleiðslu (e. cue sheet).
Ákveðnar undantekningar eru þó á hinu almenna tónsetningarleyfi sem fylgir samningi STEFs, en það nær ekki til framleiðslu RÚV á dramatísku leiknu efni (s.s. þar sem unnið er eftir handriti), né til einkennislaga þáttaraða. Þá ber RÚV einnig gæta að sæmdarrétti höfunda.
Í þeim tilvikum sem framleiðandi þarfnast tónsetningarleyfis til framleiðslu sjónvarpsefnis umfram ofangreint, þá er bent á að slík leyfi er hægt að fá hjá NCB á heimasíðu þeirra.
Nánari umfjöllun um tónsetningarleyfi má nálgast hér.