Langspil ársins var afhent sl. föstudag, en það eru verðlaun sem árlega falla í skaut höfundi sem skarað hefur fram úr og náð eftirtektarverðum árangri á nýliðnu ári. Að þessu sinni varð fyrir valinu Pálmi Ragnar Ásgeirsson. Það var einróma álit stjórnar STEFs að hann væri afar vel að útnefningunni kominn.
Á undanförnum árum hefur Pálmi látið mjög til sín taka sem höfundur og upptökustjóri og komið við sögu margra vinsælustu laga landsins. Hann hefur verið iðinn við að uppgötva efnilegt tónlistarfólk, þróa með því hæfileika og hjálpa því að blómstra. Glowie, Friðrik Dór og Bríet eru nokkur nöfn sem nefna mætti í því sambandi. Skemmst er svo að minnast Diljár Pétursdóttur, sem flutti framlag Íslands í Eurovision í ár, lag eftir Pálma.
Við óskum Pálma og hans fólki hjartanlega til hamingju.