Ragga Gísla heiðursmerkt

Í gær var Ragnhildur Gísladóttir sæmd heiðursmerki STEFs, við athöfn í Hörpu á degi íslenskrar tónlistar.

Ragga Gísla, eins og við þekkjum hana, kom fyrst fyrir sjónir almennings seint á áttunda áratugnum, söng þá með Lummunum, Brimkló og Brunaliðinu, svo eitthvað sé nefnt.

Það var hins vegar snemma á níunda áratugnum sem Ragga steig virkilega fram og markaði sín spor, með hljómsveit sem hún stofnaði og nefndist Grýlurnar. Fullyrða má að það hafi verið fyrsta alvöru kvennahljómsveit Íslandssögunnar og vafalaust hefur sveitin orðið kynsystrum innblástur.

Grýlurnar urðu síðan stór þáttur í vinsælustu kvikmynd Íslandssögunnar, „Með allt á hreinu“, sem Stuðmenn framleiddu. Nokkru síðar var Ragga orðin Stuðmaður og söng með bandinu inn á fjölmargar plötur og úti um allar trissur, langt fram á 21. öldina.

Samhliða því að syngja vinsæl lög með Stuðmönnum og Strax, þá sinnti Ragga öðrum hugðarefnum og skapaði annars konar tónlist, sem hún hefur sent frá sér smátt og smátt undir eigin nafni eða í samvinnu við aðra, bæði hér- og erlendis.

Ragga hefur alltaf vakið athygli fyrir sterkan og einkennandi stíl, jafnt sem söngkona og höfundur, en ekki síður í framkomu og fatavali.

Hún hefur þegar hlotið ýmsar viðurkenningar, meðal annars fálkaorðuna árið 2012, einnig sem hún var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Þá er vert að minnast þess að árið 2017 var Ragga fengin til að semja þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja, fyrst kvenna.

En þrátt fyrir vegtyllur, áberandi stíl og yfirbragð, þá hefur alltaf leynst undir yfirborðinu lítillátur og leitandi listamaður, sem við fáum vonandi að njóta alllengi enn.

Ragga hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til að lita líf okkar í gegnum árin. Og þótt hún hafi samið og sungið lagið „Ekkert mál“ á sínum tíma, þá finnst okkur framlag hennar töluvert mikið mál!

Takk Ragga.

Myndir: Eyþór Árnason

Scroll to Top