Stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar fór fram í Hörpu þann 15. ágúst. Þar var fyrsta stjórn miðstöðvarinnar kynnt, en hana skipa Einar Bárðarson (formaður), Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.
Jakob Frímann Magnússon, sem fór fyrir starfshópi er annaðist undirbúning að stofnuninni, ávarpaði fundinn. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tók einnig til máls og mælti m.a. svo:
„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr.“
Um hlutverk Tónlistarmiðstöðvar segir svo á vef ráðuneytisins:
Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar. Tónlistarmiðstöð á að:
- vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar.
- hafa umsjón með rekstri og starfsemi tónlistarsjóðs.
- stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskri tónlist og nótum og starfrækja nótnaveitu fyrir íslensk tónverk.
- veita tónlistarfólki og fyrirtækjum sem markaðssetja tónlist ráðgjöf og þjónustu, styðja útflutning á tónlist og stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar.
- sinna afmörkuðum verkefnum tengdum rannsóknum og tölfræði um íslenskan tónlistariðnað.
- styðja varðveislu menningararfleifðar á sviði tónlistar með ráðgjöf, fræðslu og þjónustu.
Á meðfylgjandi mynd gefur að líta stjórnarfólk og ráðherra.