„Vindur í seglum“ – Uppskeruteiti

Árið 2020 hóf STEF tilraunaverkefni undir forskriftinni „Vindur í seglum“, sem snérist um að veita lítt reyndum kvenhöfundum eða fólki af minnihlutakyngervum aðstoð við að koma hugmyndum í verk og á framfæri, með fulltingi leiðbeinenda („mentora“). Þótti verkefnið takast það vel að ákveðið að var að endutaka það á tveggja ára fresti.

Í fyrra valdi jafnréttisnefnd STEFs þrjá þátttakendur úr fjölmörgum umsóknum og á dögunum komu hinar útvöldu saman í n.k. uppskeruteiti, þar sem viðstaddir hlýddu á lög úr þeirra ranni. Samkoman var á heimili Haraldar Þorleifssonar, sem studdi verkefnið með fjárframlagi. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir höfðingsskapinn.

Þátttakendur í ár voru þær Kristrún Steingrímsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir (RÚN) og Sigga Ózk. Hér að neðan má sjá umsagnir þeirra, en allar hafa þær nú sent frá sér lög, sem sum eru þegar tekin að hljóma á öldum ljósvakans.

——————

„Frábært framtak! Fékk að kynnast og vinna með ótrúlega hæfileikaríku og frábæru fólki. Mjög hvetjandi og lærdómsríkt ferli. Takk fyrir mig!!“ —Kristrún

> Hér er Kristrún á Spotify.

——————

„Verkefnið er frábært veganesti fyrir ungt tónlistarfólk. Tíminn með leiðbeinendum reyndist gulls ígildi og svo var afar dýrmætt að kynnast öðrum þátttakendum, sem í mínu tilviki voru tvær snargeggjaðar tónlistarkonur. Við fengum einstakt tækifæri til að byggja upp lítið krúttlegt samfélag sem vonandi stækkar með árunum.“ —Guðrún (RÚN)

> Hér er RÚN á Spotify.

——————

„Ég er svo þakklát fyrir þetta verkefni og fyrir allt sem fylgdi því. Ég er spennt fyrir komandi tímum hjá sjálfri mér, Guðrúnu og Kristrúnu og framhaldinu á öllu því sem fór fram á meðan verkefninu stóð. Ég er einnig spennt fyrir framtíð kvenna í tónlist, því hópurinn fer sífellt stækkandi og ég hlakka til að sjá næsta hóp í þessu verkefni. Áfram stelpur!“ —Sigga Ózk

> Hér er Sigga Ózk á Spotify.

Scroll to Top