—
Hvað er STEF?
—
STEF eru samtök tónskálda, textahöfunda og annarra rétthafa (t.d. erfingja), sem falið hafa STEFi umboð til að sjá um innheimtu fyrir opinberan flutning tónverka sinna. Hlutverk STEFs er að gæta hagsmuna höfunda á sviði flutningsréttar og útgáfu. Það er gert með því að STEF veitir leyfi fyrir þeirra hönd fyrir opinberum flutningi verka þeirra.
Hvað gerir STEF fyrir mig?
STEF innheimtir fyrir opinberan flutning á tónlist og í framhaldinu fá höfundarnir réttmætan hluta af tekjunum í úthlutunum, en alls úthlutar STEF 12 sinnum á ári.
STEF hefur falið NCB (Nordisk Copyright Bureau), sem eru samtök í eigu STEFs og norrænna systursamtaka, að annast innheimtu og leyfisveitingar fyrir félagsmenn STEFs hvað varðar eintakagerð á verkum þeirra. Um slíkt er t.a.m. að ræða þegar tónverk eru gefin út á formi geisladiska, vínylplatna og mynddiska. Eins hefur STEF samning við NMP (Network of Music Partners), sem er í sameign NCB og PRS (breska „stefsins“), um bakvinnslu og greiðslur fyrir tónlistarstreymi á ákveðnum heimssvæðum.
STEF veitir upplýsingar um greiðslu fyrir notkun á verkum félagsmanna. Einnig veitir STEF leiðbeiningar um samningsgerð við tónlistarforleggjara (e. music publishers), útgefendur, kvikmyndaframleiðendur, leikhús eða auglýsendur.
Þar fyrir utan gæta samtökin hagsmuna tónhöfunda á víðum grundvelli í nánu samstarfi við önnur rétthafasamtök hvarvetna í heiminum. STEF sinnir einnig fræðslu um höfundarétt og er hugað um starfsskilyrði og rétt höfunda almennt.
Hvaðan koma tekjur STEFs?
STEF innheimtir leyfisgjöld hjá öllum þeim sem spila tónlist opinberlega. T.d. þegar tónlist er leikin á tónleikum, í útvarpi eða sjónvarpi, í gegnum streymi tónlistarveita og þegar tónlist er leikin í verslunum, veitingastöðum, heilsuræktarstöðvum, hárgreiðslustofum, svo nokkur dæmi séu tekin.
Tónleikar
STEF innheimtir höfundaréttargjöld vegna flutnings tónlistar á tónleikum hjá tónleikahöldurum og úthlutar til höfunda. Misjafnt er hvernig innheimtunni er háttað og fer það eftir samningum STEFs við viðkomandi tónleikastaði. Sumir tónleikastaðir taka að sér innheimtu fyrir STEF, aðrir greiða fast árgjald vegna allra tónleika sem haldnir eru á viðkomandi stað og enn aðrir skuldbinda sig til að hleypa flytjendum ekki á svið fyrr en tónleikahaldari hefur sýnt fram á samning við STEF.
Til að greiðslur fyrir flutning á tónleikum skili sér til höfunda er nauðsynlegt að skýrsla yfir flutt verk sé send til STEFs eða ef tónleikarnir eru haldnir erlendis, til þarlendra systursamtaka STEFs. Slíkar skýrslur eiga höfundar að fylla út og senda í gegnum Mínar síður.
Flutningur á eigin tónlist
Þegar flytjendur flytja eigin tónlist á tónleikum eða öðrum viðburðum ber tónleikahaldara engu að síður að afla leyfis STEFs fyrir tónleikunum og greiða leyfisgjald. Höfundaréttargjöld eru ekki innifalin í launum flytjenda eða öfugt. Hafa ber í huga í þessu sambandi að það er alls óvíst að allir meðlimir tiltekinnar hljómsveitar séu höfundar af þeim lögum sem hljómsveitin flytur, s.s. vegna mannabreytinga í hljómsveitinni. Langoftast slæðast einnig með í dagskrá tónleika einhver lög eftir aðra en þá sem standa á sviðinu.
Mikilvægt er fyrir þá sem flytja eigin tónlist á tónleikum, og eru bæði höfundar og tónleikahaldarar, að þeir kynni sér fyrirfram hvernig málum er háttað á viðkomandi tónleikastað varðandi greiðslu höfundaréttargjalda.
Hvernig er höfundaréttargreiðslum úthlutað?
Öllu fé sem STEF innheimtir er úthlutað til innlendra og erlendra rétthafa, að frádregnum umsýslukostnaði. STEF leitast við að tryggja eins réttláta skiptingu á þeim höfundaréttargreiðslum sem það innheimtir, þannig að höfundar fái greitt í samræmi við flutning tónlistar sinnar. Ekki er gerð krafa um að þjónustufyrirtæki, verslanir og veitingahús skili inn upplýsingum um til STEFs um þá tónlist sem notuð er í starfsemi þeirra (það sem kallast jafnan “bakgrunnstónlist”).
STEF úthlutar greiðslum frá slíkum aðilum samkvæmt upplýsingum um aðra tónlistarnotkun og þá aðallega frá útvarpsstöðvum. Þess ber þó að geta, að starfandi eru nokkur fyrirtæki sem taka að sér að streyma bakgrunnstónlist fyrir verslanir o.fl. þjónustuaðila — og skila þau fyrirtæki skýrslum til STEFs, sem stuðst er við þegar úthlutað er þeim tekjum sem að baki liggja.
Hagsmunagæsla erlendis
Á grundvelli gagnkvæmra samninga við erlend systursamtök nær hagsmunagæsla STEFs einnig til erlendra höfunda sem eiga verk sem leikin eru hér á landi. Á sama hátt gæta erlendu systursamtökin réttinda íslenskra höfunda þegar verk þeirra eru leikin erlendis. Höfundar fá því einnig greiðslur frá STEFi fyrir opinberan flutning verka þeirra á erlendri grundu, s.s. í útvarpi, sjónvarpi, streymi o.s.frv.
Samvinna við flytjendur og útgefendur
Þegar tónlist er leikin opinberlega af hljóðritum eiga flytjendur og útgefendur einnig rétt á greiðslu. Það á við hvort sem tónlistin er leikin af geisladiskum, henni streymt eða henni miðlað á annan hátt til áheyrenda. SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda) fer með rétt flytjenda.
Til þess að gera notendum tónlistar auðveldara fyrir, innheimtir STEF einnig gjöld fyrir SFH (t.d. í verslunum og víðar) og veitir leyfi fyrir hönd þeirra.
Sjóðir STEFs
STEF rekur nokkra sjóði sem höfundar geta sótt styrki í.
- Upptökusjóður veitir styrki til útgáfu nýrrar tónlistar.
- Nótnasjóður veitir styrki til útgáfu sönghefta eða tónlistar í nótnaformi.
- Ferðasjóður styrkir höfunda til tónleikaferða erlendis.
- Tónskáldasjóður Bylgjunnar & Stöðvar 2 veitir styrki til nýsköpunar tónlistar á sviði nýgildrar tónlistar.
- Tónskáldasjóður RÚV & STEFs veitir styrki til nýsköpunar tónlistar á sviði sígildrar tónlistar.
- Stórverkasjóður veitir styrki tvegna stærri verkefna.
- Tónlistarsjóður kirkjunnar & STEFs
Hvað þarf ég að gera?
Fyrst af öllu þarftu að skrá þig í STEF með því að skila inn undirrituðum aðildarsamningi, þar sem þú veitir STEFi rétt til að innheimta greiðslur fyrir notkun og eintakagerð á verkum þínum.
Þú þarft ennfremur að skrá öll verk þín hjá STEFi. Það er hægt að gera rafrænt í gegnum “Mínar síður”. Skráning er forsenda þess að hægt sé að úthluta fyrir flutninginn til réttra höfunda. Þess vegna þarftu alltaf þegar þú semur nýtt lag að senda jafnóðum verktilkynningu til STEFs, hvort sem lagið fer í opinberan flutning eins og í útvarpi, beint á netið, kemur út á hljóðriti (t.d. CD) eða verður flutt á tónleikum. Þetta er mjög mikilvægt til að STEF geti skráð flutning eða útgáfu og úthlutað til þín.