—
Samkomur & viðburðir
—
Samkomur & viðburðir
Þegar fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða aðrir halda ráðstefnur, veislur eða samkomur, þar sem á sér stað tónflutningur, ber að afla leyfis hjá STEFi. Á það t.d. við um árshátíðir og þorrablót fyrirtækja og félagasamtaka. Ef um er að ræða lokuð einkasamkvæmi, svo sem afmæli, fermingaveislur, brúðkaupsveislur eða erfidrykkjur, þarf ekki leyfi hjá STEFi.
Ekki skiptir máli hvar samkoman er haldin, hvort sem það er á vinnustað, veitingastað eða í útleigðum sal hótels eða undir berum himni.
Ef tónlist er flutt af hljóðritum þarf ennfremur leyfi hjá SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), sem tekur við þeirri greiðslu sem hljóðfæraleikarar, söngvarar og hljómplötuframleiðendur eiga rétt á þegar leikin er tónlist af upptökum. Til einföldunar fyrir viðskiptavini sér STEF um að innheimta það gjald einnig.
Ekki skiptir máli hvort um er að ræða tónlist eftir erlenda eða innlenda höfunda.
Það er ævinlega sá sem stendur fyrir skemmtun eða samkomu sem er ábyrgur fyrir því að sækja um leyfið til að flytja tónlist og greiða leyfisgjald til STEFs – hver svo sem flytjandi tónlistarinnar er.
Til einföldunar hefur STEF þó gert samstarfssamninga við marga aðila sem leigja út sali. Innheimta þessir aðilar höfundaréttargjöld af þeim sem standa að viðburðum og skila þeim til STEFs. En í þeim tilfellum þar sem ekki er slíkur samningur fyrir hendi, þá verður sá aðili sem stendur að samkomunni sjálfur að afla leyfis hjá STEFi og greiða fyrir samkvæmt gildandi verðskrá.
Leyfið þarf að liggja fyrir áður en samkoma er haldin. Sé það ekki gert, þá er það brot á lögum og getur varðað skaðabótum. Með því að sækja um leyfi og greiða fyrirfram hafa skipuleggjendur auk þess tækifæri til að taka þennan kostnaðarlið með inn í fjárhagsáætlun sína.
Leyfisverð fer eftir eðli samkomunnar. Nauðsynlegt er fyrir STEF að fá upplýsingar um hvers konar samkomu er um að ræða. Verðið fer eftir fjölda gesta og hvort greiddur er aðgangseyrir.
Hér að neðan eru upplýsingar um verðskrá vegna viðburða. Einnig má fá nánari upplýsingar með því að hafa samband við STEF.
Tilkynning um samkomu / viðburð
Nánari upplýsingar
Samkvæmt verðskrá STEFs og SFH (Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda) ber að greiða STEFi höfundaréttargjöld fyrir opinberan flutning tónlistar á öllum samkomum sem ekki teljast einkasamkvæmi. Samkomur félagasamtaka og fyrirtækja teljast ekki vera einkasamkvæmi í þessu samhengi.
A ) Af aðgangseyri (að meðtöldum sköttum og opinberum gjöldum) að einstökum dansleikjum, samkvæmum og öðrum viðburðum, þar sem tónlist er flutt, skal greiða 4%, auk álags til SFH, þó aldrei lægri fjárhæð en sem hér segir (svk. verðskrá í október 2024):
STEF-gjald | SFH-gjald | Alls | |
Ef gestir eru 100 eða færri | 7.710 kr. | 4.626 kr. | 12.336 kr. |
Ef gestir 101-200 | 23.131 kr. | 13.879 kr. | 37.010 kr. |
Ef gestir eru 201-300 | 34.697 kr. | 20.818 kr. | 55.515 kr. |
Hvert byrjað hundrað yfir 300 | 10.602 kr. | 6.361 kr. | 16.963 kr. |
B) Ef efnt er til samkomu samkvæmt A-lið án þess að það sé gert í fjáröflunarskyni (t.d. engin aðgöngumiðasala), skal greiða lágmarksfjárhæð.
C) Af aðgangseyri (að meðtöldum sköttum og opinberum gjöldum) að útihátíðum eða útisamkomum, þar sem tónlist er flutt ásamt öðru efni, skal greiða 3%, en þó aldrei lægri fjárhæð en þrjá fjórðu hluta af lágmarksfjárhæð skv. A-lið, auk álags til SFH, sbr. D-lið.
D) Ef notuð er tónlist af hljóðritum, s.s. hljómplötum, geisladiskum og/eða tónböndum eða frá útvarpi, greiðist 60% álag á höfundaréttargjald, sbr. verðskrá SFH (Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda).
E) Af aðgangseyri að kvikmyndasýningum (að meðtöldum öllum sköttum og opinberum gjöldum) skal greiða 1%. Lágmarksgjald, sem kvikmyndahús skulu greiða, hvort sem um er að ræða fastan rekstur eða ekki, er kr. 193 á hvert sæti eða 19.276 kr. á ári.
F) Af aðgangseyri að leiksýningum (að meðtöldum öllum sköttum og opinberum gjöldum) skal greiða 0,25 – 1%, eftir því hversu mikil tónlist er flutt í hlutaðeigandi leikverki.
1. Höfundaréttargjald sbr. A-lið er ákveðin prósenta af aðgangseyri og verður aldrei lægra en ákveðið lágmarksgjald. Skattar og opinber gjöld eru ekki dregin frá aðgangseyri áður en gjaldið er reiknað. Ef 4% af aðgangseyri eru t.d. kr. 5.000 og fjöldi samkomugesta 201-300, þá ber að greiða lágmarksgjald, sem er kr. 32.728 (sbr. verðskrá okt.2023) auk gjalds til SFH (Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda) vegna hljóðrita (kr. 19.637).
2. Í B-lið verðskrár er átt við samkomu, þar sem ekki er seldur aðgangseyrir, eða kostnaði af samkomunni er deilt niður á samkomugesti eða aðra og ekki ætlast til tekjuafgangs. Slíkar samkomur eru t.d. þorrablót eða árshátíðir með borðhaldi og útitónleikar 17. júní. Af slíkum samkomum ber að greiða höfundaréttargjald samkvæmt lágmarksverðskrá.
3. Greiða ber höfundaréttargjald af öllum samkomum „lokuðum“ sem „almennum“.
4. Samkvæmt D-lið verðskrár greiðist 60% álag á höfundaréttargjald þegar um diskótek er að ræða. Þegar slíkt álag er greitt skal greiðandi geta þess í skilagrein.
5. Þeir aðilar, sem láta í té húsnæði til samkomuhalds, þ.á.m. til tónleikahalds, bera ábyrgð á greiðslu höfundaréttargjalds í samræmi við verðskrá STEFs, sem staðfest er af menntamálaráðuneytinu. Ábyrgð þessi hefur verið staðfest af dómstólum.
6. Samkomuhaldara (t.d. tónleikahaldara) ber að greiða höfundaréttargjald til félagsheimilis strax að lokinni samkomu. Að gefnu tilefni eru forstöðumenn félagsheimila alvarlega áminntir um að láta ekki hjá líða að innheimta gjaldið, þótt viðkomandi samkomuhaldari (hljómsveitir eða aðrir) telji sig af einhverjum ástæðum ekki bera skyldu til að greiða slíkt gjald. Félagsheimilið ber sjálft ábyrgð á að slíkar greiðslur berist STEFi. Telji samkomuhaldari sig ekki gjaldskyldan, skal viðkomandi snúa sér til skrifstofu STEFs með kvittun fyrir greiðslunni og beiðni um endurgreiðslu.
7. Gjalddagi höfundaréttargjalds er næsti virki dagur eftir samkomu, en 10. dagur hvers mánaðar eftir samkomu ef staðgreiðslu verður ekki við komið. Eindagi gjaldsins er 20. hvers mánaðar. Frá þeim tíma má búast við innheimtuaðgerðum á kostnað skuldara
8. Að kröfu endurskoðanda STEFs (lögskipuð endurskoðun) er aflað lögregluskýrslna um allt samkomuhald.
9. Höfundaréttargjald af kvikmyndasýningum og leiksýningum greiðist ársfjórðungslega, 15. dag hvers mánaðar eftir ársfjórðungslok. Með greiðslu skal fylgja skilagrein, þar sem fram kemur hver heildarsala aðgöngumiða var.
10. Sé þörf frekar skýringa, vinsamlegast hafið samband við umboðsmann STEFs, en einnig er bent á vefsíðu STEFs, en þar er jafnframt að finna gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.