TÓNSETNING

Leyfi fyrir tónlist í kvikmyndum og sjónvarpi

Tónsetning myndefnis

Það telst tónsetning (e. synchronisation) þegar hljóði er skeytt saman við mynd. Oft er einnig notað hugtakið hljóðsetning yfir sama hlut.

Fyrir tónsetningu þarf leyfi þeirra sem skapað hafa tónlistina (tón- og textahöfunda), svo og frá þeim sem eiga réttinn að viðkomandi upptöku eða hljóðriti, þ.e.a.s. masterréttinn. Það á þó eingöngu við ef vilji er til nota upprunalegan flutning á laginu, en ekki taka það aftur upp. Í þeim tilvikum sem lagið er tekið upp aftur þarf eingöngu leyfi tónhöfunda en ekki masterrétthafa.

Hafi tónhöfundur samið við tónlistarforleggjara (e. publisher), þá er tónlistarforleggjarinn venjulega með umboð til að semja um tónsetningu fyrir hönd höfundarins.

Í ákveðnum tilvikum annast STEF (eða NCB) samningsgerð fyrir hönd höfunda um tónsetningu. Slíkt á fyrst og fremst við um tónsetningu við eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva. Þær sjónvarpsstöðvar, sem eru með samning við STEF um opinberan flutning, eru þar með einnig með heimild til tónsetningar fyrir eigin framleiðslu. Undir þessa heimild fellur einnig heimild til að kynna eigin dagskrárgerð á eigin miðlum. Samskonar kerfi er í ýmsum öðrum löndum (t.a.m. á Norðurlöndunum og í Bretlandi) og í þeim tilvikum eru systursamtök STEFs með heimild til að gera samninga fyrir hönd meðlima STEFs, á sama hátt og fyrir sína eigin meðlimi.

Ef vafi leikur á um hvort tiltekið efni teljist til framleiðslu viðkomandi sjónvarpsstöðvar eða teljist vera á ábyrgð sjálfstætt starfandi framleiðanda, þá er miðað við að ef sjónvarpsstöð kaupir sýningarrétt af sjálfstæðum framleiðanda, þá telst viðkomandi framleiðsla ekki vera eigin framleiðsla sjónvarpsstöðvarinnar, nema í þeim tilvikum sem sjónvarpsstöðin hefur einkarétt á sýningu viðkomandi efnis, þegar samningurinn er gerður, eða sjónvarpsstöðin á 50% eða meira í framleiðslunni.

Sé um það að ræða að efni, sem telst til eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva, en er síðar selt eða dreift annað, þá gildir ekki lengur leyfið samkvæmt samningnum við STEF, heldur verður viðkomandi framleiðandi þá að afla nýrra tónsetningarleyfa hjá rétthöfum.

Sjónvarpsstöðvar eru síðan ábyrgar fyrir því að skila til STEFs skýrslu um alla tónsetningu í sinni eigin framleiðslu (e. cue sheet).

Á þessu leyfi sjónvarpsstöðva er þó sú takmörkun, að fyrir einkennislög einstakra þátta þarf ávallt leyfi höfundarins sjálfs og það sama á við um framleiðslu á dramatísku leiknu efni (s.s. þar sem unnið er eftir handriti). Sama á við um kvikmyndir og auglýsingar þriðju aðila. Þá ber sjónvarpsstöð ávallt að gæta sæmdarréttar höfundar.

Vert er að benda á í þessu sambandi, að samningar höfundaréttarsamtaka við bæði YouTube og Meta (Facebook og Instagram) svo og TikTok taka ekki bara til flutnings verka, heldur einnig tónsetningar á þessum miðlum, svo lengi sem notkun tónlistarinnar er af hálfu einkaaðila og ekki í auglýsingaskyni fyrir tilteknar vörur eða þjónustu.

Ef nota á útgefið hljóðrit fyrir tónsetningu, þá þarf eins og áður segir einnig leyfi masterrétthafa. Masterrétthafinn er sá sem á hljóðritið eða upptökuna, þ.e.a.s. útgefandi hljóðritsins, sem getur í sumum tilvikum verið flytjandi eða flytjendurnir á hljóðritinu. Algengt er að samið sé um sama verð fyrir annars vegar notkun hljóðritsins og hins vegar notkun lagsins (höfund/a).  Þegar ekki er um sama aðila að ræða sem á réttinn á hljóðritinu og laginu, þá er stundum samið þannig við fyrri aðilann, að viðkomandi leyfisbeiðandi skuldbindur sig til að greiða honum mismuninn síðar, semji leyfisbeiðandi um hærra verð við síðari aðilann (höfund). Með þessum hætti er tryggt að masterrétthafi og rétthafi höfundarréttar lagsins fái greitt jafnhátt leyfisgjald.  Það er síðan á ábyrgð útgefandans/masterrétthafans að deila sinni greiðslu með aðalflytjanda hljóðritsins í samræmi við ákvæði útgáfusamnings þeirra á milli. Venjulega er búið að ganga frá uppkaupum á rétti aukaflytjenda í þessu sambandi. Ef ekki er skýrt í útgáfusamningi að útgefandi fari með þennan rétt til samninga við þriðju aðila og um uppgjör á slíkum greiðslum til flytjenda, er eðlilegt að leyfisbeiðendur semji sérstaklega við aðalflytjanda.  Nánar má fræðast um útgáfusamninga annars staðar á heimasíðu STEFs.

Tónsetningarleyfi NCB

Fyrir framleiðslu sjónvarpsþátta svo og stuttmynda og heimildamynda til sýninga í sjónvarpi bjóðast framleiðendum hin svokölluðu tónsetningarleyfi NCBk, skv. staðlaðri verðskrá NCB.

Tónsetningarleyfi NCB geta einnig náð til leikinna dramaþáttaráða, svo lengi sem dreifingin er eingöngu á Norðurlöndunum. Að öðru leyti getur leyfi NCB náð til alls heimsins. Athygli er vakin á því að NCB-leyfin ná eingöngu til höfundarhluta lagsins, en ekki til hljóðupptökunnar (masterréttarins). Slík leyfi þarf að sækja til viðkomandi útgefanda hljóðritsins.

Sótt er um leyfi til NCB í gegnum heimasíðuna http://www.ncb.dk.

Þar sem ofangreindum tilvikum sleppir verða höfundar að sjá alfarið sjálfir um að semja um tónsetningu. STEF getur í slíkum tilvikum veitt höfundum ráðgjöf við samningsgerðina. Hafa verður í huga að samningsgerð um tónlist í kvikmynd er nokkuð ólík, eftir því hvort um er að ræða frumsamda tónlist fyrir kvikmynd (e. original score) eða hvort verið er að kaupa rétt til að nota tiltekið áður útgefið lag í kvikmynd eða sjónvarpsefni. Um slíka samningsgerð er hægt að lesa meira hér á síðunnu, undir liðnum „Samningar um kvikmyndatónlist“.

Fróðleikur um leyfismál

Við tónsetningu, það er að segja þegar tónlist er skeytt saman við mynd, í framleiðslu til notkunar á Íslandi greiðir leyfishafi þóknum sem nemur 10% álagningu á árlegum leyfiskostnaði samkvæmt þeirri verðskrá sem á við viðkomandi framleiðslu, þó aldrei lægra en lágmarksverð 6.100 kr. per framleiðslu og ár. Þetta tónsetningarleyfi er ávallt veitt í tengslum við önnur leyfi STEFs.

Leyfið gildir einungis fyrir tónsetningu fyrir smærri verkefni. Sem dæmi um slíkt má nefna fyrirtækjakynningar (innanhúss eða milli fyrirtækja), notkun á netinu, verkefni í fræðslustarfsemi, líkamsræktarmyndbönd, listverkefni, tónleika, trúarþjónustur eða önnur minni verkefni.  Ekki er þörf á sérstöku tónsetningarleyfi ef framleiðsluna er eingöngu að finna á miðlunum Facebook, Instagram eða YouTube.

Leyfið gildir ekki fyrir verk sem flokkast undir stórréttindi eins og óperur, söngleiki eða leikverk. Ber þá að hafa samband við höfunda beint til að afla leyfis.

Leyfið gildir ekki fyrir auglýsingamyndbönd eða annað sem flokkast getur sem auglýsingar, einkennisstef þátta, sjónvarpsþætti eða samsvarandi framleiðslu fyrir netið, dramaþætti, kvikmyndir, heimildamyndir eða fyrirtækjamyndbönd sem sýnd eru opinberlega. 

Samþykkt af stjórn STEFs 4. október 2021

Cue-sheet er n.k. skýrsla sem fylgir sjónvarps- og kvikmyndum og geymir upplýsingar um alla þá tónlist sem fram kemur í viðkomandi mynd/þætti, jafnt í forgrunni sem í bakgrunni. Ef um nýja/frumsamda tónlist er að ræða, þarf tónskáldið einnig að passa upp á að skrá hana hjá STEFi (alveg eins og gert er með önnur tónverk/lög). Skráning verka fer fram í gegnum „Mínar síður“. Ef verk/score er ekki til á skrá, þá er ekki hægt að tengja það við cue-sheet og skrá flutning á það.

Hér má finna eyðublað/grind af alþjóðlegu „music cue-sheet“ sem hægt er að fylla út.

Scroll to Top