(+354) 561 6173 info@stef.is

stef-white

STEF eru félagasamtök

STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) eru félagasamtök og er stýrt af fulltrúum þeirra sem aðild eiga að samtökunum. Það eru fyrst og fremst félög tónskálda og textahöfunda, sem fara með stjórn STEFs, en þessi félög eru Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda og textahöfunda. Þessi tvö félög velja, hvort um sig, þrjá menn í stjórn STEFs, en að auki velja þeir rétthafar, sem veitt hafa STEFi umboð sitt og standa utan félaganna, einn mann í stjórnina. Félögin tilnefna með sama hætti, hvort um sig, fimm menn í fulltrúaráð STEFs, en rétthafar utan félaganna tilnefna tvo menn í fulltrúaráðið. Fulltrúaráð STEFs fer með æðsta vald í málefnum samtakanna, en stjórn STEFs stýrir samtökunum samkvæmt ákvörðunum fulltrúaráðs og ræður framkvæmdastjóra samtakanna er stýrir daglegum rekstri þeirra.

Samkvæmt sérstakri löggildingu frá menntamálaráðuneytinu hefur STEF heimild til þess að innheimta höfundarréttargjöld fyrir flutning á tónlist og tilheyrandi texta, sem verndar nýtur samkvæmt höfundalögum og lýtur eftirliti ráðuneytisins. STEF sendir ráðuneytinu ár hvert endurskoðaðan ársreikning sinn til upplýsinga.

Hlutverk STEFs og menningarsjóður
Hlutverk STEFs eru einkum þrenns konar:

Í fyrsta lagi beitir STEF sér fyrir að varðveita og efla höfundarétt á sviði tónlistar. Mótar STEF stefnu á þessu sviði sem félagar í samtökunum eru bundnir af.

Í öðru lagi sér STEF um að innheimta höfundaréttargjöld fyrir flutning tónlistar þar sem hún er flutt opinberlega. Hefur STEF gert samninga við suma þá sem tónlist flytja, eins og stærstu útvarpsstöðvarnar, en hjá öðrum innheimtir STEF gjöldin samkvæmt gjaldskrá. Þetta er fyrirferðarmikill þáttur í starfi samtakanna. Þeir sem greiða höfundarréttargjöld til STEFs, skipta mörgum hundruðum.

Þriðja meginverkefni STEFs er að úthluta því, sem innheimst hefur, til hlutaðeigandi rétthafa, eftir að kostnaður við starfsemi samtakanna hefur verið dreginn frá. Úthlutun fer fram á grundvelli upplýsinga um hvaða verk hafa verið flutt, t.d. í útvarpi, og er leitast við að hafa hana sem nákvæmasta, þó þannig að kostnaður við að afla upplýsinga og skrá þær verði ekki óheyrilega hár svo að sem mest komi til skipta milli rétthafa þegar upp er staðið.

Menningarsjóður STEFs

STEF styrkir innlenda menningarstarfsemi á ýmsan hátt í gegnum Menningarsjóð STEFs.  Ekki er þó hægt að sækja um styrki í þennan sjóð heldur styrkir hann föst verkefni samkvæmt ákvörðun stjórnar STEFs hverju sinni.  Framlög úr sjóðnum fara til rekstrar FTT (Félags tónskálda og textahöfunda) og TÍ (Tónskáldafélags Íslands) auk til verkefna eins og reksturs Samtóns, ÚTÓN, Reykjavík Loftbrú og Íslensku tónlistarverðlaunanna auk ýmis námskeiðahalds og viðburða sem STEF stendur að fyrir meðlimi sína.

Skrifstofa STEFs hefur verið flutt í Ármúla 7 vegna framkvæmda á Laufásveginum. Gert er ráð fyrir að STEF flytji til baka á Laufásveginn haustið 2018.

Viðskiptavinir og meðlimir STEFs eru velkomnir að Ármúla 7 á opnunartíma alla virka daga 10-12 og 13-15.

Þegar skrifstofan er lokuð er hægt að lesa inn skilaboð á símsvara 561-6173 og er þeim svarað við fyrsta tækifæri.

Bjarney Gísladóttir

Móttökustjóri og gjaldkeri

bjarney (@) stef.is

Brynja Guðmundsdóttir

Skrásetjari og starfsmaður NCB

brynja (@) stef.is

Guðný Rósa Gísladóttir

Bókari og starfsmaður NCB

gudny (@) stef.is

Guðrún Björk Bjarnadóttir

Framkvæmdastjóri

gudrunbjork (@) stef.is

Guðrún Ásdís Lárusdóttir

Innheimtufulltrúi

gudrun(@) stef.is

Hrafnkell Pálmarsson

Sölu- og markaðsstjóri

hrafnkell (@) stef.is

Magnús Guðmundsson

Skrásetjari, gagnagrunnur

magnus (@) stef.is

Sindri Magnússon

Skrásetjari

sindri (@) stef.is

Stefán Hilmarsson

Forstöðumaður rekstrarsviðs

stefan (@) stef.is

Stjórn STEFs 2018-2020

Eftir aðalfund 9. júní 2018

Aðalmenn í stjórn:

Þórunn Gréta Sigurðardóttir (TÍ), formaður

Bragi Valdimar Skúlason (FTT), varaformaður

Jakob Frímann Magnússon (FTT)

Hjálmar H. Ragnarsson (TÍ)

Sigurður Flosason (FTT)

Páll Ragnar Pálsson (TÍ)

Óttarr Proppé (utan félaga)

Varamenn í stjórn:

Þuríður Jónsdóttir (TÍ)

Margrét Kristín Sigurðardóttir (FTT)

Helgi Björnsson (FTT)

Hildigunnur Rúnarsdóttir (TÍ)

Sóley Stefánsdóttir (FTT)

Gunnar Andreas Kristinsson (TÍ)

Salka Sól Eyfeld (utan félaga)

Fulltrúaráð STEFs 2018-2020 | Aðalmenn

Kosnir almennri kosningu 2018:

01. Aðalsteinn Á. Sigurðsson (FTT) – Formaður

02. Björgvin Halldórsson (FTT)

03. Óttarr Proppé (utan félaga)

04. Páll Ragnar Pálsson (TÍ)

05. Salka Sól Eyfeld (utan félaga)

06. Sigurður Rúnar Jónsson (utan félaga)

07. Snorri Helgason (FTT)

Tilnefndir af FTT:

08. Bragi Valdimar Skúlason

09. Gunnar Þórðarson

10. Hafdís Huld Þrastardóttir

11. Jakob Frímann Magnússon

12. Sigurður Flosason

13. Sóley Stefánsdóttir

14. Þórir Baldursson

Tilnefndir af TÍ:

15. Atli Ingólfsson

16. Gunnar Andreas Kristinsson

17. Hafdís Bjarnadóttir

18. Hildigunnur Rúnarsdóttir

19. Hjálmar H. Ragnarsson

20. Lárus Grímsson

21. Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Fulltrúaráð STEFs 2018-2020 | Varamenn

01. Svavar Knútur Kristinsson

02. Ragnheiður Gröndal

03. Sigurður Björn Blöndal

04. Úlfar Ingi Haraldsson

05. Arnar Freyr Frostason

06. Davíð Þór Jónsson

07. Hjörtur Ingvi Jóhannsson

08. Hallur Ingólfsson

09. Andrea Gylfadóttir

10. Margrét Kristín Sigurðardóttir

11. Samúel Jón Samúelsson

12. Védís Hervör Árnadóttir

13. Helgi Björnsson

14. Jón Ólafsson

15. Kristín Þóra Haraldsdóttir

16. Þráinn Hjálmarsson

17. Ríkharður H. Friðriksson

18. Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson

19. Elín Gunnlaugsdóttir

20. Mist Þorkelsdóttir

21. Þuríður Jónsdóttir

Skoðunarmenn reikninga 2018-2020

Kjörnir á aðafundi 2018:

Eyjólfur Kristjánsson (FTT)

Tryggvi M. Baldvinsson (TÍ)

Til vara

Ingi Gunnar Jóhannsson (FTT)

Finnur Torfi Stefánsson (TÍ)

Skipurit STEFs

Samþykktir STEFs

1. Nafn og aðsetur

1.1 Samtökin heita Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, skammstafað STEF.

1.2 Heimili og varnarþing samtakanna er í Reykjavík.

2. Tilgangur og viðfangsefni

2.1 STEF er höfundaréttarstofnun, sem gætir höfundaréttarlegra hagsmuna innlendra og erlendra tónskálda, textahöfunda, svo og annarra rétthafa tónverka og tilheyrandi texta. Samtökin starfa einungis í umboði umbjóðenda sinna og veita þeim fyrirgreiðslu, en safna ekki eignum í eigin þágu. Samtökin hafa löggildingu menntamálaráðuneytisins til innheimtu höfundaréttargjalda samkvæmt höfundalögum.

2.2 Höfuðviðfangsefni STEFs í samræmi við tilgang sinn samkvæmt grein 2.1 eru þessi:
A) Samtökin stuðla að og beita sér fyrir varðveislu og eflingu hins einstaklingsbundna höfundaréttar með stöðugri varðgæslu á þessu sviði, beita sér fyrir nýjungum á sviði höfundalöggjafar og standa vörð um tilvist réttarins með öllum tiltækum ráðum.
B) Samtökin veita tónflutningsleyfi, innheimta gjöld fyrir leyfin og framkvæma hvaðeina, sem að því lýtur, þ. á m. málshöfðun til gæslu og verndar hagsmunum þessum. Leita samtökin og gera í því sambandi samninga við útvarpsstöðvar og aðra þá aðila sem tónlist flytja. Samtökin geta sett gjaldskrár fyrir opinberan flutning tónlistar og eru þær háðar staðfestingu menntamálaráðuneytisins.
C) Samtökin veita leyfi til fjölföldunar tónlistar, innheimta gjöld fyrir leyfin og framkvæma hvaðeina, sem að því lýtur, þ. á m. málshöfðun til gæslu og verndar hagsmunum þessum. Samtökin geta falið norrænu innheimtustofnuninni á sviði fjölföldunarréttar, Nordisk Copyright Bureau, að gæta þessara hagsmuna í umboði sínu.

2.3 STEF á aðild að FJÖLÍS, IHM og öðrum þeim samtökum, sem stofnsett kunna að verða, til þess að innheimta höfundaréttargjöld og önnur sambærileg gjöld samkvæmt höfundalögum eða öðrum lögum.

2.4 STEF annast samskipti við hliðstæð samtök erlendra rétthafa.

3. Aðild

3.1 Aðildarfélög STEFs eru: Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda og textahöfunda. Hlutverk félaganna er m.a. að gæta hagsmuna tónskálda og annarra rétthafa tónverka og tilheyrandi texta í samstarfi við STEF.

3.2 Þeir einir geta verið félagsmenn í aðildarfélögum STEFs, sem eru virkir tónhöfundar (tónskáld og/eða textahöfundar) eða erfingjar þeirra, er áður hafa verið félagsmenn í hlutaðeigandi félagi, eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykktum félaganna. Skilyrði er að allir félagsmenn í hvoru félagi um sig hafi veitt STEFi beint umboð til gæslu höfundaréttinda sinna yfir tónverkum, svo og til gæslu tengdra réttinda. Skulu ákvæði hér að lútandi vera í samþykktum félaganna og stjórnir þeirra sjá um að þeim sé framfylgt. Í engu atriði mega samþykktir aðildarfélaganna brjóta í bága við samþykktir STEFs.

3.3 Auk aðildarfélaganna eiga þeir rétthafar, sem standa utan þeirra, aðild að stjórn og fulltrúaráði samkvæmt greinum 4 og 5.

4. Stjórn og framkvæmdarstjóri

4.1 Stjórn samtakanna skipa sjö menn: Tveir menn og tveir til vara, tilnefndir af Tónskáldafélagi Íslands, tveir menn og tveir til vara, til­nefnd­ir af Félagi tónskálda og textahöfunda, og þrír menn og þrír til vara, kosnir af fulltrúaráði samtakanna samkvæmt grein 4.5.

4.2 Formenn Tónskáldafélags Íslands og Félags tónskálda og textahöfunda skulu vera sjálfkjörnir í stjórnina og skulu varaformenn félaganna vera varamenn þeirra. Að auki skal hvort félag um sig tilnefna einn mann og einn til vara til setu í stjórninni til tveggja ára í senn, eftir að almenn atkvæðagreiðsla um fulltrúa í fulltrúaráð samtakanna samkvæmt greinum 5.2 og 5.3 hefur farið fram. Fulltrúar aðildarfélaganna í stjórn STEFs skulu allir vera virkir tónhöfundar.

4.3 Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda og textahöfunda tilnefna formann og varaformann stjórnar STEFs úr hópi stjórnarmanna sinna í STEFi, sbr. grein 4.2. Formaður og varaformaður skulu ævinlega vera hvor úr sínu félagi og tilnefndir til skiptis af þeim til tveggja ára í senn.

4.4 Þeir einir geta setið stjórn STEFs sem aðalmenn og varamenn er uppfylla skilyrði til kjörgengis í fulltrúaráð samtakanna samkvæmt grein 5.4.

4.5 Fulltrúaráð STEFs kýs á aðalfundi sínum þrjá menn úr hópi fulltrúa­ráðsmanna til setu í stjórn samtakanna til tveggja ára í senn og skal a.m.k. einn þeirra ekki vera félagsmaður í öðru hvoru aðildarfélagi samtakanna. Áður en kosningin fer fram skal leitað eftir framboðum til stjórnarkjörs. Bjóði þrír sig fram teljast þeir sjálfkjörnir. Að öðrum kosti fer fram leynileg kosning, þar sem hverjum fulltrúaráðsmanni skal afhentur einn kjörseðill. Skal hann skrifa eitt eða tvö nöfn frambjóðenda á kjörseðilinn. Ef atkvæði eru greidd tveimur frambjóðendum skal a.m.k. annar þeirra vera utan aðildarfélaga STEFs. Ef tveir eru kosnir hljóta þeir hvor um sig eitt atkvæði og ef einn er kosinn hlýtur hann sömuleiðis eitt atkvæði. Ef brugðið er út af fyrrgreindum fyrirmælum telst kjörseðill ógildur, nema hann sé auður. Ef tveir eða fleiri fá jafn mörg atkvæði skal hlutað um það hvor eða hver þeirra telst rétt kjörinn í stjórn STEFs. Ávallt skal þó séð til þess að a.m.k. einn úr hópi hinna þriggja stjórnarmanna komi úr hópi rétthafa utan aðildarfélaganna. Á sama hátt skal kjósa þrjá varamenn í stjórn STEFs, sömuleiðis til tveggja ára.

4.6 Stjórnin stýrir starfsemi samtakanna í samræmi við ákvarðanir fulltrúaráðs samkvæmt grein 5.5. Stjórnin skal annast um að skipulag samtakanna og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnarfundi skal boða með hæfilegum fyrirvara þegar formaður ákveður eða þrír stjórnarmanna óska þess.

4.7 Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar er mættur. Afl atkvæða ræður á stjórnarfundum. Ef tveir stjórnarmenn eða fleiri telja að ákvörðun stjórnar STEFs brjóti í bága við lög eða reglur þær, sem samtökin starfa eftir, geta þeir leitað úrskurðar menntamálaráðuneytisins um álitaefnið. Slíkt frestar ekki því að ákvörðunin komi til framkvæmda, sbr. þó grein 4.8.

4.8 Stjórn STEFs ræður framkvæmdastjóra samtakanna, en framkvæmda­stjóri ræður annað starfsfólk þeirra. Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri samtakanna í samræmi við ákvarðanir stjórnar og fulltrúaráðs samtakanna. Telji framkvæmdastjóri að einhver ákvörðun stjórnar eða fulltrúaráðs brjóti í bága við lög eða reglur þær, sem samtökin skulu starfa eftir, getur hann neitað að framkvæma þá ákvörðun, en skjóta ber hann málinu svo fljótt sem því verður við komið til endanlegs úrskurðar menntamálaráðuneytisins. Framkvæmdastjóri hefur rétt og skyldu til fundarsetu á stjórnarfundum og fulltrúaráðsfundum og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

4.9 Undirskrift fjögurra stjórnarmanna er nægileg til þess að skuldbinda samtökin.

5. Fulltrúaráð

5.1 Fulltrúaráð STEFs er skipað 21 fulltrúa.: Fjórum stjórnarmönnum sem tilnefndir eru af aðildarfélögunum samkvæmt grein 4.2, fimm mönnum og fimm til vara, tilnefndum til viðbótar af hvoru aðildarfélagi um sig, og sjö mönnum og sjö til vara, kjörnum samkvæmt greinum 5.2 og 5.3. Þeir fulltrúaráðsmenn, sem tilnefndir eru af aðildarfélögunum, skulu allir vera virkir tónhöfundar.

5.2 Sjö aðalmenn í fulltrúaráð STEFs skulu kjörnir til tveggja ára í senn í almennri atkvæðagreiðslu sem fram skal fara í marsmánuði annað hvert ár. Af þeim sjö fulltrúa­ráðs­mönnum, sem kjörnir eru með þessum hætti, skulu a.m.k. þrír koma úr hópi rétthafa utan félaga. Allir þeir rétthafar, sem veitt hafa STEFi umboð sitt til hagsmuna­gæslu, hafa atkvæðisrétt, hvort sem þeir eru félagar í öðru hvoru aðildarfélagi þess eða standa utan félaganna, enda hafi þeir fengið úthlutað að lágmarki frá samtökunum samtals 120 þús. kr. á undan­gengnum þremur árum. Tónhöfundur eða annar rétthafi fer sjálfur með atkvæðisrétt vegna réttinda sinna, jafnvel þótt hann hafi framselt rétt sinn til höfundaréttargreiðslna til annars aðila, nema um sé að ræða viðurkenndan tónlistarútgefanda. Ef höfundur eða rétthafi er látinn skal sá erfingi hans eða annar fyrirsvarsmaður erfingja, sem skráður er viðtakandi greiðslna samkvæmt rétthafaskrá STEFs, fara óskipt með atkvæðisrétt vegna réttinda hins látna. Ekki síðar en 1. febrúar það ár, sem atkvæðagreiðslan á að fara fram, skal auglýst eftir framboðum og skal framboðsfrestur vera fjórar vikur. Ef sjö hafa boðið sig fram, að framboðsfresti loknum, teljast þeir sjálfkjörnir, en hafi fleiri boðið sig fram skal atkvæðagreiðsla fara fram samkvæmt grein 5.3. Ef færri en sjö hafa boðið sig fram, að venjulegum framboðsfresti loknum, skal hann framlengdur um eina viku.

5.3 Þriggja manna kjörstjórn, sem stjórn STEFs kýs, skal annast framkvæmd hinnar almennu atkvæðagreiðslu og skera úr öllum ágreinings- og vafaatriðum í sambandi við hana. Sérhver rétthafi, sem atkvæðisrétt hefur samkvæmt grein 5.2, ræður yfir einu atkvæði við atkvæðagreiðsluna. Fari samanlagðar höfunda­réttargreiðslur, sem rétthafinn hefur fengið úthlutað á undangengnum þremur árum, fram úr 180 þús. kr. bætist við eitt atkvæði, fari greiðslurnar fram úr 300 þús. kr. bætast við tvö atkvæði, fari greiðslurnar fram úr 1,5 millj. kr. bætast við þrjú atkvæði, fari greiðslurnar fram úr 3 millj. kr. bætast við fjögur atkvæði og fari greiðslurnar fram úr 6 millj. kr. bætast við fimm atkvæði. Samkvæmt þessu getur enginn einn rétthafi farið með fleiri en sex atkvæði við atkvæðagreiðsluna. Hver rétthafi getur greitt einum frambjóðanda atkvæði, þó þannig að ráði hann yfir fleiri en einu atkvæði getur hann greitt fleiri en einum frambjóðanda atkvæði. Atkvæðagreiðslan fer þannig fram að hver rétthafi, sem atkvæðisrétt hefur, fær senda jafn marga kjörseðla og þau atkvæði eru sem hann ræður yfir. Á kjörseðlinum skulu skráð nöfn frambjóðenda í stafrófsröð og skal rétthafinn krossa við nafn eins þeirra. Að því loknu setur hann kjörseðilinn í lokað umslag. Umslögin með kjörseðlunum skulu berast skrifstofu STEFs innan þriggja vikna frá því að þau voru send út. Annast kjörstjórn talningu atkvæða. Berist kjörseðill frá einhverjum, sem ekki hefur atkvæðisrétt, sé hann annars konar en þeir kjörseðlar, sem sendir voru út, sé merkt við nöfn fleiri en eins frambjóðanda á kjörseðli eða sé þar að finna einhver auð­kenni, sem bent gætu til þess hver kjósandinn er, telst seðillinn ógildur, nema hann sé auður.Ef tveir eða fleiri fá jafn mörg atkvæði skal hlutað um það hvor eða hver þeirra telst rétt kjörinn í fulltrúaráð STEFs. Ávallt skal þó séð til þess að a.m.k. þrír úr hópi hinna sjö fulltrúaráðsmanna komi úr hópi rétthafa utan aðildarfélaganna. Þegar úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir skulu þeir, er kjörnir hafa verið í fulltrúaráðið sem aðalmenn, tilnefna varamenn sína og skulu varamenn fullnægja skil­yrðum til að eiga sæti í fulltrúaráðinu samkvæmt grein 5.4, auk þess sem varamenn fulltrúaráðsmanna utan félaga skulu einnig standa utan aðildarfélaga STEFs.

5.4 Þeir einir geta átt sæti í fulltrúaráðinu og eru kjörgengir til þess sem fullnægja skilyrðum til að greiða atkvæði og fara með atkvæðisrétt samkvæmt grein 5.2. Rétthafar sem verulegra hagsmuna hafa að gæta sem viðsemjendur STEFs um höfundaréttargjöld eru heldur ekki kjörgengir í fulltrúaráðið né heldur þeir sem uppvísir hafa orðið að stórfelldum höfunda­réttarbrotum eða brotið hafa gegn samtökunum með öðrum hætti.

5.5 Fulltrúaráðið fer með æðsta vald í málefnum samtakanna.

5.6 Aðalfund fulltrúaráðsins skal halda í maímánuði ár hvert og skal taka fyrir þessi mál á fundinum:
1. Skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra fyrir liðið ár.
2. Afgreiðslu endurskoðaðra reikninga samtakanna fyrir liðið ár.
3. Tilkynningu um kosningu stjórnar fyrir næsta starfsár, sbr. þó 4. tölul.
4. Kosningu þriggja manna í stjórn STEFs, þó aðeins annað hvert ár, sbr. grein 4.5.
5. Kosningu tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara fyrir næsta starfsár. Skal annar skoðunarmannavera félagsmaður í Tónskáldafélagi Íslands, en hinn í Félagi tónskálda og texta­höfunda.
6. Kosningu formanns fulltrúaráðsins.
Önnur mál.

5.7 Aðra fulltrúaráðsfundi skal boða þegar stjórn ákveður eða skoðunarmenn eða þrír fulltrúaráðsmenn óska þess.

5.8  Stjórn STEFs skal boða til fulltrúaráðsfunda bréflega og skal geta dagskrár í fundarboði. Aðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara, en aðra fundi með einnar viku fyrirvara.

5.9 Formaður fulltrúaráðsins stjórnar fundum þess. Ekki verður ályktað um mál, sem ekki er getið í fundarboði, nema 4/5 hluta fundarmanna samþykki. Afl atkvæða ræður á fulltrúaráðsfundum nema annað sé sérstaklega tekið fram í samþykktum þessum.

6. Meðferð fjármála

6.1 Tekjum STEFs skal varið sem hér segir:
A) Af heildartekjum skal fyrst greiða opinber gjöld, ef á verða lögð, og síðan allan rekstrarkostnað samtakanna.
B) Af því fé, sem þá verður eftir, skal greiða allt að 10% til Tónmennta­sjóðs STEFs, eftir nánari ákvörðun aðalfundar fulltrúaráðs samtakanna. Úr þeim sjóði er heimilt að úthluta fé til starfsemi aðildarfélaga STEFs og skal þess gætt að jafn miklu fé sé úthlutað árlega til hvors aðildarfélags.
C) Það fé, sem þá verður eftir, skiptist með þeim, er flutningsrétt eiga á verkum sem samtökin innheimta gjöld fyrir, eftir þeim reglum sem settar verða af samtökunum í samræmi við reglur hliðstæðra samtaka í aðildarríkjum Bernarsáttmálans. Í reglunum má af hagkvæmnis­ástæðum kveða á um einföldun úthlutunar til innlendra og erlendra rétthafa í samræmi við hefðir sem skapast hafa í því efni.

6.2 Athugasemdir við úthlutun höfundaréttargreiðslna frá STEFi ber að senda skrifstofu samtakanna innan þriggja mánaða frá því að tilkynning um úthlutun var send rétthafa, enda er samtökunum ekki skylt að taka til greina athugasemdir við afreikning, þær er síðar koma fram.

6.3 Reikningsár STEFs er almanaksárið.

6.4 Ársreikningur STEFs skal endurskoðaður ár hvert af löggiltum endurskoðanda og sendur kjörnum skoðunarmönnum samtakanna, en þeir skulu aftur senda ársreikninginn til stjórnar STEFs með athugasemdum sínum. Skal reikningurinn síðan, ásamt öðrum reikningum samtakanna, lagður fyrir aðalfund fulltrúaráðs þeirra til samþykktar. Þeir fulltrúa­ráðsmenn, sem þess óska, geta fengið athent eintak af ársreikningum daginn fyrir aðalfund.

6.5 Styrkir úr sjóðum, sem tengjast STEFi, þ. á m. á grundvelli samninga samtakanna við aðra aðila, skulu veittir eftir eðli verkefna í samræmi við markmið þeirra, óháð félagsaðild styrkþega. Styrkirnir skulu veittir á faglegum forsendum.

7. Önnur ákvæði

7.1 Samþykktum þessum, reglum STEFs um úthlutun höfundaréttar­greiðslna sem og stjórnarfyrirkomulagi og markmiðum sjóða samkvæmt grein 6.5 verður aðeins breytt á aðalfundi fulltrúaráðsins, þar sem a.m.k. helmingur fulltrúa er mættur og 3/4 hlutar þeirra greiða breytingunni atkvæði. Nú hlýtur tillaga til breytinga á samþykktunum 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi og verður samþykktunum þá breytt ef sama tillaga er samþykkt á aðalfundi að ári að öllu leyti óbreytt með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Að öðrum kosti telst tillagan felld.

7.2 STEF verður því aðeins lagt niður að um það sé gerð samþykkt á fundi í fulltrúaráði STEFs eftir þeim reglum sem greindar eru í grein 7.1. Skal þá sá fundur ráðstafa eignum samtakanna og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir er að slitum þeirra lúta.

7.3 Samþykktir þessar öðlast nú þegar gildi

 

Ákvæði til bráðabirgða:

Breytt skipan á stjórn og fulltrúaráði STEFs frá fyrri samþykktum, þ. á m. hvernig mál skuli þar afgreidd, tekur gildi á aðalfundi samtakanna vorið 2010. Skal almenn atkvæðagreiðsla, þar sem kjörnir skulu sjö menn í fulltrúaráð STEFs til tveggja ára, fara fram í marsmánuði 2010, sbr. nánar greinar 5.2 og 5.3. Gildistöku þess ákvæðis greinar 7.1, að samþykktum STEFs og öðrum þeim atriðum, sem þar eru greind, verði breytt með samþykki 2/3 atkvæða á aðalfundi fulltrúaráðsins tvö ár í röð, frestast þannig að samþykktunum eða atriðunum verður í fyrsta lagi breytt með þessum hætti á aðalfundi árið 2012, að undangenginni samþykkt aðalfundar árið áður.

Samþykkt á aðalfundi STEFs 16. maí 2009.

Heiðursmerki

Eftirtaldir aðilar hafa hlotið heiðursmerki STEFs:

 • Luciano Pavarotti (1980)

 • Rut Ingólfsdóttir (1991)

 • Paul Zukovsky (1991)

 • Haukur Morthens (1992)

 • Þorgerður Ingólfsdóttir (1992)

 • Jón Nordal (2008)

 • Jón Þórarinsson (2008)

 • Björgvin Halldórsson (2011)

 • Magnús Kjartansson (2011)

 • Valgeir Guðjónsson (2012)

 • Ragnar Bjarnason (2014)

 • Gunnar Þórðarson (2015)

 • Guðný Guðmundsdóttir (2015)

 • Magnús Þór Jónsson (2015)

 • Magnús Eiríksson (2015)

 • Áskell Másson (2016)

 • Þórhallur Sigurðsson (2017)

 • Ingibjörg Þorbergs (2017)

 • Atli Heimir Sveinsson (2018)

Minningarkort

STEF heldur utan um Minningarsjóð um látin íslensk tónskáld.  Gefin eru út minningarkort á vegum sjóðsins og sér STEF um að senda minningarkortin til aðstandenda þess sem er minnst. Hlýlegt er að senda vinum og vandamönnum minningarkort til að minnast látins ástvinar og það fé sem þannig aflast rennur í Minningarsjóðinn.  Hægt er að hringja á skrifstofu STEFs til að panta minningarkort eða ýta á hnappinn hér að neðan.  Passa þarf að allar upplýsingar séu rétt fylltar út. Athuga ber að það eru upplýsingar um þrjá einstaklinga semþurfa að koma fram.

 1. Hvers er verið að minnast – fullt nafn.
 2. Hver er viðtakandi – fullt nafn og heimilisfang.
 3. Hver er sendandi – Fullt nafn, heimilisfang, kennitala, tölvu-póstfang ásamt upphæð.
  minningakort
Aðildarfélög STEFs

Aðildarfélög STEFs eru Tónskáldafélag Íslands, T.Í. og Félag tónskálda og textahöfunda, F.T.T. Skilyrði aðildar að samtökunum eru þau að allir félagsmenn í hlutaðeigandi félagi hafi veitt STEFi beint einkaumboð til gæslu höfundaréttinda sinna yfir tónverkum, svo og til gæslu tengdra réttinda. Skulu ákvæði þar að lútandi vera í samþykktum félaganna og stjórnir þeirra sjá um að þeim sé framfylgt.

Systursamtök STEFs

CISAC

CISAC er skammstöfun fyrir Confédération Internationale des Sociétés d’Auteurs et Compositeurs sem útleggst: Alþjóðasamband höfundaréttarfélaga. Í samtökum þessum eru félög sem eiga beina aðild að sambandinu svo og önnur félög með óbeina aðild, svo sem rithöfunda- og þýðendafélög. Beina aðild eiga öll höfundaréttarsamtökin, sem einnig eru nefnd systursamtök.

GESAC

GESAC er skammstöfun fyrir Groupement Européen des Sociétés d’Auteurs et Compositeurs. Samtökin eru Evrópusamband allra höfundaréttarfélaga og eiga þau óbeina aðild að CISAC.

SYSTURSAMTÖK STEFs

Samtök Land Netfang
ABRAMUS Brasilía abramus@abramus.org
ACAM Kosta Rica info@acam.cr
ACDAM Kúba acdam@acdam.org
AMUS Bosnía Hersigovína strucnasluzba@amus.ba
APDAYC Perú apdayc@apdayc.org.pe
AEPI Grikkland info@aepi.gr
AKKA/LAA Lettland info@akka-laa.lv
AKM Austurríki direktion@akm.at
AMRA Bandaríkin info@amra.com
APRA-AMCOS Ástralía apra@apra.com
ARTISJUS Ungverjaland kommunikacio@artisjus.com
ASCAP Bandaríkin ascap@ascap.com
BMI Bandaríkin newyork@bmi.com
BUMA Holland info@buma.nl
CASH Hong kong general@cash.org.hk
EAU Eistland eau@eau.org
GEMA Þýskaland gema@gema.de
HDS-ZAMP Króatía zamp@hds.hr
IMRO Írland info@imro.ie
KODA Danmörk info@koda.dk
LATGA-A Litháen latga@latga.lt
MACA Macau info@maca.org.mo
MACP Malasía general@macp.com.my
MCSC Kína qujm@mcsc.com.cn
MCT Thailand mct@mct.in.th
OSA Tékkland vp@osa.cz
PAM Svartfjallaland office@pam.org.me
PRS Bretland info@prs.co.uk
RAO Rússland zeta@moscow.portal.ru
SABAM Belgía contact@sabam.be
SACEM Frakkland distribution.queries@sacem.fr
SAYCO Kólumbía sayco@sayco.org
SCD Chile info@scd.cl
SESAC Bandaríkin international@sesac.com
SGAE Spánn info@sgae.es
SIAE Ítalía info.autorieditori@siae.it
SOCOM-ZAMP Macedonía sokom@sokom.mk
SPA Portúgal geral@spautores.pt
STIM Svíþjóð info@stim.se
SUISA Sviss og Lichtenstein suisa@suisa.ch
TEOSTO Finnland teosto@teosto.fi
TONO Noregur tono@tono.no
UACRR Úkraína info@uacrr.gov.ua
UCMR-ADA Rúmenía ada@ucmr-ada.ro
ZAIKZ Pólland zaiks@zaiks.org.pl
Stuttmyndin "Stef um STEF" – Um höfundarétt og áhrif tónlistar

Í tilefni 50 ára afmælis STEFs árið 1998 stóðu samtökin fyrir gerð kynningarmyndar til að varpa ljósi mikilvægi tónlistar og höfundaréttar.

Sögulegt yfirlit

Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, var stofnað hinn 31. janúar 1948 að frumkvæði tónskáldsins Jóns Leifs. Stofnfundur félagsins var jafnframt aðalfundur Tónskáldafélags Íslands og voru þar mættir: Jón Leifs, Páll Ísólfsson, Hallgrímur Helgason, Helgi Pálsson, Sigurður Þórðarson, Árni Thorsteinsson, Jón Nordal, Karl O. Runólfsson, Jón Þórarinsson og Björgvin Guðmundsson. Nafngiftin STEF mun vera runnin frá dr. Hallgrími Helgasyni. Aðalmenn í stjórn á þessum fyrsta fundi voru kjörnir Jón Leifs, Hallgrímur Helgason og Helgi Pálsson. Til vara: Páll Ísólfsson, Jón Þórarinsson og Karl Runólfsson.

STEF er höfundaréttarsamtök sem hafa haft það að markmiði frá upphafi að gæta hagsmuna innlendra og erlendra tónskálda, textahöfunda og annarra tengdra rétthafa á því sviði höfundaréttar.

Í öllum Evrópuríkjum og flestum öðrum ríkjum heims hafa höfundaréttarsamtök á borð við STEF einkarétt til að gera samninga um opinberan flutning á tónverkum og tilheyrandi textum. Fyrirsvarsmenn STEFs hafa frá upphafi verið meðvitaðir um þessa stöðu samtakanna og gætt þess að misnota hana ekki gagnvart viðsemjendum sínum. Hefur STEF aðeins í algjörum undantekningartilvikum lagt bann við flutningi tónlistar, þ.e. þegar um ítrekuð og veruleg vanskil hefur verið að ræða af hálfu þeirra aðila sem hana flytja.

Ef þig vantar upplýsingar, ekki hika við að hafa samband

5 + 9 =

Heimilisfang

Ármúli 7

108 Reykjavík.

 

Hafa samband

Sími: (+354) 561 6173

E-mail info(@)stef.is

 

Opnunartími skrifstofu

Virkir dagar frá:

10:00 til 12:00 & 13:00 til 15:00