Tónleikar

Athugið: Þessi síða er ætluð tónleikahöldurum.

Tilkynning tónleikahaldara um tónleikahald

ATH: Ef þú ert höfundur að tilkynna um flutning verka þinna á tónleikum, farðu þá á inn á „Mínar síður“.

1Skref 1
2Skref 2
3Skref 3
  • TónleikastaðurDagsetning tónleikanna 
    Ef um tónleikaröð er að ræða, þá verður að bæta inn öllum stað- og dagsetningum. Það er gert með því að ýta á litla plús-merkið hægra megin.
  • Ef um tónleikaröð er að ræða, þá á þetta við heildarsölu miða af öllum tónleikunum með sama lagalista.
  • Ef um tónleikaröð er að ræða, þá er átt við heildartekjur af öllum tónleikunum samtals og að til grundvallar sé sami lagalisti.

ATH: Ef þú ert höfundur að tilkynna um flutning verka þinna á tónleikum, farðu þá á inn á Mínar síður.

Tónleikar - Verðskrá

Áður en tónleikar eru haldnir er æskilegt að tónleikahaldarinn afli leyfis hjá STEFi. Starfsfólk STEFs fylgist einnig með auglýsingum í útvarpi, blöðum og á netinu og innheimtir höfundarréttargjöld af þeim tónleikum sem STEF sér auglýsta, hafi tónleikahaldari ekki sjálfur samband við STEF.

Af heildartekjum að einstökum tónleikum eða tónleikaröðum allt að kr. 6.000.000 skal greiða 4,24%. Af tekjum umfram kr. 6.000.000 skal greiða 2,65%. Innifalið í þessum tölum er greiðsla til SFH (Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda) vegna spilunar hljóðrita fyrir og eftir tónleika svo og í hléi.

Til heildartekna tónleika skv. ofangreindu skulu reiknast allar tekjur af miðasölu (án alls frádráttar), hvort sem miðasala fer fram í gegnum miðasölufyrirtæki eða miðar seldir beint, sem og allir styrkir til tónleikahaldara, hvaða nafni sem þeir nefnast, jafnt frá opinberum aðilum sem og einkaaðilum.

Aldrei skal þó greidd lægri fjárhæð en sem nemur lágmarksgjöldum skv. verðskrá STEFs (slíkt á einnig við ef enginn aðgangseyrir er greiddur af tónleikum eða slíkt gjald er tiltölulega lágt).

Verðskrá (jan. 2024):
Ef samkomugestir eru 100 eða færri7.812 kr.
Ef samkomugestir eru 101-20023.438 kr.
Ef samkomugestir eru 201-300 35.156 kr.
Ef samkomugestir eru 301 eða fleiri skal greiða fyrir hvert byrjað hundrað umfram 30010.742 kr.

Af stærri tónleikum, þar sem ætla má að leyfisgjald fari yfir kr. 20.000 skal tónleikahaldari skila inn tryggingu fyrir væntanlegu leyfisgjaldi og er leyfisgjaldið þá leiðrétt eftir á ef þörf krefur. Annars er leyfisgjald greitt næsta virka dag eftir tónleikana.

Ef tónverk eru fallin úr vernd, þ.e. ef höfundar þeirra létust fyrir meira en 70 árum, og samanlagður tími verndaðrar tónlistar er minni en 1/3 af heildartíma verkanna sem leikin eru, lækkar prósentugjaldið í 2%. Lágmarksgjald lækkar þó ekki.

Nánari upplýsingar

Ef flytja á tónlist í sviðsverkum þarf sá sem setur verkið upp að athuga hvort tónlistin í verkinu sé frumsamin fyrir viðkomandi verk. Ef tónlistin hefur verið frumsamin í samstarfi við framleiðanda er oftast um svokölluð „stórréttindi“ eða „grand rights“ að ræða og verður sá er vill setja upp verk með tónlistinni síðar að semja sérstaklega við viðkomandi tónskáld eða þann sem á réttinn að henni um réttinn til að flytja tónlistina í verkinu. Það sama á við ef um er að ræða aðlögun að kvikmyndaverki fyrir leiksvið. Sama gildir einnig ef t.d. leikhús eða balletthópur fær tónskáld til að semja sérstaklega tónlist við sviðsverk er þá bæði samið um gerð verksins svo og opinberan flutning þess.
Höfundaréttarsamtök eins og STEF innheimta því ekki höfundaréttargjöld vegna flutnings á verkum sem höfundar semja sjálfir um sem „stórréttindi“ sín. Þegar um er að ræða þekkta erlenda söngleiki er það mjög oft tónlistarforleggjari (e. „publisher“) sem fer með réttinn til að semja um uppsetningu verksins. Oft er leyfisgjaldið þá um 12-20% af miðaverði sýningarinnar. Oft eru í boði sérstök verð fyrir skóla og áhugaleikhópa. Getur STEF aðstoðað við að afla upplýsinga um hver rétthafinn er að viðkomandi verki, ef erfitt reynist að finna upplýsingar um slíkt eftir öðrum leiðum. Einnig má benda á að Bandalag íslenskra leikfélaga www.leiklist.is getur einnig veitt upplýsingar um rétthafa og aðstoðar leikfélög við að afla slíkra leyfa. Ef sá sem setur upp sviðsverk notar hins vegar áður útgefna og óskylda tónlist í verkinu (t.d. þegar notuð eru þekkt lög frá ákveðnu tímabili poppsögunnar) semur viðkomandi við STEF um leyfi fyrir tónlistinni. Er það ávallt skilyrði fyrir leyfinu að STEF fái upplýsingar um hvaða tónlist er notuð í verkinu og byggir STEF úthlutun sína á þeim upplýsingum. Hafa atvinnuleikhúsin hér á landi samninga við STEF vegna notkunar slíkrar tónlistar í þeim verkum sem þau setja upp.

Ef ætlunin er að flytja í tónleikaformi, söngleikjalög án leikmyndar, búninga og leikgerðar s.k. konsertuppfærslur eða ef um er að ræða uppsetningu á sviði á lögum úr tilteknu kvikmyndaverki, þarf samt sem áður að fá leyfi fyrir því frá rétthafa söngleiksins eða kvikmyndaverksins, nema um sé að ræða tiltölulega fá lög úr viðkomandi verki en þá getur STEF veitt leyfi fyrir tónleikunum.

Við mat á því í hvorn flokkinn viðkomandi viðburður fellur skiptir einnig máli hvort framleiðslan er að nýta sér vörumerki eða logo viðkomandi söngleikjar eða kvikmyndaverks eða jafnvel þekkst listamanns, en STEF getur aldrei veitt leyfi fyrir slíkri notkun. Leyfi STEFs til slíks tónflutnings í sviðsverkum nær þó eingöngu til notkunar tónlistarinnar á sýningum en ekki sjálfkrafa um leið til útgáfu verkanna á t.d. geisladisk eða DVD. Fyrir hljóðsetningunni þarf leyfi höfundar nema um sé að ræða framleiðslu á verkum sem ekki þarf að greiða hljóðsetningargjald fyrir, þ.e.a.s. ef um er að ræða eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva sem eru með samning við STEF.

Fyrir útgáfu í föstu formi þarf síðan eins og endranær (hvort sem um er að ræða útgáfu á efni sem telst til stórréttinda eða ekki) leyfi frá NCB sem innheimtir fjölfjöldunargjald vegna útgáfunnar fyrir höfunda og einnig hljóðsetningargjald ef höfundur kýs svo. Vert er að vekja einnig athygli á að þýðing texta leikverks eða söngtexta á íslensku krefst ávallt samþykkis upprunalegs höfundar lags, enda telst slíkt vera breyting á upprunalegu verki höfundar.

Í þeim tilfellum þegar settir eru upp tónleikar sem heiðra ákveðna listamenn eða hljómsveitir eða þar sem einhverjar ákveðnar hljómplötur eru teknar fyrir er mikilvægt fyrir tónleikahaldara að vera meðvitaða um að mögulega þurfi leyfi beint hjá rétthöfum fyrir notkuninni. Á þetta sérstaklega við um ef notuð eru vörumerki viðkomandi listamanna eða beinar skýrskotanir í útlit t.d. hljómplatna.

Fræðslustarfsemi – uppsetning skóla á leikverkum með tónlist

Samkvæmt 21. gr. höfundalaga er heimilt að flytja tónlist opinberlega án greiðslu ef um er að ræða flutning sem er hluti af fræðslustarfsemi. Sú takmörkun er þó á þessari heimild að hún nær eingöngu til þess ef sýningin er hluti af starfsemi skólans og ekki sé greitt fyrir flutninginn til flytjenda. Sé tekinn aðgangseyrir að söngleikjasýningum skóla er ljóst að ofangreint skilyrði er ekki uppfyllt og að þá þarf að afla leyfis skv. framansögðu fyrir flutningnum, annaðhvort beint hjá rétthafa eða í gegnum STEF. Þegar metið er hvort sýning falli undir fræðslustarfsemi eða ekki skiptir einnig máli hvort sýningin er auglýst opinberlega og hún ætluð almenningi eða hvort hún er eingöngu auglýst innan skólans eða innan þröng hóps foreldra og annarra aðstandenda nemenda.

Ef tónleikar nemenda eru hluti af námi í almennum grunnskólum eða hluti af hefðbundnu tónlistarnámi opinberra tónlistarskóla s.s. ef um er að ræða burtfararpróf, áfangapróf eða þess háttar viðburði, innheimtir STEF ekki höfundaréttargjöld af viðkomandi tónleikum. Af tónleikum kóra eða skólahljómsveita sem skipuð eru nemendum grunnskóla eða framhaldsskóla (miðað er við nemendur séu flestir yngri en 20 ára) en falla samt sem áður ekki undir ofangreint, skal greiða höfundaréttargjöld skv. gjaldskrá STEFs með 50% afslætti, en þó aldrei lægra en lágmarksgjöld fyrir allt að 100 gesti. Um slíkt er t.d. að ræða þegar fram koma börn og ungmenni á tónleikum sem haldnir eru á vegum kirkjunnar eða einkarekinna tónlistarskóla. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvar tónleikarnir eru haldnir. Ef aðrir standa að tónleikahaldi en viðkomandi tónlistarskóli, kór eða skólahljómsveit, gildir almenn gjaldskrá STEFs fyrir tónleika.

STEF getur ekki úthlutað til höfunda nema að lagalista vegna tónleikanna sé skilað til STEFs. Tónleikahaldarar bera ábyrgð á að koma lagalistum til STEFs. Höfundar og flytjendur geta einnig skilað lagalistum til STEFs. Lagalista er bæði hægt að skila inn fyrir og eftir tónleika.

Jafnvel þótt flytjendur spili eigin tónlist á tónleikum ber að standa skil á höfundaréttargreiðslum til STEFs en í því tilviki fer fjárhæðin nær óskert aftur til viðkomandi höfunda.  Ástæðan er sú að langoftast slæðast með á tónleikum einhver verk eftir aðra höfunda t.d. textahöfunda. Þá er það oft þannig að flytjendur eru fleiri en höfundar tónlistarinnar s.s. þegar um tónleika hjá hljómsveitum er að ræða. Þá getur verið að höfundar hluta tónlistarinnar sem flutt er séu ekki lengur í hljómsveitinni þótt að hún komi enn fram undir sama nafni.  Með því að greiða höfundaréttargjöld af tónleikunum er tryggt að höfundarnir fái réttar greiðslur og þannig þurfa hljómsveitarmeðlimir ekki að skipta því sem þeir fá eftir hverja tónleika eftir því hver hefur samið hvaða lag sem spilað var.

Sú regla gildir hjá STEFi að ef upphitunarhljómsveit er á tónleikum, fá höfundar þeirrar tónlistar greidd 10% af höfundaréttargreiðslum tónleikana en höfundar laga aðalhljómsveitarinnar fá 90% greiðslunnar. Samtökin fylgja að þessu leyti  þeim reglum sem gilda almennt hjá höfundaréttarsamtökum , t.d í Bretlandi og á Norðurlöndum.  Þessi skipting byggir á því að aðsókn að tónleikum er vegna aðalhljómsveitar sem stendur að tónleikunum.

  1. Umsókn sé skrifleg og undirrituð af tónleikahaldara.
  2. Auglýst sé opinberlega að tónleikarnir séu haldnir til að styrkja eitt ákveðið málefni, sem miðar að almannaheill eða til að styrkja ákveðinn einstakling eða fjölskyldu sem á við erfiðleika að stríða vegna veikinda, slysfara eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
  3. Lögð sé fram staðfesting frá þeim sem koma að fyrirhuguðum tónleikum; að flytjendur, ljósamenn, hljóðmenn, tæknimenn, tónleikahaldari og aðrir geri það án þess að þiggja fyrir endurgjald í hvaða formi sem er.
  4. Lögð sé fram dagskrá og yfirlit yfir þau tónverk (lög ásamt texta) sem flutt verða á tónleikunum.

Umsóknareyðublað fyrir góðgerðartónleika ásamt fylgiskjölum skal skilað á skrifstofu STEFs eða skannað á netfangið info@stef.is.

Scroll to Top