Kvenhöfundar sækja í sig veðrið

Karlar hafa í gegnum árin verið í miklum meirihluta þegar kemur að lagasmíðum, enda bransinn löngum verið karllægur. Ýmislegt hefur á undanförnum árum verið gert til að hvetja konur og kynsegin til aukinnar tónlistarþátttöku og má í því sambandi nefna átakið „Stelpur rokka“ og þátttöku bransaaðila í alþjóðlega verkefninu „Keychange“, svo eitthvað sé nefnt. Þá er vert að nefna ‘mentor’-verkefnið „Vindur í seglum“, sem STEF hefur boðið kvenmeðlimum uppá frá árinu 2020.

Á undanförnum árum hefur STEF reglulega gert greiningu á kynjahlutfalli. Kvenhöfundum hefur fjölgað smám saman, þótt hægt þokist. Nýjasta greining sýnir áframhaldandi fjölgun kvenhöfunda, hægt og bítandi.

Hún sýnir hins vegar allnokkra aukningu á milli ára hvað varðar úthlutun til kvenhöfunda, sem er til marks um að kvenhöfundar eiga í auknum mæli hlutdeild í lögum sem njóta vinsælda. Þetta eru nokkur tíðindi, því eins og sjá má, þá hafði þetta hlutfall lítið breyst milli ára fram til þessa.

Þess má geta að verkefnið „Vindur í seglum“ fer aftur af stað í haust.

Scroll to Top