Skattamál

Gagnlegar upplýsingar um skattamál
forleggjarasamninga, tvísköttunarmál o.fl.

Um skattlagningu höfundaréttartekna

Frá og með 1. janúar 2020 eru höfundaréttargreiðslur skattlagðar sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar. Fjármagnstekjuskattur er einungis greiddur af einstaklingum (ekki félögum). Ekki er heimilt að draga frá nokkurn kostnað af fjármagnstekjum.

STEF heldur eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts við úthlutanir til allra einstaklinga og stendur skil á þeim fjármunum til skattayfirvalda skv. reglum sem þar um gilda. Upplýsingar um höfundaréttartekjur frá STEFi og skattheimtu verða síðan forskráðar á skattframtöl rétthafa.

Fái höfundar höfundaréttartekjur annars staðar frá, sem teljast tekjur vegna „síðari afnota“ (eins og það heitir í lögunum), getur viðkomandi einnig talið þær tekjur fram sem fjármagnstekjur. Það er þá gert eftir á, á skattframtali viðkomandi. Dæmi um slíkt gætu verið tekjur vegna leigu eða sölu á nótum. Einnig vegna afnota á tónverki í auglýsingu eða kvikmynd eða sjónvarpsþáttum (s.k. tónsetning/e. sync) að því marki sem höfundur fær ekki slíkar tekjur í gegnum STEF. Annað dæmi um „síðari afnota“ eru tekjur sem höfundar fá frá tónlistarforleggjurum (e. publishers).

Um skattlagningu og forleggjara (e. publishers)

Höfundar sem gert hafa forleggjarasamninga þurfa að tilkynna STEFi það. Slíkt fyrirkomulag felur það jafnan í sér að hluti tekna viðkomandi höfunda rennur til forleggjarans, enda hafi viðkomandi forleggjari látið STEFi í té tilheyrandi upplýsingar, þ.á.m. bankaupplýsingar. Sá hluti er tilheyrir forleggjaranum rennur þá óskiptur frá STEFi til hans og verður skattlagður hjá honum skv. gildandi reglum á viðkomandi stað.

Hafi höfundur fengið fyrirframgreiðslu frá forleggjara, sem felur í sér að enn hærra hlutfall af tekjum renni til forleggjarans — jafnvel allar tekjur höfundar tímabundið uns fyrirframgreiðsla er greidd að fullu — þá renna þær tekjur jafnframt óskiptar til viðkomandi forleggjara. M.ö.o. er ekki dreginn fjármagnstekjuskattur af tilheyrandi tekjum á meðan slíkt tímabundið ferli er í gangi.

Höfundar verða aftur á móti að geta um slíkar fyrirframgreiðslur á skattframtali sínu. Gætið að því að tilgreina það sem „höfundaréttartekjur“.

Undanþága frá tvísköttun fyrir rétthafa með heimilisfesti erlendis

Rétthafar sem búsettir eru erlendis og hafa þar skattalega heimilisfestu þurfa að sækja um undanþágu hjá RSK til að komast hjá s.k. „tvísköttun“, m.ö.o. því að verða skattlagðir á báðum stöðum.

Það er gert með því að fylla út þar til gert eyðublað RSK, sem er að finna hér (ath. eyðublaðið er aðeins til á ensku). Gætið að því að haka í reitinn „Use of property rigths“ til að fá rétta undanþágu.

Rétthafi kemur eyðublaðinu svo til skattayfirvalda í viðkomandi landi, sam taka málið fyrir, staðfesta skjalið og stimpla (ath. að skattskylduvottorð útgefið af þeim er einnig jafngilt, hafi menn slíkt við höndina). Því næst þarf að koma skjalinu (eða skattskylduvottorðinu) til RSK, sem mun færa breytinguna til bókar.

Þegar þetta er klárt, þá þarf rétthafi að láta STEF vita að þetta sé frágengið og upp frá því mun STEF hætta að draga skatt af viðkomandi við úthlutanir, sem mun í framhaldinu aðeins greiða skatt af úthlutunum skv. viðeigandi skattalögum í dvalarlandinu.

Hafi meðlimur STEFs lent í því að höfundaréttartekjurnar eru tvískattaðar, þá getur viðkomandi sótt um endurgreiðslu til skattyfirvalda hér á landi, hafi tvísköttunin átt sér stað í landi sem Ísland er með tvísköttunarsamning við (sjá lista yfir viðkomandi lönd). Athugið þó að samningar við lönd eru mismunandi og skv. sumum þeirra má Ísland áfram skattleggja. En prósentan lækkar niður í 5-10% sé sótt um undanþáguna til RSK.

Um skattlagningu og heimilisfesti

Mikið skattalegt hagræði er af því að höfundar búsettir á Íslandi séu meðlimir í STEFi.

  • STEF annast greiðslu á fjármagnstekjuskatti af útgreiddum tekjum til höfunda og er skatturinn forskráður sem greiddur á skattframtali. Þegar höfundur hefur fengið greitt frá STEFi, þá er þannig búið að draga frá 22% fjármagnstekjuskatt og höfundur þarf því ekki að aðhafast frekar vegna þessa.
  • STEF annast það fyrir hönd höfunda, að afla skattskylduvottorða (e. certificate of residence) til að komast hjá mögulegri tvískattlagningu í upprunalandi höfundaréttartekna í þeim ríkjum sem Ísland hefur tvísköttunarsamninga við. Sérstakar staðfestingar á lögheimili höfunda eru gefnar út til handa höfundaréttarsamtökum í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og víðar til að koma í veg fyrir tvísköttun tekna frá þessum löndum. Sé höfundur EKKI meðlimur í STEFi (heldur meðlimur í erlendum höfundaréttarsamtökum), en engu að síður búsettur á Íslandi, þá þarf höfundurinn sjálfur að sjá um allt það sem viðkemur skattgreiðslunni og þarf því sjálfur að afla skattskylduvottorðs, telja tekjurnar fram á framtali og greiða fjármagnstekjuskatt allt að ári eftir að þeirra hefur verið aflað.
  • Hafi skattur verið dreginn af tekjunum erlendis, þá þarf viðkomandi að óska sérstaklega eftir frádrætti hér á landi, sem samsvarar þeim skatti sem greiða hefði átt af tekjunum hér á landi (eða sem samsvarar þá 22% fjármagnstekjuskatti). Hafi höfundurinn engu að síður greitt hærri skatt erlendis en hann hefði greitt hér á landi (hefði hann verið meðlimur í STEFi), þá þarf hann sjálfur að hafa samband við hin erlendu skattyfirvöld og óska eftir endurgreiðslu á mismuninum (í þeim löndum sem Ísland hefur tvísköttunarsamning við).
  • Til viðbótar er líklegt að haldið sé eftir skatti í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og víðar þegar höfundaréttartekjur eru greiddar frá þessum löndum til erlendra höfundaréttarsamtaka, vegna meðlima þeirra sem búsettir eru hérlendis, en ekki í sama landi og viðkomandi samtök. Í þessum tilvikum er því fyrst búið að draga frá fullan launaskatt í viðkomandi löndum, áður en fjármunir eru sendir til þeirra erlendu höfundaréttarsamtaka sem viðkomandi er meðlimur í – og þar er síðan aftur haldið eftir fullum launaskatti, sbr. það sem fram kemur hér að ofan. Til að fá þennan skatt endurgreiddan þarf þá til viðbótar samskipti við skattyfirvöld í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og víðar.

Um höfundaréttartekjur og rekstrarfélög

STEFi ber ekki að að draga fjármagnstekjuskatt frá þeim höfundum sem framselt hafa fjárhagslegan hluta höfundaréttar síns til rekstrarfélags í þeirra eigu eða annarra. Þær úthlutanir renna því óskertar frá STEFi til viðkomandi félaga, sem síðan eru skattlögð skv. reglum sem gilda um viðkomandi félagaform.

Hins vegar er ljóst að það er eingöngu í undantekningartilvikum sem slíkt fyrirkomulag borgar sig, þar sem sérfræðingar hafa bent á að frádráttarbær kostnaður þurfi að vera um og yfir 40% af rekstrartekjum viðkomandi félags svo að sú leið feli í sér ávinning umfram það að þiggja tekjurnar sem einstaklingur utan rekstrar.

Um verktakayfirlýsingar

Með lagabreytingunni missa verktakayfirlýsingar (sem sumir höfundar gáfu áður út) gildi sitt, því sem fyrr segir flokkast höfundarréttartekjur eftirleiðis sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar. Af þeim sökum falla verktakayfirlýsingar í raun sjálfkrafa úr gildi, enda fylgir þeim ekki hagræði eftir breytingarnar.

Erfingjar

Ef einn erfingi tekur við höfundaréttargreiðslum fyrir hönd fleiri erfingja en sjálfs síns, verða tekjurnar forskráðar á hans/hennar skattframtal, sem og hinn greiddi fjármagnsskattur.

Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á að skoða lög 111/2019 á vef Alþingis (smella hér), sem og viðkomandi reglugerð (smella hér).

Um fæðingarorlof og höfundaréttartekjur

Athygli er vakin á því að höfundaréttartekjur frá STEFi koma ekki til útreiknings á viðmiðunartímabili sem veitir rétt til fæðingarorlofs frá fæðingarorlofssjóði. Ekki er greitt tryggingagjald af greiðslum frá STEFi, en þær skattlagðar sem fjármagnstekjur og teljast því til fjármagnstekna (sbr. það sem fram kemur hér að ofan). Falla þessar tekjur því ekki undir skilgreiningu á launum samkvæmt reglum Fæðingarorlofssjóðs. Að sama skapi koma greiðslur frá STEFi, á því tímabili sem viðkomandi er skráður í fæðingarorlof, ekki til frádráttar greiðslum úr fæðingarorlofssjóði eða skerða þær.

Þess ber þó að geta, að tónlistarfólk sem starfar sjálfstætt í eigin rekstri getur látið greiðslur frá STEFi renna inn í viðkomandi rekstur. Sé haldið utan um reksturinn í sjálfstæðu félagi, þá greiðir félagið ekki fjármagnstekjuskatt, heldur tekjuskatt eftir því um hvaða félagaform er að ræða (sbr. það sem fram kemur hér að ofan). Tónlistarfólk sem starfar sjálfstætt í eigin rekstri þarf síðan að reikna sér endurgjald (laun) samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra. Þau laun eru þá hluti af útreikningi fæðingarorlofs.

Hér er upptaka af fræðslufundi um skattamál (21. nóv. 2023)

Scroll to Top