Notkun gervigreindar í tónlist, ekki síst á sviði tónsmíða, hefur vakið upp krefjandi spurningar og efasemdir um lögmæti, enda styðjast gervigreindarmódel við höfundavarið efni í þróun og framleiðslu, nokkuð sem kallað hefur verið „spunagreind“ (e: generative AI).
Eðlilega hafa höfundaréttarsamtök hvervetna látið sig þetta varða, því segja má að þessi þróun sé að verða helsta áskorun tón- og textahöfunda – og í raun tónlistarbransans í heild.
Enginn vafi leikur á því að framfarir á sviði gervigreindar byggja á höfundavörðu efni, því til þess að þjálfun gervigreindar skili árangri, skiptir aðgengi að stórum og fjölbreyttum gagnasöfnum höfuðmáli. Gagnasöfnin eru einfaldlega áður útgefin og höfundaréttarvarin tónlist, sem byggt er á til að læra og skilja flókin mynstur.
Höfundaréttarsamtök á Norðurlöndunum hafa nú komið sér saman um meginreglur varðandi leyfisveitingar fyrir gervigreindarfyrirtæki sem bjóða uppá þjónustu er byggir á spunagreind. Koma þar fram skýrar væntingar um að viðskipti slíkra fyrirtækja skuli taka mið af réttindum höfunda hugverkanna sem eru undirstaða framleiðslunnar.
Í sameininlegri yfirlýsingu segir:
„Fyrirtæki sem byggja á gervigreind verða að virða réttindi höfunda, starfa með gagnsæjum hætti og gera leyfissamninga við rétthafa. Norrænu samtökin leitast við að vera í fararbroddi við að móta sameiginlega afstöðu til leyfisveitinga fyrir slík fyrirtæki, með það að markmiði að byggja upp ábyrgt, sjálfbært og skapandi hagkerfi.
Þessi fyrirtæki reiða sig á höfundarréttarvarða tónlist til að þjálfa og framleiða efni, sem keppir beinlínis við hina manngerðu tónlist. Eins og með aðra notkun á höfundarréttarvarinni tónlist, þá verða framleiðeindur að gera leyfissamninga við tilheyrandi samtök rétthafa, sem tryggja sanngjarna þóknun þeim til handa.“
Hina sameiginlegu stefnu norrænu höfundaréttarsamtakanna má lesa með því að smella hér.