Breytingar á samþykktum varðandi aðild að STEFi

Á aðalfundi 23. maí voru gerðar breytingar á samþykktum STEFs, sem lúta að því hverjir geti orðið meðlimir. Áður gátu aðeins höfundar talist meðlimir og verið kjörgengir til stjórnarstarfa.

Nú er skilgreiningin víðtækari, þannig að útsetjarar og aðrir sem eiga hlutdeild í verki sem fær úthlutun, geta orðið meðlmir, sem og erfingjar þeirra. Einnig geta tónlistarforleggjarar (e. music publishers) nú gerst meðlimir, en fyrirbærið „tónlistarforleggjari“ er í samþykktunum skilgreint sem svo, að átt er við lögaðila sem gert hafi forleggjarasamning við höfund.

Þá var bætt við ákvæði um að við framsal hluta höfundaréttar til forleggjara skuli atkvæðaréttur þeirra skiptast í hlutfalli við úthlutun höfundaréttartekna milli þeirra, m.ö.o. að atkvæðisréttur höfundar færist aðeins að hluta til forleggjara.

Um leið var skýrt betur hvaða reglur gilda um framboð forleggjara til fulltrúaráðs og stjórnar. Ber forleggjara sem tilkynnir framboð að tilkynna um leið hvaða einstaklingur muni taka sæti fyrir hönd fyrirtækisins.

Tekið er fram að sami einstaklingur geti ekki bæði verið í framboði sem höfundur og forleggjari. Einnig var sett skýrari regla um framboð erfingja, sem þurfi að tilkynna að hann/hún sé í framboði sem fulltrúi erfingja tiltekins höfundar.

Ákvæði um framboð og atkvæðavægi eru óbreytt og gilda því sömu reglur um framboð forleggjara og annarra. Jafnframt gildir sama hámark atkvæðafjölda gagnvart forleggjurum og höfundum. Forleggjarar geta því ekki safnað atkvæðum með samningum nema upp að því hámarki sem samþykktir segja til um.

Á fundinum kom skýrt fram að forleggjarar eru velkomnir sem meðlimir, að þeir gegni þörfu hlutverki innan tónlistargeirans og þekking slíkra geti reynst mikilvæg inn í stjórnarstörf, enda forleggjarar mikilvægir höfundum til að vinna þeim framgang og auka tekjur þeirra.

Fundurinn taldi hins vegar ekki rétt að tónlistarforleggjarar hlytu sjálfkrafa aðild í fulltrúaráði eða stjórn, því þeir væru í raun að stíga sín fyrstu skref hérlendis og færu á þessu stigi með mjög lítil réttindi. En þegar hlutdeild þeirra í úthlutunum ykist, og þar með hagsmunir, þá væri ekki ólíklegt að það yrði endurskoðað.

Scroll to Top