— Veitingastaðir —
Tónlist skapar góða stemningu og eykur viðskipti
Veitingastaðir
Hvort sem tónlistin er notuð til að skapa þægilegt andrúmsloft á hóteli, veitingastað, diskóteki, krá eða á stað, þar sem leikin er lifandi tónlist, er hún mikilvægur þáttur í að afla stöðunum tekna.
Tónlistin laðar að
Tónlist er samin af einum eða fleiri höfundum, sem með vísan til höfundalaga geta litið á verk sín sem einkaeign, sem enginn má nota opinberlega nema að veittu leyfi.
Það er mikilvægt að fá heimild frá STEFi áður en gestum er boðið upp á tónlist. Ef tónlist er flutt án heimildar, þá er það brot á höfundalögum, sem getur haft í för með sér aukakostnað og óþægindi.
Ef veitingahús eða hótel er með útvarps- eða sjónvarpstæki í gangi á stöðum sem almenningur hefur aðgang að, þá telst vera um opinberan tónflutning að ræða og sækja þarf um leyfi til þess.
Eigendur veitingahúsa, sem standa fyrir opinberum flutningi tónlistar í tengslum við reksturinn, eru ábyrgir og skyldugir til að afla leyfis frá STEFi. Leyfið gildir þó aðeins fyrir þær aðstæður sem gefnar eru upp um daglegan rekstur.
Þegar félög, stofnanir og aðrir aðilar halda dansleiki eða veislur í salarkynnunum, þurfa viðkomandi sömuleiðis að afla leyfis hjá STEFi og greiða til STEFs samkvæmt gildandi verðskrá hverju sinni.
ATHUGIÐ: STEF áskilur sér rétt til að skrásetja alla þá lögaðila eða einstaklinga er teljast leyfishafar (rekstraraðilar) á veitingastöðum, samkvæmt leyfisbréfi frá Sýslumanni, ef tónlist er flutt opinberlega í viðkomandi starfsemi.
Ef leyfishafar svara í engu beiðni um upplýsingar vegna notkunar á tónlist og umfangi starfseminnar, þá reiknast 12.000 kr. álag á fyrsta reikning.
Ef í ljós kemur að leyfishafi, sem segist ekki flytja tónlist opinberlega í starfsemi sinni, en er engu að síður að nota tónlist, þá reiknast 50% álag á fyrsta reikning. Verður þá innheimt leyfisgjald frá og með þeim tíma sem í ljós kom að tónlist var sannarlega notuð.
Algengar spurningar og svör:
Flutningur tónlistar telst vera opinber ef hann fer fram á stað sem almenningur hefur aðgang að. Ekki skiptir máli hvaðan tónlistin kemur; hvort hún er spiluð af plötuspilara, henni streymt úr snjalltæki, hún spiluð af hljóðfæraleikurum á staðnum eða kveikt er á útvarpi.
STEF lætur sig ekki varða með hvaða hætti það er gert, heldur aðeins hvort tónlist hljómi í viðkomandi rými. Það er sérstaklega tekið fram í greinargerð með höfundalögum að spilun tónlistar úr útvarpi teljist vera sjálfstæður opinber flutningur og því þarf að greiða fyrir notkun tónlistar á þann hátt eins og á annan hátt.
Það, hvernig eða hvaðan tónlistin kemur, er aukaatriði. Aðalatriðið er að ef tónlist hljómar í opinberu rými, þá ber að afla leyfis hjá STEFi, sem síðan greiðir rétthöfum fyrir notkunina.
Til eru ýmsar leiðir til að útvega tónlist til spilunar í atvinnurekstri og ein er sú að nota lagalista í gegnum „app“. En eins og fram kemur hér að ofan, þá gildir einu hvaðan eða hvernig tónlistin er flutt, ávallt ber að greiða rétthöfum fyrir notkun.
Þess má geta, að nokkur fyrirtæki eru sérhæfð í því að aðstoða fyrirtæki við að velja tónlist fyrir viðkomandi markhóp og bjóða mismunandi lausnir. Tvö slík starfa sérstaklega á Íslandi; ATMO Select og Megafone og hafa þau sérstakan samning þar að lútandi við STEF.
Spotify selur aðgang að stórum gagnabanka tónlistar og fjölda lagalista, sem þegar eru til staðar eða notandi getur útbúið sjálfur. Aftur á móti miða notkunarskilmálar Spotify einungis við einkanot, en ekki opinberan flutning. Það er því í raun óheimilt að nýta Spotify-aðgang einstaklings í verslunarrekstri fyrir viðskiptavini. Í einstaka löndum hefur Spotify þó markaðssett sérstakt leyfi til fyrirtækja, m.a. í gegnum dótturfyrirtækið Soundtrack Your Brand.
Vert er þó að geta þess, að STEF hefur fram til þessa ekki skipt sér að því hvernig tónlist er flutt í opinberum rýmum (þ.m.t. hvort það er í gegnum einstaklingsaðgang að Spotify), svo fremi sem viðkomandi rekstraraðili hafi aflað sér leyfis hjá STEFi fyrir opinberum flutningi.
Reiknivél fyrir veitingastaði
Mánaðarleg greiðsla fyrir afnot af tónlist (skv. verðskrá í janúar 2025)