Vindur í seglum
Alls bárust 38 umsóknir um þátttöku í verkefnið „Vindur í seglum“ árið 2022. Jafnréttisnefnd STEFs valdi eftirfarandi þrjá þátttakendur:
Guðrún Ólafsdóttir
Guðrún Ólafsdóttir er 25 ára lagahöfundur og tónlistarkona. Til viðbótar við píanónám frá unga aldri hef hún samið eigin tónlist í yfir áratug, stofnað og leikið í ýmsum hljómsveitum, síðast í tríóinu Náttsól, sem m.a. vann söngkeppni framhaldsskólanna árið 2016 og gaf út plötu nokkru síðar. Um þessar mundir vinnur Guðrún hörðum höndum að „concept“-plötu sem ber vinnuheitið Gleym mér ei og mun innihalda lög við gamlar perlur íslenskrar ljóðlistar. Þeim hefur Guðrún gefið nýtt líf og skreytt, eins og alla sína tónlist, með söng í röddum og breiðum harmóníum.
Kristrún Steingrímsdóttir
Kristrún Steingrímsdóttir, söngkona og lagahöfundur úr Ásahreppi, hefur verið umvafin tónlist frá blautu barnsbeini, en móðir hennar er tónlistarkennri, söngkona og kórstjóri. Kristrún flutti til Liverpool fyrir sjö árum og stundaði nám við The Liverpool Institute for Performing Arts. Þaðan útskrifaðist hún árið 2019 með BA gráðu í tónlist, með áherslu á lagasmíðar og flutning/sviðsframkomu.
„Þegar ég sem tónlist, fer ég algjörlega eftir eyranu, geri tilraunir með andstæður, hlýju raddarinnar á móti köldum og harðneskjulegum synthum. Þegar það sem ég heyri vekur upp tilfinningar fæ ég innblástur af texta. Ætli tónlistin mín sé ekki mestmegnis byggð á hreinni dramantík“, segir Kristrún.
Markmið hennar er að gefa út tónlist á árangursríkan hátt, ná til sem flestra og á þann veg að hún geti orðið sjálfbær tónlistarkona. Kristrún hefur mikinn áhuga á markaðsfræðinni á bak við útgáfu tónlistar og langar tað kynnast helstu aðferðunum að baki árangursríkrar markaðsherferðar.
Hún hefur þegar gefið út fjögur lög með ágætum árangri og spilað á nokkrum tónleikum sl. ár. „Ég er með sex lög tilbúin, en mig vantar innsýn og hjálp við að klára pródúseringar og hljóðblöndun. Ég er að vinna að plötu, hvort sem það verður smá- eða breiðskífa verður að koma í ljós. Að fá tækifæri til að vinna með atvinnutónlistarfólki sem hefur náð miklum árangri eru forréttindi“, segir Kristrún.
Sigga Ózk
Sigga Ózk er söngkona sem hefur verið að mjaka sér áfram í bransanum í nokkur ár. Hún hefur gefið út þrjú stök lög og eina plötu, sem hún vann með föður sínum á covid-tímanum. Sigga Ózk hefur komið fram á hinum ýmsu hátíðum á undanförnum mánuðum, t.a.m. Kótelettunni, Unglingalandsmótinu, Októberfest, Í túninu heima, auk þess sem hún hefur troðið upp á ýmsum minni stöðum.
„Ég hef lagt mikið uppúr því að læra að gera hlutina sjálf og þekkja mín réttindi á verkefnunum sem ég hef verið að gera. Nú sé ég að mig vantar ákveðið teymi í kringum mig, sem getur hjálpað mér að vaxa og verða að enn betri og stærri listamanni. Mín stefna er að upphífa „gellur“ í samfélaginu, að gellu-væða soldið bransann með því sem ég kýs að kalla „gellu take-over“. Ég sagði eitt sinn í útvarpsviðtali, að allir gætu fundið gelluna í sjálfum sér, þegar ég var spurð hvort strákar mættu ekki vera með í gellu take-over-inu — og það er akkúrat málið, því ég vil að við verðum öll meiri heild og vinir. Þá þurfum við stelpurnar líka að stíga fram, en ekki bíða eftir að tækifærin detti upp í hendur á okkur“, segir Sigga Ózk.
„Ég ætla að gefa út algjöra gellu-bombu í sumar, bæði ný lög og cover-lög í nýrri mynd. Ég vil að gellur á Íslandi hlusti á mína tónlist, hvort sem það er heima í stofunni eða á barnum, og lyftast smá upp af stolti. Ég vil að þær hugsi: „Ef hún getur þetta, þá get ég þetta“. Ég hef alltaf hugsað svona og þótt það hafi bara verið 24 hlustendur á dag, þá veit ég að þetta eru einhverjar manneskjur sem þurfa smá pepp og setja þ.a.l. mína tónlist í gang!“
Um verkefnið „Vindur í seglum“
Að tillögu Jafnréttisnefndar STEFs var staðið fyrir tilraunaverkefni árið 2020, n.k. „mentor-prógrammi“, undir heitinu „Vindur í seglum“. Ætlunin var að styðja og aðstoða kvenhöfunda og kynsegin fólk við að fóta sig í bransanum og koma verkum á framfæri, í von um að vinna á kynjahalla innan tónlistargeirans. Markmiðið var að þátttakendur öðluðust kunnáttu til að skila frá sér vel unnum verkum og koma þeim á framfæri. Verkefnið þótti lukkast vel og ákveðið var að endurtaka það árið 2022.
Hvernig virkar þetta?
- Þátttakendur velja sér einn og upp í þrjá leiðbeinendur af framlögðum lista, eftir því sem þeir telja henta sínu verkefni. Þátttakendur geta einnig stungið upp á öðrum en þeim sem eru á listanum og verður þá athugað hvort það gangi upp.
- Allar tónlistarstefnur koma til greina.
- Þátttakendur geta t.a.m. óskað eftir aðstoð leiðbenanda við viðskipta- eða markaðshlið verkefna, en einnig varðandi sköpunina, jafnvel samið saman tónlist.
- Hver þátttakandi hlýtur 200.000 kr. styrk til að vinna að sínu verkefni.
- Leiðbeinendur fá greitt fyrir þátttökuna og skila inn tímaskýrslum til staðfestingar.
- Verkefnið hefst haustið 2022 og lýkur vorið 2023.
- Á tímabilinu hittir hver þátttakandi leiðbeinanda sinn (eða leiðbeinendur) sex sinnum skv. skipulagi þeirra í milli.
- Á tímabilinu hittast þátttakendur tvisvar til þrisvar sinnum, þar sem farið verður yfir gang verkefnanna, auk þess sem þeir fá fræðslu um starfsemi STEFs.
- Þátttakendur fá einnig fund með Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) á tímabilinu.
- Verkefninu lýkur með því að þátttakendur og leiðbeinendur kynna verkefni sín fyrir Jafnréttisnefnd STEFs og vel völdum gestum og ræða um árangur verkefnisins.