Aðalúthlutun hefur nú að fullu farið fram. Hún tekur til opinbers flutnings innanlands. Í ár nam hún samtals 238,1 milljón, en hluti var greiddur út í júní (67 milljónir) í sk. Miðsumarsúthlutun, sem er í raun innborgun á Aðalúthlutun.
Þetta er talsverð hækkun frá því í fyrra, þegar Aðalúthlutun var alls 198,7 milljónir. Hækkunina má einkum rekja til aukinna tekna af bakgrunnstónlist á árinu 2021 (miðað við 2020), en viðsnúningur varð í verslunar- og veitingarekstri eftir heimsfaraldurinn.
Breyting á úthlutun vegna bakgrunnstónlistar
Breyting hefur orðið á úthlutun tekna af bakgrunnstónlist, í samræmi við nýjar úthlutunarreglur STEFs og ákvörðun stjórnar. Í þeim tilvikum sem ekki liggja fyrir skýrslur um flutning, þá er 40% fjárhæðarinnar úthlutað miðað við almennt streymi ársins á undan (Spotify o.fl.), 40% er úthlutað miðað við fyrirliggjandi lagalista fyrirtækjastreymis (e. B2B) og 20% í samræmi við útvarpsflutning.
Áður var tekjum af bakgrunnstónlist að langmestu úthlutað miðað við útvarpsflutning, þ.e.a.s. bætt hlutfallslega ofan á eiginlegar útvarpstekjur.
„Sérstökum“ úthlutunum fækkar
Þar sem nú er talið að bakgrunnstekjur úthlutist með eðlilegri hætti en áður, þá ákvað stjórn að í ár yrði í síðasta skipti úthlutað sérstaklega samkvæmt ákvörðunum nefnda um „sígræn verk“ og um „dansleiki, mannfagnaði, bakgrunnstónlist og SPA“ (DMB). Þessar nefndir verða nú lagðar af. —Áfram geta höfundar þó tilkynnt STEFi ef þeir telja að verk þeirra séu flutt í bakgrunni og að ofangreind viðmið eigi illa við um þann flutning.
Nú var einnig í síðasta skipti úthlutað samkvæmt flokkunarkerfi STEFs, sem gaf verkum mismunandi vægi, en eins og kynnt hefur verið, þá hefur þetta kerfi verið lagt af. Samhliða þeirri ákvörðun var hins vegar stofnaður „Stórverkasjóður“, en hægt er að kynna sér reglur hans hér.
Skilagreinar vegna úthlutana er að finna á „Mínum síðum“.
Um úthlutanir ársins 2022
STEF úthlutar 12 sinnum á ári hverju. Þar af eru tvær úthlutanir fyrir tónleikaflutning innanlands og námu þær samtals um kr. 23,6 milljónum í ár. Það er gífurleg breyting frá því í fyrra, þegar einungis var úthlutað um 7,7 milljónum vegna tónleika. Tónleikaúthlutanir hafa þó ekki enn náð því hámarki sem var á árinu 2019. Vonir eru þó bundnar við að ná því marki á næsta ári, sem verður þá fyrsta eðlilega tónleikaárið eftir heimsfaraldurinn.
Á árinu hefur um 90 milljónum verið úthlutað fyrir flutning verka erlendis, sem er nokkuð lægri fjárhæð en í fyrra, en að miklu leyti er um að kenna minni tekjum vegna tónleika erlendis, sem orsakast af samkomu- og ferðatakmörkunum á árinu 2021. Þá hafa tekjur frá okkar erlendu systursamtökum skilað sér misjafnlega í ár, en eftir síðustu erlendu úthlutun ársins bárust loks uppsafnaðar tekjur nokkurra ára, m.a. frá Þýskalandi, Spáni og Ítalíu, sem mun verða úthlutað snemma næsta árs.
Að lokum er vert að nefna að úthlutun vegna streymis frá NMP og eintakagerðar frá NCB nám á árinu samtals 76,6 milljónum, en fjórða og síðasta NMP/NCB úthlutun ársins verður fyrir jól. Þetta er hækkun frá fyrra ári, þegar NMP/NCB úthlutanir voru samtals 68 milljónir.
Ofan á þetta allt leggst síðan úthlutun STEFs til erlendra rétthafa, en hún er um 158 milljónir í ár, en var um 137 milljónir í fyrra. Nánari fróðleik um úthlutanir STEFs er að finna hér.