Nýleg greining á meðlimaskrá STEFs sýnir að hlutfall kvenna hefur mjakast upp á við á undanförnum árum. Árið 2012 voru um 17,6% höfunda konur, en tíu árum síðar var hlutfallið komið 20,1%.
Hlutfall kvenna sem fær eitthvað úthlutað hefur einnig aukist nokkuð að undanförnu, árið 2019 voru 17,7% konur, en 19,09% árið 2022. Hins vegar stendur nánast í stað hlutfall kvenna af heildarúthlutun, en það var 10,88% á árinu 2022, en 10,47% á árinu 2021. Til viðmiðunar var það 10,65% árið 2012.
Á árinu 2022 voru nýskráðir meðlimir 281, af þeim voru 203 karlar, 77 konur og 1 kynsegin. Þannig að 28% nýrra meðlima voru konur (og kynsegin). Kynjahlutfallið meðal nýrra meðlima er því mun betra en þegar skoðaðir eru allir höfundar á skrá hjá STEFi allt frá stofnun samtakanna.
Geta má þess, að á árinu 2022 fengu 132 höfundar úthlutað meira en 1 milljón króna. Af þeim voru einungis 8 konur, og eru konur því 6% þeirra meðlima sem þéna mest.
STEF hefur með ýmsu móti unnið að því að jafna þetta hlutfall, s.s. með „mentor“-verkefni fyrir konur sem eru að stíga sín fyrstu skref, með þátttöku í hinu alþjóðlega „Keychange“-verkefni, einnig sem á vegum STEFs er starfandi jafnréttisnefnd, sem skoðar markvisst þessi mál. Allar hugmyndir um hvernig STEF getur beitt sér betur að þessu leyti eru vel þegnar.