Fulltrúaráð
Kosningar 2024
Kynning á frambjóðendum til setu í fulltrúaráði 2024-2026
Aðalsteinn Ásberg
Sigurðsson
hefur sinnt skáldskap og tónlist jöfnum höndum og víða komið við. Hann hefur ennfremur umfangsmikla reynslu af félagsstörfum og var framkvæmdastjóri FTT í tíu ár. Eftir það settist hann í formannsstól Rithöfundasambands Íslands og gegndi því starfi í átta ár. Því næst tók við seta í stjórn FTT og ennfremur í stjórn STEFs um árabil, en auk þess hefur hann verið formaður fulltrúaráðs STEFs með reglulegu millibili frá árinu 1998 og til dagsins í dag.
Fyrsta ljóðabók Aðalsteins kom út 1977. Síðan hefur hann m.a. sent frá sér 20 ljóðabækur, frumsamdar og þýddar, og á annan tug barnabóka af ýmsum toga. Á sviði tónlistar ber hæst hina sívinsælu barnatónlist hans, en auk þess vísnatónlist, söngva frá Norðurlöndum og söngljóð við jazz- og kórtónlist Sigurðar Flosasonar. Í gegnum tíðina hefur hann átt gjöfult samstarf við fjölmarga tónlistarmenn og útgefin verk hans á þeim vettvangi eru á þriðja hundrað talsins. Aðalsteinn Ásberg hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og þau verið þýdd og gefin út á meira en tug erlendra tungumála.
Fyrir utan að vera afkastamikill starfandi listamaður hefur hann allt frá árinu 1992 rekið hið útgáfufyrirtækið Dimmu, sem gefur út bókmenntir og tónlist.
Aðildarfélag: FTT
Um kosningar til fulltrúaráðs (samandregið úr samþykktum STEFs)
Skipan fullrúaráðs
Fulltúaráð er æðsta stofnun STEFs, kjörið af almennum félagsmönnum til tveggja ára í senn. Það fundar að jafnaði tvisvar á ári. Ráðið er skipað 21 fulltrúa. Formenn aðildarfélaga STEFs (Tónskáldafélags Íslands og Félags tónskálda & textahöfunda) eru sjálfkjörnir, en 19 fulltrúar kjörnir í kosningu sem fram fer annað hvert ár. Skulu hið minnsta fimm kjörnir fulltrúar koma úr hvoru aðildarfélagi og fimm hið minnsta úr hópi rétthafa utan félaga.
Hverjir geta boðið sig fram?
Þeir höfundar og aðrir rétthafar sem gert hafa aðildarsamning við STEF hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir í fulltrúaráðið, hafi þeir fengið úthlutað að lágmarki samtals 125.000 kr. á undangengnum þremur árum (þ.e. 2021–2023).
Nánar má kynna sér reglur um kosningar til fulltrúaráðs í samþykktum STEFs (sjá 5. kafla, bls. 8).