Vindur í seglum 2024

Á þriðja tug umsókna bárust.
Jafnréttisnefnd valdi eftirfarandi þrjá þátttakendur:

Helga Rún Guðmundsdóttir

Helga Rún notast við listamannsnafnið HáRún. Hún flokkar sig sem „indí-popp söngvaskáld sem syngur eigin lög á íslensku þar sem kassagítar er í lykilhlutverki“. Hún sækir innblástur frá náttúrunni, íslenskum textum og daglegu lífi. Helga Rún komst í úrslit Músíktilrauna 2022, en undanfarið hefur hún komið fram með eigið efni ásamt ýmsum hljómsveitum í grasrótartónlistarsenunni.

Malen Áskelsdóttir

Malen hefur sungið og komið fram frá barnsaldri, en eftir söngnám í Kaupmannahöfn 2019 hóf hún að semja eigin tónlist. Hún hefur sent frá sér nokkurt efni undanfarin misseri; EP-platan „Back Home“ kom út 2023 og lagið „anywhere“ á þessu ári, en nýlega komst það á topp Vinsældarlista Rásar 2. Samhliða eigin útgáfu hefur Malen einnig samið lög fyrir aðra.

Anna Róshildur

Róshildur vefur saman hljóðfæraleik, marglaga raddútsetningum og hljóðgervlum. Til verður svífandi rafpopp, fullt af nánd, djúpum hljóðheimi og íslenskum textum sem einkennast af einlægni og húmor í bland. Róshildur er bæði flytjandi og tón- og taktsmiður tónlistarinnar, en nú vinnur hún að sinni fyrstu breiðskífu.

Um verkefnið „Vindur í seglum“

Að tillögu Jafnréttisnefndar STEFs var staðið fyrir tilraunaverkefni árið 2020, n.k. „mentor-prógrammi“, undir heitinu „Vindur í seglum“. Ætlunin var að styðja og aðstoða kvenhöfunda og kynsegin fólk við að fóta sig í bransanum og koma verkum á framfæri, í von um að vinna á kynjahalla innan tónlistargeirans. Markmiðið var að þátttakendur öðluðust kunnáttu til að skila frá sér vel unnum verkum og koma þeim á framfæri. Verkefnið þótti lukkast vel og ákveðið var að endurtaka það árið 2022 og síðan 2024.

Hvernig virkar þetta? 

  • Þátttakendur velja sér einn og upp í þrjá leiðbeinendur af framlögðum lista (sjá hér neðst), eftir því sem þeir telja henta sínu verkefni. Þátttakendur geta einnig stungið upp á öðrum en þeim sem eru á listanum og verður þá athugað hvort það gangi upp.
  • Athygli er vakin á því að allar tónlistarstefnur koma til greina.
  • Þátttakendur geta t.a.m. óskað eftir aðstoð leiðbeinanda við viðskipta- eða markaðshlið verkefna, en einnig varðandi sköpunina, jafnvel samið saman tónlist.
  • Hver þátttakandi hlýtur 200.000 kr. styrk til að vinna að sínu verkefni.
  • Tamara Gal-On, listmarkþjálfi, veitir hverjum þátttakanda leiðsögn í tvö skipti.
  • Verkefnið hefst haustið 2024 og lýkur vorið 2025.
  • Á tímabilinu hittir hver þátttakandi leiðbeinanda sinn (eða leiðbeinendur) sex sinnum skv. skipulagi þeirra í milli.
  • Á tímabilinu hittast þátttakendur tvisvar til þrisvar sinnum, þar sem farið verður yfir gang verkefnanna, auk þess sem þeir fá fræðslu um starfsemi STEFs.
  • Þátttakendur fá einnig kynningarfund með Tónlistarmiðstöð á tímabilinu.
  • Verkefninu lýkur með því að þátttakendur og leiðbeinendur kynna verkefni sín fyrir Jafnréttisnefnd STEFs og vel völdum gestum og ræða um árangur verkefnisins.
Scroll to Top