Fulltrúaráð
Kosningar 2024

Kynning á frambjóðendum til setu í fulltrúaráði 2024-2026

Frambjóðendur (í stafrófsröð)
Smellið fyrir stærri mynd

Aðalsteinn Ásberg
Sigurðsson
Adalsteinn-Mynd-400p-Transp-Rounded

hefur sinnt skáldskap og tónlist jöfnum höndum og víða komið við. Hann hefur ennfremur umfangsmikla reynslu af félagsstörfum og var framkvæmdastjóri FTT í tíu ár. Eftir það settist hann í formannsstól Rithöfundasambands Íslands og gegndi því starfi í átta ár. Því næst tók við seta í stjórn FTT og ennfremur í stjórn STEFs um árabil, en auk þess hefur hann verið formaður fulltrúaráðs STEFs með reglulegu millibili frá árinu 1998 og til dagsins í dag.

Fyrsta ljóðabók Aðalsteins kom út 1977. Síðan hefur hann m.a. sent frá sér 20 ljóðabækur, frumsamdar og þýddar, og á annan tug barnabóka af ýmsum toga. Á sviði tónlistar ber hæst hina sívinsælu barnatónlist hans, en auk þess vísnatónlist, söngva frá Norðurlöndum og söngljóð við jazz- og kórtónlist Sigurðar Flosasonar. Í gegnum tíðina hefur hann átt gjöfult samstarf við fjölmarga tónlistarmenn og útgefin verk hans á þeim vettvangi eru á þriðja hundrað talsins. Aðalsteinn Ásberg hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og þau verið þýdd og gefin út á meira en tug erlendra tungumála.

Fyrir utan að vera afkastamikill starfandi listamaður hefur hann allt frá árinu 1992 rekið hið útgáfufyrirtækið Dimmu, sem gefur út bókmenntir og tónlist.

Aðildarfélag: FTT

Áskell
Másson

Áskell Másson hefur um langt árabil verið meðal þekktustu og afkastamestu tónskálda þjóðarinnar. Verkalisti hans telur hátt á þriðja hundrað tónverk, mörg í afar stóru formi. Tónverk hans hafa verið flutt um allan heim af mörgum þekktustu og virtustu sinfóníuhljómsveitum, hljómsveitarstjórum, einleikurum og kammersveitum veraldar. Mörg tónverka hans eru notuð til kennslu í tónlistarháskólum og eru skylduverkefni í alþjóðlegum keppnum í hljóðfæraleik.

Yfir 60 tónverka hans eru gefin út á prenti hjá svissnesku útgáfunni Editions BIM og um 200 þeirra eru hjá Íslenskri tónverkamiðstöð. Um 30 geisladiskar og hljómplötur hafa komið út sem innihalda tónverk Áskels.

Áskell hefur verið staðartónskáld hjá Ars Nova Copenhagen og dvalist í listamannaíbúðum í Róm, London, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, á Fjóni í Danmörku og var honum einnig sýndur sérstakur virðingarvottur þegar honum var veittur aðgangur að sumarhúsi Síbelíusar í Loviisa í Finnlandi.

Á árinu 2011 var hann staðartónskáld í eitt ár á listamannasetrinu Villa Concordia í Bamberg í Þýskalandi.

Áskell hefur tvívegis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónverk ársins, 2006 og 2008 og margoft verið tilnefndur.

Nefna má, að verkalisti hans telur m.a. 19 einleikskonserta og eru þeir margir samdir fyrir mestu einleikara samtímans.

Aðildarfélag:  TÍ

Bergrún
Snæbjörnsdóttir

Tónlist Bergrúnar Snæbjörnsdóttur hefur verið flutt víðsvegar af hópum eins og International Contemporary Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitinni í Osló, Ensemble Musikfabrik, Avanti!, Nordic Affect, KNM Berlin og fleirum. Þá hafa verk hennar verið uppsett á virtum tónlistarhátíðum eins og Mostly Mozart Festival í Lincoln Center, Tectonics, Only Connect, Ultima, KLANG, ISCM World New Music Days, Sound of Stockholm, Prototype og Sequences tvíæringnum. Bergrún vinnur gjarnan á mærum ólíkra listgreina, tónlist hennar oft samofin myndlist og innsetningum en kveikjur og áhrif eru gjarnan sótt í heimspeki og náttúrufyrirbæri. Hún starfar nú sem lektor við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Aðildarfélag: TÍ

Bergur
Þórisson

Bergur Þórisson er listamaður, tónskáld og upptökustjóri búsettur á Íslandi. Undanfarin ár hefur hann starfað sem tónlistarstjóri Bjarkar á margverðlaunuðu tónleikaferðalagi hennar Cornucopia en einnig hefur hann hljóðritað síðustu tvær plötur hennar og fengið Grammy-tilnefningar fyrir vinnu sína á þeim báðum.

Meðfram því hefur hann hljóðritað og unnið við gerð fjölda platna með hinum ýmsu listamönnum, innlendum og erlendum. Bergur er einnig annar helmingur dúettsins Huga sem hefur gefið út fjölda platna undir merkjum Sony Classical og flutt tónlist sína víða um heim.

Utan félaga

Björgvin
Halldórsson

Ég býð nú sem oft áður fram krafta mína í þágu kollega minna, með það fyrir augum að vinna að framfaramálum fyrir okkar frábæru höfunda.

Aðildarfélag:  FTT

Edda Borg
Ólafsdóttir

Edda Borg lærði á píanó hjá Ragnari H. á Ísafirði frá 6 ára aldri. Hún hóf að hafa atvinnu af tónlist 16 ára eftir að hafa flutt til Reykjavíkur. Edda var fljótlega ráðin í danshljómsveit sem Axel Einarsson var að setja saman. Eftir veru hennar þar var henni boðið í stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar á Broadway. Edda vann mikið fyrir Gunnar í hljóðveri í allskyns upptökum sem bakraddasöngkona og söng m.a. stef Rásar 2 sem spiluð voru fyrstu áratugina eftir stofnun.

Edda hefur starfrækt ýmsar hljómsveitir í gegnum tíðina og leikið um land allt. Tók þátt í undankeppnum Eurovision í fjöldamörg ár og fór tvívegis utan.

Stofnaði Tónskóla Eddu Borg haustið 1989 og hefur starfað sem kennari og skólastjóri við skólann síðan.

Edda snéri sér síðar að jazztónlist og hefur unnið að sinni eigin tónlist síðustu ár og gefið út tvær „plötur“ sem leiknar eru á útvarpsstöðvum beggja vegna atlantshafsins og fáanlegar á ýmsum streymisveitum.

Edda hefur starfað í ýmsum stjórnum og verið formaður bæði Samtökum Tónlistarskóla í Reykjavík – STÍR, svo og Samtökum Tónlistarskólastjóra á landinu – STS. Einnig starfar Edda í Stragedy and Planning Group fyrir Herbalife Nutrition á Íslandi og hefur gert síðan 2002.

Utan félaga

Eðvarð
Egilsson

Eðvarð Egilsson tónskáld hefur komið víða við á tónlistarferli sínum og skilið eftir sig marktæk spor í kvikmyndum, sjónvarpi, auglýsingum og leikhúsi auk þess að vera stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Steed Lord sem starfaði og gaf út tónlist frá Reykjavík og Los Angeles á árunum 2006-2016. Meðal kvikmynda sem Eðvarð hefur unnið tónlist fyrir er kvikmyndin Smoke Sauna Sisterhood, sem hvoru tveggja hlaut Evrópsku kvikmyndaverðlaunin 2023 sem besta heimildarmyndin og sömuleiðis leikstjóraverðlaunin á Sundance 2023.  Auk þess ber þar helst að nefna kvikmyndina Skjálfta (2022) sem og sjónvarpsþættina Líf kviknar (2018) og Líf dafnar (2021).

Eðvarð hlaut árið 2020 bakkalárgráðu í klassískum tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Páls Ragnars Pálssonar tónskálds. Áður bjó Eðvarð og starfaði í Bandaríkjunum með Steed Lord en sú reynsla reyndist Eðvarði vel og má segja að hafi mótað hann hvorutveggja sem tónlistarmann og tónskáld, en ekki síst kemur reynsla hans af upptökustjórn í hljóðverum sér vel í vinnslu hvers kyns tónlistar frá fyrstu nótum til fullkominna tónsmíða.

Framlag Eðvarðs hefur meðal annars skilað honum Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaununum árið 2024 fyrir áðurnefnda mynd, Smoke Sauna Sisterhood, en var það annað árið í röð sem Eðvarð hlaut tilnefningu til þeirra verðlauna. Einnig er hann í ár tilnefndur til Eddunnar annað árið í röð fyrir sömu kvikmynd.

Eðvarð er í dag búsettur og starfar á Seltjarnarnesi þar sem hann rekur hljóðver sitt.

Aðildarfélag: FTT

Eyþór
Gunnarsson

Eyþór Gunnarsson hefur starfað sem tónlistarmaður um áratuga skeið. Auk þess að leggja stund á píanó- og hljómborðsleik, upptökustjórn og útsetningar hefur hann samið allnokkuð af tónlist, einkum fyrir hljómsveitina Mezzoforte, þar á meðal hið sívinsæla Garden Party.

Aðildarfélag: FTT

Gunnar Andreas
Kristinsson

Gunnar Andreas Kristinsson stundaði tónsmíðanám við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1997-2001 undir leiðsögn Kjartans Ólafssonar og Atla Heimis Sveinssonar. Eftir það lá leiðin í Konunglega tónlistarháskólann í Haag þar sem hann lauk meistaragráðu í tónsmíðum árið 2004. Að námi loknu starfaði Gunnar sjálfstætt sem tónskáld í Hollandi auk þess að sækja ýmis starfstengd námskeið. Eftir að hann flutti aftur til Íslands í árslok 2009 starfaði hann í nokkur ár sem stundakennari við LHÍ en hefur á síðustu árum haft tónsmíðar að aðalstarfi. Gunnar hefur skrifað verk af ýmsum toga, allt frá einsleiksverkum til hljómsveitarverka, sem flutt hafa verið af nafnkunnum tónlistarmönnum/-hópum á tónlistarhátíðum innanlands sem utan. Verk Gunnars hafa verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og fyrsta plata hans, Patterns, hlaut Kraumsverðlaunin 2013. Önnur plata Gunnars, Moonbow, kom út hjá bandarísku útgáfunni Sono Luminus árið 2021. Platan hlaut lof gagnrýnenda víða um heim og rataði m.a. á langlista fyrir Grammy-verðlaunin. Gunnar hefur verið verið virkur í félagsstörfum á undanförnum árum og má þar helst nefna sæti í fulltúaráði STEFs 2018 – 2022, sæti í stjórn Tónverkamiðstöðvarinnar frá árinu 2014 (stjórnarformaður frá árinu 2018) og síðast en ekki síst sæti í stjórn Baklands Listaháskóla Íslands frá árinu 2022.

Aðildarfélag: TÍ

Hafdís
Bjarnadóttir

Ég er rafgítarleikari og tónskáld með bakgrunn í rokki, djassi og samtímatónlist. Árið 2002 útskrifaðist ég sem rafgítarleikari frá djassdeild Tónlistarskóla FÍH. Eftir það lá leið mín í Listaháskóla Íslands þar sem ég lauk BA prófi úr tónsmíðadeild árið 2007. Sumarið 2009 lauk ég svo mastersprófi í tónsmíðum frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn og hef starfað sem tónskáld, tónlistarkennari og rafgítarleikari síðan, bæði hérlendis og erlendis. Meðfram þessu hef ég m.a. setið í ýmsum fagráðum og nefndum fyrir fagfélög tónlistarfólks á Íslandi, þ.á.m. fyrir STEF.

Það er mér mikið metnaðarmál að íslenskt tónlistarlíf sé fjölbreytt og að mismunandi straumar og stefnur nái að dafna hér. Í minni eigin tónsköpun hef ég alltaf lagt megináherslu á að brjóta niður múra milli mismunandi tónlistarstíla, og leiða saman flytjendur og höfunda með ólíkan bakgrunn. Þessa hugmyndafræði hef ég líka að leiðarljósi í störfum mínum fyrir samfélag tónlistarmanna á Íslandi. Mér finnst mikilvægt að við styðjum listafólk sem er að stíga sín fyrstu skref út úr bílskúrnum eða tónlistarskólunum, og líka þau sem eru búin að meika það á heimsvísu, og að sjálfsögðu allt það fjölbreytta tónlistarfólk sem raðast einhvers staðar þar á milli. Þess vegna býð ég mig áfram fram í fulltrúaráð STEFs svo ég geti látið rödd mína heyrast til stuðnings fjölbreytts tónlistarlífs á Íslandi.

Nánari upplýsingar um mig má finna á:
hafdisbjarnadottir.com.

Aðildarfélag: TÍ

Halldór
Smárason

Halldór Smárason starfar sem tónskáld og píanóleikari. Hann lauk bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum við Manhattan School of Music vorið 2014, þá sem Fulbright-styrkþegi.

Halldór hefur unnið með mörgum þekktum listamönnum og hópum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ensemble intercontemporain, Útvarpshljómsveitum Parísar og Stuttgart, Strokkvartettinum Sigga, Caput og Sæunni Þorsteinsdóttur. Árið 2020 kom út hans fyrsta hljómplata, STARA, undir merkjum Sono Luminus. Halldór hefur í þrígang hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Auk tónsmíða er Halldór virkur hljómborðsleikari og útsetjari og hefur leikið inn á fjölmargar hljóðritanir.

Aðildarfélag: TÍ

Hallur
Ingólfsson

Hallur Ingólfsson hefur samið tónlist fyrir mikinn fjölda kvikmynda og sviðsverka, auk þess að gefa út tónlist bæði með hljómsveitum og undir eigin nafni. Hann rekur eigið hljóðver og hefur stjórnað upptökum á tónlist annara og séð um hljóðhönnun og hljóðvinnslu á kvikmyndum, auk þess að vera tónlistarstjóri í hinum ýmsu uppsetningum. Hallur hefur haldið fjölda fyrirlestra og stuttra námskeiða um tónlist í ýmsu samhengi í Listaháskóla Íslands og víðar, og hefur einnig tekið þátt í að skrifa og þýða leikverk og söngtexta. Hallur hefur einnig leikið á sviði og í kvikmyndum, og hlotið tilnefningar til bæði Eddunnar og Grímunnar fyrir tónlist sína. Hallur hefur mjög víðtæka og fjölbreytta reynslu af tónlistarstarfi. Hann hefur gegnt ýmsum nefndarstörfum fyrir STEF og setið 2 kjörtímabil í fulltrúaráði og stjórn STEF. Hallur er einnig í stjórn FTT.

Aðildarfélag: FTT

Hildigunnur
Rúnarsdóttir

Hildigunnur Rúnarsdóttir er starfandi tónskáld, tónlistarkennari og söngvari í Reykjavík. Hún hefur setið í fulltrúaráði STEFs í fjölda ára og leggur þar sitt lóð á vogarskálar til stuðnings stjórn STEFs. Hún hefur mikla reynslu í félagsmálum, sat í stjórn Tónskáldafélagsins í 8 ár og í stjórn Tónverkamiðstöðvar í 12 ár, þar af 8 sem formaður miðstöðvarinnar.

Verk Hildigunnar eru flutt reglulega bæði hér á Íslandi en einnig víða um heim.

Hún hefur gott tengslanet í tónlistarheiminum, er virk í söng og kórastarfi og hefur kennt fjölda okkar besta tónlistarfólks af yngri kynslóðum í Listaháskóla Íslands.

Aðildarfélag: TÍ

Hildur Kristín
Stefánsdóttir

Hildur Kristín Stefánsdóttir (Hildur) er lagahöfundur og tónlistarkona úr Reykjavík. Hún hefur getið sér gott orð sem lagahöfundur og pródúser bæði fyrir sína eigin lög en einnig samstörf með öðru listafólki. Ferill hennar byrjaði í indie-rokki með hljómsveitinni Rökkurró þar sem hún söng og spilaði á selló en hljómsveitin gaf út þrjár breiðskífur og fóru á nokkur tónleikaferðalög um Evrópu. Árið 2016 færði hún sig yfir í poppið með laginu “I’ll Walk With You” sem hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins og í kjölfarið gaf hún út 2 EP plötur. Hildur hefur átt þrjú lög í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hún hefur einnig verið afkastamikill lagahöfundur erlendis en hún hefur tekið þátt í fjölmörgum lagasmíðabúðum víðsvegar um heim. Hildur hefur kennt lagasmíðar um árabil, sat í stjórn STEF 2022-2022 og situr nú í stjórn FTT.

Aðildarfélag: FTT

Hilmar Örn
Hilmarsson

Í apríl verða liðin fimmtíu ár frá því að ég ákvað að gera tónlist að þungamiðju lífs míns.

Síðan þá hef ég nálgast flest svið sem tengjast tónlistarframleiðslu; frá því að spila á tónleikum hjá Djassvakningu á Skiphól og í Glæsibæ, leiða Zappa-innblásna hljómsveit með ógleymanlegu nafni sem því miður er glatað, til að flytja tónlist við úrklippuverk eftir Einar Kárason sem hann vann upp úr bókum Enidar Blyton. Þetta var eftir því sem ég veit best í fyrsta sinn sem áhrif Williams S. Burroghs og Brions Gysin birtust í listflutningi hér á landi. Þeir urðu síðar áhrifavaldar í mínu lífi, svo snemma býr að fyrstu gerð!

Ég stóð fyrir tónlistarviðburðum, samdi lög og (skelfilega) texta, stofnaði hljómplötuútgáfu, hannaði plötuumslög og plaköt (sem ég hengdi upp) og var á allan hátt flæktur í þá tilraunatónlistarsenu sem ég átti þátt í að skapa.

Í kjölfarið nýttist þessi reynsla mér vel í vinnu minni við kvikmyndatónlist sem ég hef ástundað síðan 1987 og hef fengið dýrmæta innsýn vegna starfa á Norðurlöndun, Evrópu og Bandaríkjunum, en alls hef ég gert tónlist við 56 myndir.

Allir sigrar STEFs hafa gagnast mér og ég finn fyrir því þegar illa gengur. Ég býð mig fram í Fulltrúaráð STEFs í þeirri von að margháttuð reynsla mín geti komið að notum.

Aðildarfélag: TÍ

Hrafnkell
Pálmarsson

Ég hef starfað sem tónlistarmaður frá árinu 1999, meðal annars með hljómsveitinni „Í svörtum fötum“ og hin seinni ár með sveitinni „Nýju fötin keisarans“. Samhliða hef ég sinnt ýmsum öðrum verkefnum, lagasmíðum og upptökustjórn fyrir mig og aðra.

Ég útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2008 með BA-gráðu í tónsmíðum og liggja eftir mig verk t.d. fyrir kammersveit, kór og strengjakvartett. Þó hefur popp- og rokktónlistin helst átt hugann og hef ég aðallega fengist við slíkar lagasmíðar í gegnum árin.

Árið 2010 útskrifaðist ég frá Háskólanum í Reykjavík með meistaragráðu í stjórnun, MBA og flutti í kjölfarið til Svíþjóðar. Í janúarbyrjun 2013 hóf ég síðan störf hjá STEFi og gegndi starfi innheimtu- og markaðsstjóra hjá samtökunum fram á mitt ár 2023.

Ég hef yfirgripsmikla þekkingu á höfundaréttarmálum og þeirri starfsemi sem fram fer hjá STEFi og tel mig geta verið góða viðbót við þann frábæra hóp fólks sem sinnt hefur trúnaðarstörfum fyrir STEF. Ég býð mig því fram til þjónustu í fulltrúaráði STEFs.

Aðildarfélag: FTT

Iceland Sync
(Brynja)

Iceland Sync Creative (ISC) var upphaflega stofnað sem umboðsskrifstofa árið 2014 af Soffíu Kristínu Jónsdóttur og Steinunni Camillu Sigurðardóttur. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og umbreyst í alhliða tónlistarfyrirtæki sem þjónustar tónlistarfólk á mörgum sviðum og á mismunandi stigum, allt frá umboðsmennsku, bókunum, útgáfu, dreifingu, tónleikahaldi og einnig í auknum mæli sem tónlistarforleggjari (e: music publisher).

Með nýrri forleggjaradeild hámarkar ISC tækifæri og tekjumöguleika höfunda á alþjóðlegum vettvangi, ásamt því að koma Íslandi á kortið í lagasmíðaheiminum, en tekjunum er haldið hér heima á Íslandi.

Hljóti ISC brautargengi í komandi kosningum, þá verður Brynja Guðmundsdóttir fulltrúi fyrirtækisins í fulltrúaráðinu. Brynja er yfir forleggjaradeild ISC (e: Head of Music Publishing & Sync). Hún útskrifaðist með B.A. gráðu af tónlistarbraut LHÍ 2007 og starfaði sem hljóðfæraleikari í um 15 ár.

Árin 2011-2022 starfaði Brynja hjá STEFi og NCB og var fulltrúi STEFs/Íslands í Nordic Sync Reference Group í nokkur ár. Hún er með diploma í alþjóðlegri tónlistarforleggjun frá Hamburg Media School og hóf störf hjá Iceland Sync Creative vorið 2021.

Utan félaga

Kristjana
Stefánsdóttir

Kristjana Stefánsdóttir hefur verið leiðandi tónlistarkona í íslenskri jazztónlist um árabil. Fyrsta plata Kristjönu kom út 1996 og eru plötur hennar orðnar vel á annan tug en hún hefur verið listamaður hjá Dimmu útgáfu síðan 2006. Hún hefur hljóðritað bæði í eigin nafni og kemur reglulega fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónleikum. Kristjana starfar reglulega með öðru tónlistarfólki ma. Stórsveit Reykjavíkur, Rebekku Blöndal, Ómari Guðjónssyni, Þorgrími Jónssyni, Magnúsi Trygvasyni Eliassen, Tómasi Jónssyni og Sigurði Flosasyni og auk þess að starfa með sínum eigin böndum. Hún hefur samið tónlist og tónlistar stýrt fyrir Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið auk þess að leika sjálf í sýningum. Kristjana hefur margsinnis verðið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og er margfaldur Grímuverðlaunahafi (Íslensku Sviðslistaverðlaunin).

Aðildarfélag: FTT

Logi Pedro
Stefánsson

Ég gef enn og aftur kost á mér í áframhaldandi störf fyrir fulltrúaráð STEF. Nú hef ég starfað í tónlistarbransanum og komið að ýmsum verkefnum í tvo áratugi. Samið tónlist fyrir mig, aðra, þætti, leikhús og bíó. Bæði vinsæla tónlist, og svo tónlist sem fáir nenna að hlýða á. STEF er algjörlega einstakt batterí, og það er frábært að fá að taka þátt í stefnumótun og starfi félagsins. Vonandi fæ ég þitt traust!

Aðildarfélag: FTT

Magnús Jóhann
Ragnarsson

Magnús Jóhann Ragnarsson hefur frá árinu 2015 hefur verið mjög virkur sem tónlistarflytjandi, tónskáld og upptökustjóri en hann hefur leikið inná hundruði hljóðrita og kemur fram á fjölmörgum tónleikum á ári hverju. Moses Hightower, Bríet, Ingibjörg Turchi, Aron Can og Bubbi Morthens eru dæmi um samsstarfsaðila hans en sjálfur hefur Magnús gefið út fjórar sólóplötur og eina stuttskífu. Auk þeirra gaf hann út dúóplöturnar Án tillits 2021, með Skúla Sverrissyni og Tíu íslensk sönglög 2022, með GDRN. Magnús var valinn tónlistarflytjandi ársins í opnum flokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2023. Magnús hefur fengist við tónsmíðar í víðu samhengi, bæði lagasmíðar í poppi, rappi og raftónlist sem og kvikmyndatónlist. Honum er annt um hag höfunda, flytjenda og upptökustjóra og vill að síbreytilegt landslag tónlistarinnar endurspeglist í fjölbreyttri flóru fólks innan Stefs.

Utan félaga

Magnús Þór
Sigmundsson

Magnús Þór Sigmundsson hefur starfað sem tónlistamaður frá árinu 1972 fyrst með Jóhanni Helgasyni og svo einn og með ýmsum af okkar þekktustu tónlistar- og textahöfundum. Magnús er enn að glíma við tónlistargyðjuna. Hann slær ekki slöku við, því hann hefur unnið að nýrri 16 laga plötu, „Ég lofa þig líf“, sem senn kemur út ásamt nótnabók með úrvali laga eftir hann, alls 60 útsetningar fyrir píanó og gítar.

Aðildarfélag: FTT

María Huld
Markan

María Huld Markan Sigfúsdóttir (1980) er fiðluleikari og tónskáld og meðlimur hljómsveitarinnar amiinu. Hún hún útskrifaðist með einleikarapróf á fiðlu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2000 og BA í tónsmíðum frá LHÍ árið 2007.

María hefur starfað sem tónlistarflytjandi og tónskáld samfellt frá árinu 2000 og komið víða við, m.a. starfað með hljómsveitinni Sigur Rós í áraraðir sem flytjandi og útsetjari. Hún hefur einnig starfað náið með hinum ýmsu myndlistarmönnum og hljómsveitum hérlendis og erlendis.

Verk Maríu spanna allt litróf tónsmíða, frá sinfónískum verkum, kammerverkum, kórverkum og útsetningum til dansverka, innsetninga og kvikmyndatónlistar. Flestar tónsmíðar hennar hafa verið gefnar út á vegum tónlistarútgáfunnar Sono Luminus og eru fluttar víða um heim.

Aðildarfélag: TÍ

Mikael Nils
Lind

Mikael Lind er 43 ára raftónskáld, fæddur og uppalinn í Svíþjóð, en hefur búið og starfað á Íslandi frá árinu 2006. Hann hefur gefið út fjölda platna undanfarin ár og einnig samið tónverk fyrir listasýningar og ýmislegt fleira. Mikael hefur starfað sem tónleikahaldari í Norræna húsinu, setið í nefndum á vegum ÚTÓN og hefur því góða yfirsýn yfir tónlistarsenuna á Íslandi.

Aðildarfélag: TÍ

Óttarr Ólafur
Proppé

Óttarr Ólafur Proppé heiti ég. Hef verið meðlimur í Stef í yfir 30 ár og virkur höfundur mest með hljómsveitum mínum, HAM, dr. Spock, Rass ofl. Sat í stjórn Stefs frá 2008 til 2017 og frá 2018 til 2020.

Í störfum mínum í stjórn hef ég lagt áherslu á lýðræði innan samtakanna og jafnræði höfunda. Þá hef ég lagt áherslu á fagleg og opin vinnubrögð og samvinnu allra höfunda. Gagnsæi og skýr áhersla á hagsmuni höfundanna sjálfra er besta svarið við efasemdum um tilgang höfundarréttarins.

Ég get hugsað mér á að leggja mitt að mörkum í fulltrúaráði og berjast þar fyrir þessum gildum áfram. Ég tel hins vegar að það sé ekki hollt að sitja endalaust í stjórn og býð mig því ekki fram til stjórnarsetu í þetta skiptið.

Utan félaga

Samúel Jón
Samúelsson

Ég sat í stjórn FTT í 18 ár og þekki því innviði Stefs vel. Hef auk þess setið í fulltrúaráði undanfarin 2 ár auk þess að hafa oft tekið sæti sem varamaður bæði í fulltrúráði og stjórn STEFs. Ég er atvinnu tónlistarmaður og höfundur.

Aðildarfélag: FTT

Sigurður
Flosaon

Ágæti rétthafi,
ég býð mig fram til áfamhaldandi setu í fulltrúaráði STEFs. Innan stjórnarinnar hef ég reynt að beita mér fyrir réttlæti og gagnsæi, einkum hvað varðar ólíkar gerðir tónlistar. Við eigum öll að sitja við sama borð óháð því hvort tónlistin sem við semjum tilheyrir einum flokki eða öðrum. Ég hef sjálfur fengist við margar ólíkar tónlistartegundir og þykir vænt um þær allar. Því eru þessi sanngirnis- og réttsýnismál mér ofarlega í huga. Mér er einnig umhugað um ímynd STEFs út á við, góða þjónustu við meðlimi og viðskiptavini. STEF þarf að hlúa vel að kjarnanum; öflugri innheimtustarfsemi fyrir rétthafa en um leið að rækja menningarhlutverk sitt og samfélagslega ábyrgð. Með nokkurra ára setu í stjórn STEFs tel ég mig hafa áunnið mér þekkingu og reynslu sem ég trúi að muni áfram nýtast öllum rétthöfum, hvar í flokki sem þeir standa, telji þeir mig traustsins verðan. Ég er maður sátta en heldur ekki átakafælinn, gerist þess þörf. Skynsemi og sanngirni eru mín leiðarljós í stjórnarstarfinu.

Aðildarfélag: FTT

Snorri
Helgason

Snorri hefur starfað sem tónlistarmaður frá því um tvítugt, fyrst með hljómsveitinni Sprengjuhöllinni og hefur sent frá sér 6 sólóplötur undir eigin nafni ásamt því að semja tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús. Snorri var framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda á árunum 2009-2011 og hefur setið með hléum í fulltrúaráði STEFs frá 2014.

Aðildarfélag: FTT

Sóley
Stefánsdóttir

Sóley Stefánsdóttir er tónskáld og lagahöfundur úr Hafnarfirði. Hún útskrifaðist af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur síðan þá gefið út fjölmargar plötur og verk sem hlotið hafa bæði verðlaun og viðurkenningar. Árið 2022 var Sóley tilnefnd til Norrænu Tónlistarverðlaunanna og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sama ár fyrir plötu sína Mother Melancholia. Sóley hefur einnig hlotið tilnefningar til ÍSTÓN meðal annars sem bjartasta vonin, lagahöfundur (We Sink), lag (Sunrise Skulls) og plata ársins (We Sink). Árið 2020 fékk hún hvatningarverðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns. Sóley hefur komið víða að og unnið að tónlist fyrir fjögur leikhúsverk en hún hlaut Grímu tilnefningu fyrir tónlist sína úr leikverkinu Nýjustu fréttir. Einnig hefur hún unnið að tónlist fyrir kvikmyndir, dansverk, útvarp og stuttmyndir.

Síðustu tólf ár hefur Sóley ferðast nánast viðstöðulaust um heiminn til að flytja tónlist sína en hún kennir einnig tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og Menntaskólann í tónlist.

Aðildarfélag: FTT

Steinar
Baldursson

Frá árinu 2013 hef ég verið meðlimur í STEF og hef á þessum rúmlega 10 árum samið, framleitt og gefið út fjölda laga, gert útgáfu- og umboðssamninga við erlenda og innlenda aðila og aflað mér fjölbreyttrar reynslu í tónlistargeiranum.

Málefni höfunda eru mér ofarlega í huga og í mínum huga er STEF mikilvæg hagsmunasamtök fyrir íslenska höfunda. Ég tel mikilvægt að stefna STEFs styðji við rótgróna höfunda ásamt því að styðja og efla þann auð sem býr í ungum og upprennandi höfundum. Enginn skortur er á hæfileikaríkum höfundum sem eru að stíga sín fyrstu skref en ég tel að það megi auka þekkingu þeirra á hagsmunum sínum og starfsemi STEFs.

Ásamt tækifærum, standa höfundar frammi fyrir ýmsum áskorunum og er þar helst að nefna óvissu tengt hraðri þróun gervigreindar og áhrifa hennar á höfundarrétt. Enda þótt það sé ekki á færi STEFs að leysa úr öllum þeim áskorunum sem að steðja er mikilvægt að STEF taki þátt í umræðunni, hafi frumkvæði og sé raunverulegur vettvangur fyrir skoðanaskipti um hagsmunamál höfunda.

Stefna STEFs hvað varðar tækifæri og áskoranir þarf að vera skýr og vel mótuð til næstu ára. Jafnframt þarf að fylgja stefnunni markvisst eftir.

Við störf mín í fyrirtækjaráðgjöf hef ég komið að ýmsum verkefnum svo sem stefnumótun, virðismati og öðru sem snýr að rekstri fyrirtækja. Tel ég þá reynslu, ásamt reynslu minni úr tónlistinni muni reynast fulltrúaráði STEFs vel. Ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að efla þá góðu vinnu sem fram fer hjá STEFi.

Utan félaga

Steinunn Camilla
Sigurðardóttir

Framkvæmda- og þróunarstjóri í tónlist. Umboðsaðili tónlistarflytjenda og lagahöfunda og er annar eigandi og framkvæmdastjóri Iceland Sync Creative. Hún er einnig með BA í Skapandi greinum, er söngkona, arfaslakur ukulele spilari og vill stuðla að frekari uppbyggingu innviða í tónlistariðnaðinum á Íslandi

Hún hefur verið í tónlist, viðskiptum og skapandi greinum í yfir 20 ár. Hún var eigandi og rekstrarstjóri Loftkastalans til 2006, en var um leið hluti af Nylon (síðar The Charlies) til 2015. Hún starfaði í tónlist sem söngkona, síðar umboðsaðili og færði sig svo yfir í forleggjun þegar hún tók við sem aðstoðarkona framkvæmdastjóra Honua Records 2015. Hún stofnaði Iceland Sync í Los Angeles 2014 með Soffíu Kristínu Jónsdóttur sem er alhliða tónlistarfyrirtæki sem þjónar flytjendum, lagahöfundum, upptökustjórum og útsetjurum.

Hún hefur tvisvar sinnum verið mentor á vegum STEF í verkefninu Vindur í seglum og var hluti af upphafshóp Keychange 2018.

Frekari upplýsingar:
icelandsync.com
linkedin.com/in/steinunn-camilla

Aðildarfélag: FTT

Sveinbjörn I.
Baldvinsson

Ég gef kost á mér til setu í fulltrúaráði Stefs sem bæði tónskáld og textahöfundur í þeirri trú að fjölþætt reynsla mín geti komið félaginu góða að notum. Ég hef um árabil samið og flutt tónlist og texta af fjölbreyttu tagi og lengi verið félagi í STEFi og FTT.

Helstu verkefni á tónlistarsviðinu sem ég hef komið nálægt, eru: Ljóðfélagið/Stjörnur í skónum (höfundur alls efnis og flytjandi); Diabolus in musica II/Lífið í litum (höfundur og flytjandi); Nýja kompaníið/Kvölda tekur (höfundur og flytjandi); Jóhanna Þórhallsdóttir/Flauelsmjúkar hendur (höfundur og flytjandi); Selma Björns & Þorvaldur Bjarni/All Out of Luck & tvær breiðskífur: Selma og I am (textahöfundur); Birgitta Haukdal/Open Your Heart (textahöfundur).

Þar fyrir utan hef ég verið svo lánsamur að góð tónskáld hafa gert lög við ljóð mín í nokkrum mæli, t.d. Tómas R. Einarsson, Tryggvi M. Baldvinsson og Stefán S. Stefánsson. Um þessar mundir er ég að vinna að upptökum á eigin lögum og textum með Ómari Guðjónssyni, Tómasi R, Tómasi Jónssyni, Magnúsi T. Elíassyni, ofl.

Aðildarfélag: FTT

Þuríður
Jónsdóttir

Þuríður Jónsdóttir hefur starfað samfleytt við tónsmíðar í áratugi og á nú mikilvægan alþjóðlegan feril að baki sem tónskáld. Hún hefur viðamikla reynslu sem tónlistarflytjandi, hérlendis og erlendis í klassískri- og nútíma tónlist jafnt sem ritmískri tónlist. Hún hefur víðtæka þekkingu á fagvettvangi tónlistar á Íslandi sem stjórnarmeðlimur í Tónskáldafélagi Íslands og Íslenskri Tónverkamiðstöð ásamt því að vera varamaður í stjórn STEFs og stjórn Listaháskóla Íslands.

Þuríður nam flautuleik og tónsmíðar í Bologna á Ítalíu. Eftir áralanga dvöl þar ytra býr hún nú og starfar að list sinni og við tónlistarkennslu í Reykjavík. Undanfarin ár hefur hún ferðast um nokkrar heimsálfur sem flautuleikari með Björk.

Þuríður Jónsdóttir skrifar jafnt sinfónísk verk sem kammerverk af ýmsum toga. Hún hefur skrifað óperu, tónlist við útvarpsleikrit og unnið ýmis samstarfverkefni og margmiðlunarverk.
Verk eftir Þuríði hafa verið flutt af hljóðfærahópunum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Los Angeles fílharmóníusveitina, Caput, Ensemble, Adapter. Þau eru flutt á hátíðum eins og Haustinu í Varsjá, Présences í París, November Music, Klang, Norrænum músíkdögum, ISCM og New Directions.

Þuríður var tilnefnd til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs 2006, 2010 og 2012.

Aðildarfélag: TÍ

Um kosningar til fulltrúaráðs (samandregið úr samþykktum)

Skipan fullrúaráðs

Fulltúaráð er æðsta stofnun STEFs, kjörið af almennum félagsmönnum til tveggja ára í senn. Það fundar að jafnaði tvisvar á ári. Ráðið er skipað 21 fulltrúa. Formenn aðildarfélaga STEFs (Tónskáldafélags Íslands og Félags tónskálda & textahöfunda) eru sjálfkjörnir, en 19 fulltrúar kjörnir í kosningu sem fram fer annað hvert ár. Skulu hið minnsta fimm kjörnir fulltrúar koma úr hvoru aðildarfélagi og fimm hið minnsta úr hópi rétthafa utan félaga.

Hverjir geta boðið sig fram?

Þeir höfundar og aðrir rétthafar sem gert hafa aðildarsamning við STEF hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir í fulltrúaráðið, hafi þeir fengið úthlutað að lágmarki samtals 125.000 kr. á undangengnum þremur árum (þ.e. 2021–2023).

Nánar má kynna sér reglur um kosningar til fulltrúaráðs í samþykktum STEFs (sjá 5. kafla, bls. 8).

Scroll to Top