Dagur íslenskrar tónlistar 2023

Dagur íslenskrar tónlistar var skv. venju haldinn hátíðlegur í dag, þann 1. desember. Af því tilefni léku íslenskar útvarpsstöðvar að mestu leyti — sumar eingöngu — íslenska tónlist í dag.

Nemendur leikskóla og grunnskóla um allt land undirbjuggu daginn með því að æfa upp lag dagsins, Það vantar spýtur, eftir Ólaf H. Símonarson. Gerðu skólarnir sameiginlega atlögu að Íslandsmeti í kórsöng og líklegt er að það hafi tekist.

Hátíðardagskrá fór fram í Hörpu, hvar veittar voru viðurkenningar fyrir eitt og annað:

  • Hvatningarverðlaun ársins hlaut Korda Samfónía, fyrir að nýta tónlist og miðla á skapandi hátt til að efla fólk til virkni í samfélaginu.
  • Þjóðhátíð Vestmannaeyja hlaut „Gluggann“ í ár, fyrir að halda úti metnaðarfullri tónleikadagskrá og stuðla að nýsköpun í formi árlegs „þjóðhátíðarlags“.
  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir hlaut nýsköpunarverðlaun ársins, fyrir að tala fyrir og koma í framkvæmd lögum um tónlist og fyrstu opinberu tónlistarstefnu landsins, sem og að eiga stóran þátt í að koma á fót Tónlistarmiðstöð Íslands.
  • Útflutningsverðlunin hlaut Iceland Sync, fyrir að stuðla að útbreiðslu íslenkrar tónlistar, m.a. með því að stefna saman innlendum og fjölþjóðlegum lagahöfundum, upptökustjórum og forleggjurum.
  • Heiðursverðlaunin í ár, „Litla fuglinn“, hlaut vefsvæðið Glatkistan, sem um alllangt skeið hefur haldið utan um fróðleik og sagnfræðimola um íslenskt tónlistarfólk fyrr og nú. Vefurinn er hugarfóstur og einstaklingsframtak hins fórnfúsa og ástríðufulla tónlistaráhugamanns, Helga Jónssonar.
  • Að lokum var Rás 2 verðlaunuð sérstaklega í dag, á 40 ára afmælisdegi stöðvarinnar, en eins og kunnugt er, þá hefur Rásin einatt verið ötul í stuðningi við íslenska tónlist.

Á milli verðlaunaafhendinga fluttu Jóhann Helgason, Elín Hall og hljómsveitin Celebs hátíðargestum ljúfa tóna.

Ljósmyndir: Ásgeir Helgi Þrastarson

Scroll to Top