Eðvarð Egilsson hlaut HÖRPUNA 2024

Eðvarð Egilsson hlaut í gær HÖRPUNA, Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin, sem undanfarin ár hafa verið afhent í Berlín, samhliða hátíðinni Berlinale. Verðlaunin hlaut Eðvarð fyrir tónspor (e: score) við myndina Smoke Sauna Sisterhood, í leikstjórn Önnu Hints. Þetta er í fimmta skipti sem Íslendingur hreppir þessi eftirsóttu verðlaun, en þau voru fyrst afhent árið 2010. Tónlistina vann Eðvarð m.a. í náinnu samvinnu við leikstjórann og kemur mannsröddin mjög við sögu, m.a. rödd leikstjórans, sem er meðlimur eistneska söngtríósins EETER, sem túlkar ýmis mögnuð stef Eðvars í gegnum myndina. Við hjá STEFi erum auðvitað afar stolt af þessari stóru viðurkenningu og óskum Eðvarði og hans fólki hjartanlega til hamingju!

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, ritaði af þessu tilefni:

Það er með mikilli ánægju og stolti sem ég óska Eðvarði Egilssyni til hamingju með Hörpuverðlaunin 2024.

Mér finnst nánast ótrúlegt að þetta sé í fimmta skipti sem smáþjóðin Ísland hlýtur þessi virtu verðlaun. Sumir telja reyndar eina ástæðuna fyrir velgengni íslenskrar tónlistar sé einmitt smæðin, sem leiðir til náins og stuðningsríks listasamfélags. Ég er viss um að mikið sé til í því.

Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að fjárfesting í listum og menningu, ásamt stuðningi hins opinbera við tónlistarkennslu í gegnum árin og bætta innviði tónlistariðnaðarins á seinni árum, hafi sitt að segja, líklega meira en fólk gerir sér grein fyrir.

En að því sögðu, þá er það auðvitað vafalaust að helsta ástæða verðlaunanna nú er einfaldlega vinna og hæfileikar Eðvarðs, sem ég held að eigi fyrir höndum frábæran feril sem kvikmyndatónskáld.

Scroll to Top