Á dögunum stóð STEF fyrir þjónustukönnun, sem við gerum að jafnaði á tveggja ára fresti. Þátttaka var með ágætum og við þökkum góð viðbrögð, það er mikilvægt að vita álit rétthafa á starfsemi og þjónustu STEFs.
Annars vegar er könnunin að upplagi á svipuðum nótum hverju sinni, þannig að samanburður fáist á milli kannana. Hins vegar er jafnan spurt út í sértæk atriði eða málefni sem í deiglunni eru hverju sinni.
Almennt er óhætt að segja að upplifun meðlima af STEFi sé góð, en einungis 1,89% sögðust ósátt við þjónustuna. Ímynd STEFs er ávallt gegnumgangandi stef og leiðir könnunin í ljós að um 67% svarenda telja að ímynd STEFs sé mjög góð eða góð. Til samanburðar var það hlutfall 53% árið 2020 og 59% árið 2022.
Tónleikahald var í fókus að þessu sinni. Voru þátttakendur m.a. spurðir út í landslagið á þeim markaði, einkum fjárhagslega. Það var mat þeirra sem staðið hafa fyrir eða komið fram á tónleikum á s.l. 12 mánuðum, að í u.þ.b. 17% tilfella hafi tónleikar komið út í tapi. Einungis 30% telja miðasölu hafa gengið vel og sögðust 31% beinlínis erfitt að selja miða á tónleika.
Gervigreind hefur verið áberandi í umræðunni undanfarið og var í könnuninni sérstök áhersla á hana. Af þeim höfundum sem höfðu skoðun telja um 38% að gervigreind muni hafa neikvæð áhrif á tekjustreymi þeirra. Nánast allir, eða 95%, telja að tónlistarveitur ættu að auðkenna eða merkja sérstaklega verk sem samin eru af gervigreind, til aðgreiningar frá manngerðum verkum. Þá telja 89% að leita þurfi samþykkis rétthafa áður en gervigreind er mötuð eða þjálfuð með tónlist sem varin er höfundarétti.
Við ítrekum kærar þakkir fyrir þátttöku. Boðið var uppá að setja netfang í „lukkupott“, sem dregið var úr. Hefur heppinn þátttakandi fengið sendan póst með gjafabréfi á tónleika í Hörpu.